Bestu kvikmyndir ársins Annað kvikmyndár er liðið og verðlaunasýningar eru í fullum gangi núna. Þrátt fyrir að mér fannst árið ekki vera neitt sérstakt (þrjár myndir frá 2010 voru betri en allt frá þessu ári að mínu mati) þá var mikið af fínum og mjög góðum myndum – svo mikið að mér líður illa hversu lágar á listanum sumar af þessum myndum eru.

Ég sá mikið af myndir frá 2011 + myndir frá 2010 sem fengu ekki heimsútgáfu fyrr en ári seinna (ein mynd komst á listann, ein önnur í topp 25). Ég sá hins vegar ekki allar sumarmyndirnar (t.d. Transformers 3 og Pirates Of The Carribean: On Stranger Tides), Óskarsbeitumyndirnar (The Artist, Hugo), íslenskar myndir (Eldfjall) og ó-mainstream myndir (vegna náms komst ég ekki á margar myndir á RIFF).

En áður en ég kem með mínar uppáhalds myndir frá árinu þá ætla ég að koma öðru á framfæri fyrst.

Verstu myndir ársins: Jack & Jill (Adam Sandler er nær dauður fyrir mér), Hrafnar, Sóleyjar og Myrra, Breaking Dawn: Part I, Abduction og Beastly

Vanmetnustu myndir ársins: The Green Hornet. Ekki nærri því eins léleg og sumir eru að segja. Leikararnir eru góðir, hefur fínan stíl og ágæt satíra á ofurhetjur, þótt hún sé engin Kick-Ass. Winnie The Pooh líka þar sem nær allir hafa gleymt henni núna.

Ofmetnustu myndir ársins: Melancholia. Kirsten Dunst er góð og myndin inniheldur frábæra kvikmyndatöku, en ég fann ekkert til með aðalkarakternum, klippingin er slöpp og byrjunin fannst mér ekki passa neitt við restina af myndinni. Fannst Rango ekkert vera neitt sérstök heldur.

Besti trailer ársins: Cowboys & Aliens, með commentary frá Ahnold
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=43bd6ahs4Wk

Besti alvöru trailer árins var The Girl With The Dragon Tattoo
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=WVLvMg62RPA

Og hér fyrir neðan eru 20 bestu myndir ársins.

Honorable mentions

50/50; leikstýrð af Jonathan Levine
The Help; leikstýrð af Tate Taylor
The Ides Of March; leikstýrð af George Glooney
Hanna; leikstýrð af Joe Wright
The Muppets; leikstýrð af James Bobin
Super 8; leikstýrð af J.J. Abrams
Tropa De Elite 2 – Inimigo Agora É Outro (Elite Squad: The Enemy Within); leikstýrð af José Padihla20: X-Men: First Class; leikstýrð af Matthew Vaughn
Þar sem ég hef ekki séð neina aðra X-Men mynd þá komst ég ekki nógu vel inn í myndina. En ég var hissa hversu mikið þessi mynd notast við suma karakteranna, og þá sérstaklega Magneto og Xavier. Hasaratriðin voru góð, flestar frammistöðurnar voru fínar, samspil Michael Fassbender og James McAvoy var gott og myndin er ennþá meiri sönnun að Vaughn er frábær ofurhetjuleikstjóri. Ég á eftir að hlakka til næstu myndar hans. Góð prequel mynd.

Uppáhalds atriði: Atriðið með gervihnattadisknum


19: Moneyball; leikstýrð af Bennet Miller
Bennet Miller, handritshöfundarnir Aaron Sorkin og Steven Zaillian og leikararnir Brad Pitt og Jonah Hill koma hér með metnaðarfulla íþróttamynd sem fjallar ekkert um það sem gerist inn á vellinum heldur allt sem gerist utan hans. Pitt og Hill leika mjög vel saman, handritið er hratt, hnittið og áhugavert og hugmyndin um að byggja liðið á tölfræði var miklu skemmtilegra en það hljómar, enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem Sorkin skrifar mynd sem hljómar ekkert rosalega áhugaverð í fyrstu.

