A Beautiful Mind sigrar á sögulegri Óskarshátíð Óskarsverðlaunin voru afhent í Los Angeles í nótt að íslenskum tíma, og eins og venjulega var athyglisvert og ekki síður skemmtilegt að fylgjast með herlegheitunum. Kvikmyndin A Beautiful Mind var valin besta kvikmynd ársins 2001 og hlaut fern óskarsverðlaun, rétt eins og Hringadróttinssaga. Blað var brotið í sögu verðlaunanna, þegar þeldökkir leikarar unnu bæði aðalleikaraverðlaunin, en það hafði einungis gerst einu sinni áður í sögu Óskarsverðlaunanna að blökkumaður ynni aðalleikaraverðlaunin, Sidney Poitier, árið 1963, en Poitier fékk heiðursóskarinn á Óskarsverðlaunahátíðinni í ár. Ég ætla að fara yfir helstu flokkanna og tjá mig um úrslitin.

Besta kvikmyndin: Spá mín um að A Beautiful Mind, myndi vinna þessi verðlaun, gekk eftir. Ég taldi nokkuð augljóst að hún myndi vinna þessi verðlaun, enda hafa myndir um geðsjúkdóma, um andlegar krísur aðalhetjanna og svokallaðar vandamálamyndir ávallt átt upp á pallborðið hjá Akademíunni, og góð dæmi um það eru American Beauty, Forrest Gump, Ordinary People, Rain Man, Terms of Endearment og margar fleiri mætti telja. Þrátt fyrir að töfrar Hringadróttinssögu séu óumdeildir og sú staðreynd að hún er stórfengleg að öllu leyti, náði hún ekki að vinna þessi verðlaun. Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvort framhaldsmyndirnar nái að feta í fótspor þessarar fyrstu myndar í seríunni á næstu verðlaunahátíðum.

Besti leikstjóri: Spá mín um að Ron Howard, leikstjóri A Beautiful Mind, ynni leikstjóraóskarinn rættist, eins og mig hafði grunað, að myndi gerast. Þeir Robert Altman og Peter Jackson áttu þessi verðlaun ekki síður skilið og myndirnar þeirra voru afbragðsgóðar. Ron Howard var sniðgenginn af Akademíunni 1995, þegar mynd hans, Apollo 13, var tilnefnd sem besta myndin, en hann fékk ekki leikstjóratilnefningu. Svo var það til að undirstrika að hann var nokkuð öruggur með þetta að hann fékk DGA-leikstjóraverðlaunin, en það hefur gerst í 47 skipti af 51 að sá sem vinnur þau verðlaun vinnur leikstjóraóskarinn.

Leikari í aðalhlutverki: Denzel Washington fetaði í fótspor snillingsins og læriföður síns í leiklistinni, Sidney Poitier og vann þennan óskar, en 39 ár eru liðin frá því að Poitier vann þessi verðlaun. Hann verðskuldaði þennan heiður, enda var hann frábær í Training Day, það má þó líta á þessa viðurkenningu sem sárabót fyrir tapið 1999, þegar hann var tilnefndur fyrir afbragðsleik sinn í The Hurricane, en hann beið þá lægri hlut fyrir Kevin Spacey í American Beauty. Russell Crowe má vel við una þó hann hafi tapað fyrir Washington, hann vann í fyrra fyrir leik sinn í Gladiator, og hann hefur á nokkrum árum unnið sér sess sem einn fremsti leikari sinnar kynslóðar. Denzel Washington verðskuldaði þennan heiður.

