Háðsádeilur kalla fram hlátur með því að benda á tilgerðarleika, með því að finna fáránleikann sem býr undir hástemmdu yfirborðinu. Allt gott og blessað með það. En hvernig í fjáranum er þá hægt að hæðast á myndum eins og “Road Trip” eða “American Pie” sem er fullkomlega kunnugt um eigin vitleysu og fáránleika? Svarið er að það er ekki hægt. Það stöðvaði þó ekki framleiðendur “Not Another Teen Movie” frá því að reyna og svörin sem þeir komu upp með var einfaldlega að ganga lengra á öllum sviðum en fyrrnefndar myndir. Svoleiðis rembingur er ekki fyndinn, hann er sorglegur.

Já, þessi mynd er háðsádeila á táningamyndir síðustu ára, myndir eins og “American Pie”, “Cruel Intentions”, “10 Things I Hate About You”, “Varsity Blues”, síðustu tíu myndir Freddie Prinze Jr., þ.á.m. “She's All That” sem virkar sem grunnurinn undir “söguþráðinn” í þessari mynd. Ríki sæti strákurinn gengur að veðmáli þess efnis að hann geti tekið ljótustu stelpuna í skólanum og gert hana að útskriftardrottningu (e. Prom Queen). Hann verður auðvitað ástfanginn enda kemur í ljós að aðeins þurfti að fjarlægja gleraugun og hárteygjuna til þess að hún breyttist í flottustu píuna í bænum. Þetta er auðvitað söguþráður næstum allra “alvarlegra” táningamynda síðustu fimm ár með örlitlum tilbreytingum hér og þar.

Það verður að viðurkennast að sumt af þessu efni býður upp að grín sé gert af því enda yfirfullt af klisjum og yfirgengilega hallærislegum senum. Stundum tekst líka handritshöfundunum hér að virkja húmorinn en það gerist helst í látlausustu senunum þegar bent er á tilgerðarleika fyrrnefndra mynda. Oftast er þó tímanum eytt í yfirgengilegan rembing þar sem aldrei er lagst nógu lágt til að knýja fram hlátur. Þetta er aldrei fyndið né skemmtilegt. Að lokum má raunar segja að þessi mynd falli í verstu hugsanlegu gryfjuna sem hún gat fallið í. Þetta er bara enn ein táningamyndin.