Halley berry slasast við upptökur á james bond Bandaríska leikkonan Halle Berry varð fyrir óhappi við tökur á nýrri James Bond-mynd á Spáni þegar framkölluð var röð sprenginga. Leikkonan var flutt í skyndi á sjúkrahús og gekkst undir hálfrar klukkustundar aðgerð.

Í frétt BANG Showbiz segir að brot úr reyksprengju hafi lent í auganu á Berry og þurfti hálftíma aðgerð á sjúkrahúsinu Nuestra Senora de las Salud til að fjarlægja það. Augað á leikkonunni er núna rautt og þrútið en hún er þó sögð taka óhappinu með jafnaðargeði.

Antonio Fernandez, læknirinn sem sinnti Berry, segir að hún hafi verið heppin að ekki fór verr.

Tökurnar fara fram í Cadiz. Í myndskeiðinu sem verið var að taka skýtur Pierce Brosnan, í hlutverki Bond, niður þyrlu. Nafn persónunnar sem Berry leikur í myndinni er Jinx. Í ljósi óhappsins á laugardag hlýtur það að teljast viðeigandi en jinx þýðir óheillakráka á ensku.

Eiginmaður Berry, Eric Benet, kom með flugi frá London til að hjúkra rauðeygðri spúsu sinni.

Hluti nýju Bond-myndarinnar var tekinn hér á landi fyrr á árinu en enginn af aðalleikurum myndarinnar var viðstaddur þær tökur.