Besta leikkonan: Halle Berry komst á spjöld sögunnar í kvöld, og vann Óskarinn öllum á óvart, og sjálfri sér einna helst, enda var hún mjög hrærð yfir sigrinum. Hún er fyrsta blökkukonan sem vinnur aðalleikkonuóskarinn í 74 ára sögu verðlaunanna, og átti sigurinn skilið fyrir stórleik sinn í Monster´s Ball, hún kemst með þessum sigri í sögubækurnar og afrekar það sem Dorothy Dandridge tókst ekki 1954, að verða fyrsta blökkukonan til að hrósa sigri í þessari kategóríu. Sissy Spacek var mögnuð í In the Bedroom, og hefði átt að vinna þessi verðlaun að mínu mati, en það spilar vissulega inn í að hún vann þessi verðlaun 1980, fyrir Coal Miner´s Daughter. Sigur Halle Berry er mikil viðurkenning fyrir þeldökkar leikkonur og verður vonandi til þess að möguleikar þeirra verði meiri en ella og þær njóti sömu möguleikar og aðrar leikkonur, þetta er mikil viðurkenning fyrir þeldökkar leikkonur og mikið ánægjuefni að þessi múr sé fallinn.

Leikari í aukahlutverki: Jim Broadbent kom öllum á óvart og vann Óskarinn í þessum flokki fyrir leik sinn í kvikmyndinni Iris, þar sem hann lék John Bayley, eiginmann skáldkonunnar Iris Murdoch. Það kom mér persónulega á óvart að Sir Ian McKellen skyldi ekki vinna þessi verðlaunin, það var mitt mat að hann hefði átt að vinna þessi verðlaun. En Broadbent á þetta að öllum líkindum skilið, það verður athyglisvert að horfa á þá mynd, ég bíð spenntur eftir henni, enda er hún lofuð fyrir afbragðsleik.

Leikkona í aukahlutverki: Það fór eins og ég spáði í þessum flokki. Jennifer Connelly vann sannfærandi sigur fyrir stórleik sinn í A Beautiful Mind, þar sem hún lék Aliciu Nash, eiginkonu stærðfræðisnillingsins John Forbes Nash. Það spillti fyrir möguleikum Maggie Smith og Helen Mirren, að þær voru báðar breskar og léku í sömu mynd. Þær voru frábærar í Gosford Park. Jennifer Connelly verðskuldaði þennan sigur, enda fer hún á kostum í sinni mynd.

Erlenda myndin: Úrslitin hér komu á óvart, franska perlan um Amélie beið lægri hlut fyrir Bosnísku myndinni No Man´s Land. Það var mín skoðun að Amélie hefði átt að vinna þessi verðlaun.

Besta lagið: Það kom loksins að því að Randy Newman ynni óskarinn, þetta var hans 16 tilnefning og hann hefur átt mörg úrvalslög sem hafa hlotið tilnefningu, hann var vel að þessu kominn. Hin lögin voru misgóð, en sigur Newman er án nokkurs vafa sárabót fyrir hversu oft hann hefur verið sniðgenginn af Akademíunni.

Þetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Að mínu mati var hápunkturinn þegar snillingurinn Sidney Poitier tók við heiðursóskarnum, ræðan hans bara af öllum þeim sem voru fluttar á hátíðinni, boðskapurinn í henni var góður og hann vann sennilega sinn mesta leiksigur þegar hann tók við þessari viðurkenningu. Einnig var gaman að sjá gamla brýnið Robert Redford taka við sínum heiðursóskar, ræðan hans var mjög góð. En þetta var semsagt söguleg hátíð, þeldökkir leikarar fengu loksins uppreisn æru og hlutu loksins verðskuldaða viðurkenningu. Hringadróttinssaga hlaut fern óskarsverðlaun, ég hefði viljað að hún hefði tekið eitthvað að stóru verðlaununum en svona er þetta, það verður einhver að vinna. A Beautiful Mind var vel að sínum verðlaunum komin, og það var erfitt að velja á milli þessara stórkostlegu mynda.

En eftir stendur að ekkert er öruggt þegar þessi verðlaun eru annars vegar og það geta alltaf óvæntustu hlutir gerst, það fór ekki allt eins og spáð var og hátíðin var meira spennandi nú en oft áður og jafnari. Þessi hátíð er alltaf jafn skemmileg, þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni!

stebbifr
kasmir.hugi.is/stebbif