Uppáhalds atriði: Þegar Pitt og Hill fara á fullu að skipta út leikmönnum í gegnum síma.


18: Crazy, Stupid Love; leikstýrð af Glenn Ficarra og John Requa
Feel-good mynd ársins. Myndin inniheldur eitt besta leikaraval ársins, með Steve Carell á sínu besta, Ryan Gosling var frábær í sínu hlutverki sem kennari Carrel, Julianne Moore er góð eins og alltaf, og ég get ekki annað en elskað Emma Stone (sem stóð sig líka vel í The Help). Myndin er með þeim fyndnari frá árinu, hafði tvo vel skrifaða söguþræði sem tengdust skemmtilega og manni líður einfaldlega betur eftir hana.

Uppáhalds atriði: Þegar nær allir karakterarnir hittast.


17: Thor; leikstýrð af Kenneth Branagh
Í rauninni er einungis tvennt sem ég get hrósað, því ekkert var nærri því eins gott og það tvennt. Í fyrsta lagi er það leikstjórn Branagh. Tónaskiptin eru góð, myndin inniheldur frábær hasaratriði, Branagh skilur fullkomlega hvernig myndin á að vera og ég elska góðan ofleik og þessi mynd hafði góðan ofleik. Síðan er það Chris Hemsworth sem Thor, en hann nær að koma með rosalega viðkunnalegan karakter sem fær fyrirsjáanlega en trúverðuga þróun, getur verið mjög fyndinn og kemur með fullt af góðum línum. Hafið samt bara í huga að myndin er ekkert að passa upp á að vera trú goðafræðinni. Það er ekki nóg með það að 2011 hafði að minnsta kosti 7 ofurhetjumyndir, heldur voru þar að auki 4 myndir um Þór.

Uppáhalds atriði: Thor þambar drykk


16: Bridesmaids; leikstýrð af Paul Feig
Mynd sem er bæði drepfyndin og langdregin á köflum. Myndin hefur fullt af æðislegum atriðum og leikararnir sýna frábæra hæfileika, en það eru sum atriði sem eru ALLT of löng. Kristen Wiig er frábær sem aðalkarakterinn og Melissa McCarthy kemur með einn skemmtilegasta karakter ársins. Ég skil samt lítið af hverju er verið að bera myndin svo mikið við The Hangover. Fannst lítið svipað við þær.

Uppáhalds atriði: Nær allt frá McCarthy


15: We Need To Talk About Kevin; leikstýrð af Lynne Ramsay
Tilda Swinton kemur eina bestu frammistöðu ársins sem móðir Kevin. Svipbrigðin (og þá sérstaklega í augunum á henni) eru gallalaus og hvað hún gengir í gegnum í þessari mynd er með það óþægilegasta sem ég sá á þessu ári. Ezra Miller er frábær sem Kevin, og er besta enskumælandi illmenni ársins. Ég fílaði líka vel spurninguna um nature/nurture og er farið vel í þessa spurningin inn í þessa mynd. Getur maður fæðst brjálaður eða er maður alinn upp sem brjálæðingur?

Uppáhalds atriði: Atriðið sem breytti öllu.


14: Attack The Block; leikstýrð af Joe Carnish
Þó ég mundi seint kalla þessa mynd hryllingsmynd þá inniheldur hún góða spennu með hnittum samtölunum sem eru alls staðar í myndinni. Það kemur ekki oft fyrir að álit mitt á aðalkarakterunum hringsnýst í gegnum myndina en það var meistaralega vel gert í myndinni. Hópurinn byrjar sem gengi sem maður þolir ekki en á endanum fer maður að halda með þeim í baráttu sinni við geimverurnar. Spennumikil, inniheldur geimverur með frumlegt útlit og skemmtileg. Plús, enginn getur kvartað yfir Nick Frost.

Uppáhalds atriði: Inniheldur íbúðarblokk, gas og flugeld.


