Rollerball Rollerball lítur út fyrir að vera eitthvað sem farið hefur verið í framleiðslu án handrits.
Maður hefur nú séð margar Hollywood ævintýramyndir sem þjást af slöppu og heimskulegu handriti, en Rollerball toppar í raun allt það lélega sem ég hef séð undanfarna tíð (ókei, fyrir utan Slackers), og er bara vægast sagt óáhorfanleg. Myndin er svo hryllilega léleg, að ég var næstum því kominn í hláturskast. Samtölin eru meðal þeirra heimskulegustu sem hafa verið skrifaðar, og hvergi finnst söguþráður í myndinni.

Klippingarnar eru líka hálf hallærislegar, og þær geta orðið virkilega óþolandi í ofbeldisatriðum, þar sem þær verða of hraðar. Chris Klein er stanslaust að endurtaka leik sinn úr fyrri myndum sínum, og er þess vegna alltaf eins, en einhverra hluta vegna tekst honum að standa sig mun verr hér en venjulega. Jean Reno er ekki mikið skárri (og maður var farinn að vonast til að hann gæti bjargað myndinni), og leikur eitt leiðinlegasta illmenni sem sést hefur í kvikmynd. LL Cool J á þó nokkur ágæt móment, og Rebecca Romijn-Stamos er með flott body en því miður fer leikur hennar í taugarnar á mér.

Rollerball átti upprunalega að vera með R (b.i. 17 ára) aldursstimpilinn í USA, en hún var mikið klippt niður og því komst hún ekki svo hærra en með PG-13 (það voru aðallega nektaratriðin hjá Stamos sem voru klippt niður - þó að nokkrir bútar af þeim senum séu eftir í þessari útgáfu). En hún er samt sem áður mjög ofbeldisfull, og persónulega finnst mér hún vera OF ofbeldisfull til að eiga skilið aldursstimpilinn sem hún fékk vestanhafs. Tónlistin er betri en myndin á skilið, og sviðsmyndirnar eru ekki af verri endanum. John McTiernan er bókstaflega búinn að rústa ferlinum sínum hér, og það er staðreynd sem maður á ansi erfitt með að kyngja, miðað við hversu margar þrælfínar spennumyndir hann hefur fært okkur (Die Hard, The Hunt for Red October, Predator o.fl).

Fyrir þá sem sækjast eftir spennu sem er peninganna virði, þá mæli ég frekar með Blade II (því hún bíður upp á spennu sem verður aldrei slök), því Rollerball bara 90 mínútna rusl sem gleymist fljótt.

1/2 af ****