Tónaflóð - Heilbrigð þjóðernishyggja gegn nasisma

Margir kannast eflaust við kvikmyndina “Sound Of Music” (Tónaflóð) frá árinu 1965 enda um að ræða sígilt verk. Þessi kvikmynd er í miklu uppáhaldi hjá mér, bæði einfaldlega vegna þess hversu góð myndin er sem slík en einnig fyrir þær sakir að í henni má sjá gerðan skýran greinarmun á heilbrigðri þjóðernishyggju og nasisma.

Myndin gerist í Austurríki rétt áður en landið er innlimað í Þýskaland nasismans árið 1938. Önnur aðalsöguhetjan er fyrrverandi skipherra í keisaralega austurríska sjóhernum sem er sestur í helgan stein. Hann er ennfremur mikill föðurlandsvinur og þjóðernissinni og hefur algera óbeit á nasistum. Hann er ekkert að leyna fyrirlitningu sinni á þeim sem styðja Hitler og hans hyski og er stoltur af því að vera Austurríkismaður.

Lokaatríði myndarinnar er sérstaklega eftirminnilegt fyrir þessar sakir. Þar syngur skipherrann austurríska þjóðlagið “Edelweiss” (Alparós) á sönghátíð með undirtektum austurrískra áhorfenda sinna í óþökk viðstaddra nasista. Vissulega er þetta Hollywood-kvikmynd en þessi föðurlandssinnuðu atriði í myndinni hreyfa við manni og minna mann á það hve göfug hugsjón heilbrigð þjóðernishyggja er þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir andstæðinga hennar til að sverta hana í augum fólks.

Ég vil því bara hvetja alla sem ekki hafa séð myndina til að sjá hana. Hún er reyndar hryllilega væmin á köflum en engu að síður stórvirki og þess virði að berja hana augum.

Hjörtur J.
Með kveðju,