13: Winnie The Pooh; leikstýrð af Stephen J. Anderson og Don Hall
Fyrir mér er þetta besta mynd sem Disney hefur komið með síðan Emperor’s New Groove og mynd sem gleymdist allt of fljótt. Sjarmurinn er ennþá þarna eftir 34 ár, karakterarnir eru ennþá jafnæðislegir, lögin eru æðislega grípandi, stíllinn er góður og myndin er frábær í orðagríninu sínu. Sum atriði voru svo vel samin að ég þurfti að horfa á þau aftur strax. Jim Cummings er fullkominn sem Pooh (og líka Tigger). Hann nær röddinni fullkomlega. Synd samt hversu stutt myndin er, hún nær rétt svo klukkutíma með kreditlista.

Uppáhalds atriði: Allt atriðið þegar nokkrir úr hópnum detta ofan í holuna sem þeir gerðu sjálfir.


12: Midnight In Paris; leikstýrð af Woody Allen
Ég er enginn brjálaður aðdáðandi Allen en hér kemur hann með mynd sem inniheldur lítið sem hægt er að kvarta yfir. Handritið er fyndið og vel skrifað; Allen átti skilið Golden Globe verðlaunin fyrir besta handrit. Söguþráðurinn er skemmtilegur, og þeir sem hafa áhuga á menningarsögu 3. áratugar síðustu aldar eiga eftir að elska hversu mikið af karakterum frá þessum tíma koma fram. Owen Wilson er frábær í hlutverki sínu, hef aldrei séð hann eins viðkunnlegan. Woody Allen hefur eins og er metið fyrir flestar Óskarstilnefningar fyrir besta handrit (öll frumsamin). Ég held að það sé öruggt að segja að hann á eftir að bæta það met eftir nokkrar vikur. Ég hef þar að auki ekki séð eins fallega sýn á evrópskri borg síðan In Bruges.

Uppáhalds atriði: Reynar var ekkert atriði sem stóð mikið úr.


11: The Adventures Of Tintin; leikstýrð af Steven Spielberg
Að sjá fólkið á bak við myndina er nógu mikið til að fá kvikmyndafullnægingu. Og myndin olli ekki vonbrigðum. Tintin hefur aldrei verið eins minnugur, Andy Serkis er frábær sem Haddock, útlitið er stórkostlegt og Spielberg skilur fullkomlega hvernig á að gera teiknimynd. Sum atriðin í þessari mynd er nógu góð ástæða af hverju hún var gerð með tölvum. Það var líka gaman að sjá Nick Frost og Simon Pegg í smáhlutverki. Jafnvel með svona litlu hlutverki sýna þeir hversu gott samspil þeir hafa. Skemmtunarmynd á sínu fínasta.

Uppáhalds atriði: Eins skots atriðið í Bagghar, VÁ.


10: The Girl With The Dragon Tattoo; leikstýrð af David Fincher
Fyrir utan að Lisbeth var eftirminnilegri í upprunalegu myndinni og að það passaði betur við myndina að vera á sænsku (enda gerast báðar myndirnar í Svíþjóð), þá er “endurgerðin” betri á nær öllum öðrum sviðum. Myndin flæðir betur, hefur betri framleiðslu á bak við sig, Fincher er góður eins og venjulega, tónlistin, eins og The Social Network, bætir æðislega við andrúmsloftið og aðalleikararnir tveir, Daniel Craig og Rooney Mara, leika vel saman. Það var líka ánægjulegt að Lisbeth var gerð öðruvísi, því það var enginn möguleiki að hún mundi geta toppað Noomi Rapace. Mara var ekki eins köld og siðlaus í túlkun sinni en hún fékk samt sín tækifæri til að láta ljós sitt skína, sem hún náði.

Uppáhalds atriði: Hefnd Lisbeth á Bjurman. Sama og var í upprunalegu myndinni. Kreditlistinn var líka æðislegur.

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=sY4f_83t_rw

9: Source Code; leikstýrð af Dunan Jones
Eins og Shutter Island árið 2010, þá kom Source Code út og hefur síðan gleymst of hratt (held að ein stærsta ástæðan sé hversu snemma hún kom út á árinu). Duncan Jones hefur gert tvær myndir (hin var 2009 myndin Moon), báðar Sci-Fi, og þrátt fyrir svipaðar þemur þá eru myndirnar eins ólíkar og myndir geta verið í sama geira. Hugmyndin á bak við myndina er skemmtileg, eins og að vera að spila tölvuleik aftur of aftur sem verður ekki leiðinlegur, heldur verður vilji manns að klára hann meiri og meiri. Spennan helst alltaf jafnvel, með nokkrum feilskotum hér og þar. Plús þetta er Jake Gyllenhaal í Sci-Fi. Ég get ekki kvartað.

Uppáhalds atriði: Held að atriðið þegar hann hringdi í pabba sinn hafa skorist mest út.


8: Jodaeiye Nader Az Simin (A Separation); leikstýrð af Asghar Farhadi
Söguþráðurinn er kannski ekki mjög flókinn, en karakterarnir eru það og þar að auki siðferðislegu spurningarnar um lyga, efasemdir og von. Myndin spyr margra erfiðra spurninga um þessar þemur en kemur ekki beint með svör, heldur lætur áhorfandann skoða karakterana og koma með sínar eigin skoðanir á aðstæðunum. Myndin notar eingöngu orð, það er ekki farið ódýrar leiðir með þau heldur farið beint að því sem skiptir máli, og spennan minnkast aldrei. Leikurinn er líka stórkostlegur frá öllu liðinu. Af öllu sem verður á Óskarnum, þá verður ekkert eins fyrirsjáanleg og þegar A Separation vinnur fyrir bestu útlensku myndina.

Uppáhalds atriði: Þegar hjónin fara heim til Houjat
og Razieh.


7: The Tree Of Life; leikstýrð af Terrence Mallick
Af öllum myndunum sem ég kem með á listann þá mæli ég síst með þessari, sérstaklega fyrir fólk sem fer ekki oft í bíó. Það eru ekki allir sem eiga eftir að fíla mynd sem inniheldur mjög sérstakan strúktúr, 20 mínútur af sköpun heimsins, fullt af skotum sem hafa nær engann tilgang í myndinni og stjórnast meira af þemum heldur en sögu. En það skiptir mig litlu máli. Það er fínt að fá mynd öðru hverju sem er ólíkt öllu öðru sem maður hefur séð sem nær að dáleiða mann í 130 mínútur. Frammistöðurnar eru góðar, þemurnar eru áhugaverðar og það getur enginn kvartað yfir fullkomnu kvikmyndatökunni og útliti. Af öllum myndum sem ég sá á árinu þá var The Tree Of Life besta bíóupplifunin.

Uppáhalds atriði: Lacrimosa


6: The Descendants; leikstýrð af Alexander Payne
Clooney kemur með bestu frammistöðu feril síns, lúmsk framistaða sem byggist mikið á frábæru svipbrigðum hans og það líður ekki langt þangað til maður nær að finna vel til með því sem er að koma fyrir hann. Hann heldur myndinni frábærlega uppi og er nær fullkominn allan tímann. Aukaleikararnir eru góðir (Matthew Lillard og Shailene Woodley voru æðisleg), myndin náði vel að blanda drama og húmor og kemur með raunsæa mynd um fjölskyldulíf og erfiði þess með góðri fágun og virðingu.

Uppáhalds atriði: Þegar Clooney og Lillard hittast. Bæði fyndin og snertandi sena.


5: La Piel Que Habito (The Skin I Live In); leikstýrð af Pedro Almodóvar
Áratugurinn hefur ekki verið góður fyrir illmenni. Í fyrra voru áreiðanlega bestu illmennin þeir sem voru í Scott Pilgrim Vs. The World. Fyrir utan We Need To Talk About Kevin þá voru bestu illmenni ársins úr tveimur myndum sem voru ekki á ensku. Antonio Banderas er frábær í þessari mynd sem illmennið Ledgard og karakterinn hennar Elena Anaya, Vera, var vel skrifaður karakter. Karakterstúdían á karakterunum þeirra var vel meðhöndluð, álit manns á þeim breytist sífellt og það var ótrúlegt hversu mikla samúð maður fær fyrir báðum eftir að maður sér baksögur beggja, þó Ledgard er alltaf jafn óhugnalegur. Annars er myndin súr, ófyrirsjáanleg, einkennileg og áhugaverð innlit á hefnd, eftirsjá og siðblindu. Þetta var mynd sem hélst í hausnum á mér lengi. Sterk siðferðisleg upplifun.

Uppáhalds atriði: Aðgerðin í miðri myndinni.


4: Warrior; leikstýrð af Gavin O’Connor
Eins og Avatar var fyrir 2009, þá er Warrior sönnun fyrir því að klisjukennd mynd getur verið frábær. Aðalleikararnir þrír eru frábærir. Joel Edgerton og Tom Hardy (sem ég er farinn að hlakka mikið til að sjá sem Bane) hafa bæði leikhæfileika og trúverðugan styrk fyrir hlutverkin sín en það er Nick Nolte sem stelur hins vegar senunni. Fjölskylduerjurnar eru vandaðar, slagamálin eru þung og endirinn er einn sá besti á árinu. Leiðinlegt að nær enginn fór á hana. Besta íþróttamynd sem hefur komið út síðan… The Wrestler.

Uppáhalds atriði: Með endinum var líka atriðið þegar Nolte missir það.


3: Drive; leikstýrð af Nicolas Winding Refn
Drive er það sem maður mundi fá ef maður mundi blanda saman bílum, 80’s, neo-noir og vestra, og útkoman er stílísk og stórkostlega vel leikstýrð mynd. Ryan Gosling kemur hér með bestu frammistöðu sem ég hef séð frá honum. Aukaleikarar á borði við Albert Brooks og Bryan Cranston gera rosalega góða hluti fyrir karakteranna sína, reyndar er ekki einn einasti leikari sem skilar ekki sínu á frábæran hátt. Myndin er spennumikil, notar þagnir fullkomlega, hefur stórkostlegt flæði, er bæði falleg og brútal (lyftuatriðið er gott dæmi um bæði), og tónlistin er æðisleg. Hefði endirinn verið betri hefði myndin farið upp um eitt sæti.

Uppáhalds atriði: Lyftusenan og síðari flóttasenan


2: Harry Potter And The Deathly Hallows: Part 2; leikstýrð af David Yates
Að mínu mati er þetta besta Harry Potter myndin og líka ein besta fantasíu-mynd síðari ára. Myndin er í rauninni eitt stórt klæmax sem er stórkostlegt að horfa á. Dramað er vel meðhöndlað, leikurinn heldur áfram að bætast hjá ungliðinu, Alan Rickman kemur með bestu frammistöðuna í seríunni og sumar breytingarnar fannst mér vera betri heldur en það sem var í bókinni. Fyrir utan nokkrar holur, nokkra vannýtta karaktera og að það er of augljóst að uppáhalds karakter Steve Kloves sé Hermione, þá hef ég verið mjög ánægður með þessa seríu og ég gat ekki beðið um betri endi, þó myndin sé ekki gallalaus.

Uppáhalds atriði: Prince’s Tale og lokahluti bardagans.


1: Jusannin no Shikaku (13 Assassins); leikstýrð af Takashi Miike
Þetta er tæknilega séð 2010 en vegna þess hversu seint hún kom til vesturhluta heimsins læt ég hana vera á listanum.
13 Assassins hefur fullt af góðum hlutum og einn risastóran kost. Illmennið er sá næst besti frá árinu (á eftir The Skin I Live In), karakterarnir sem fá einhvern fókus eru eftirminnilegir, myndin flæðir vel, er vel leikin, inniheldur frábæra uppbyggingu og hefur smá tilvísun til Seven Samurai með nokkra karaktera.
En það besta við myndina er síðustu 40 mínúturnar. Á meðan uppbyggingin var frábær þá var það ekkert miðað við útkomuna. Allt við klæmax myndirnnnar er fullkomið. Flæðið, spennan, “choreographið”, hversu vel uppsett þetta er, hversu mikið æðislegt gerist, hversu blóðugur bardaginn er og margt fleira. 13 Assassins inniheldur án efa einn besta bardaga allra tíma. Kurosawa mundi verða ánægður með þessa mynd.

Uppáhalds atriði: Hvað haldið þið?

Hverjar voru þínar uppáhalds myndir frá árinu?

-sabbath