Fight Club Leikstýrð af David Fincher, einum áhugaverðasta leikstjóra síðustu ára. Hann á frábærar myndir að baki ss. Alien3, The Game, Se7en og fleiri. Næsta mynd hans sem kemur í bíó á næstunni er trillirinn Panic Room. Með aðalhlutverk fara þar Jodie Foster og Jared Leto, sem lék einnig í Fight Club eða ljóshærði gaurinn sem Edward Norton lamdi alveg í klessu. Með aðalhlutverk í Fight Club fara Edward Norton, Brad Pitt og Helena Bonham Carter.

Fight Club fjallar um Jack (Norton). Jack á við mjög leiðinlegan vanda að stríða, svefnleysi. Jack er í rauninni aldrei vakandi og aldrei sofandi á næturna. Honum leiðist lífið alveg svakalega og biður um flugslys eða eitthvað sem veldur því að hann deyr. En einn dag prófar hann að fara á svona fundi, fundi fyrir fólk með sjúkdóma. Eftir einn fundinn gerist dáldið merkilegt, Jack sofnar. Hann byrjar að sækja þessa fundi reglulega og ekki bara einn fund, heldur allar tegundir funda. Allt gengur eins og í sögu.. þangað til hún kom, Marla (Helena). Eftir að hún kom getur Jack ekki sofnað lengur og gerir varla annað en að hata Mörlu. Þá hittir Jack merkilegan mann í flugvél, Tyler Durden (Pitt). Tyler er mjög áhugaverður maður enda býr hann til sápu og hinum skrýtnustu efnum og starfar hann sem sápusölumaður og þykir hinn besti í sínu fagi. Eftir nokkra drykki á bar byrja þeir að slást, það veitir þeim einhvers konar ánægju sem aðrir en þeir eiga eftir að sækja eftir. Seinna stofna þeir félagar Bardagaklúbbinn eða Kýlingaklúbbinn eins og það var skemmtilega þýtt á Textavarpinu :) Meðlimum fjölgar og klúbbar vaxa útum allt land. En þegar líður á þennan klúbb og starfsemi hans fer sitthvað að fara úr böndunum og Jack kemst að svolitlu sem á eftir að breyta lífi hans að eilífu.

Fight Club er 34. besta mynd allra tíma samkvæmt listanum á IMDb.com og ég tel það vera mjög áreiðanlegan lista. Fight Club kostaði $64 milljónir dollara í framleiðslu en rúmlega $37 milljónir komu inn frá Bandaríkjunum, svo kom $71 milljónir utan úr heiminum þannig að það komu inn $108 milljónir inn. Fight Club var tilnefnd til einna Óskarsverðlauna, bestu hljóðbrellurnar en hún fékk þær ekki. Edward Norton átti að fá tilnefningu því hann lék Jack alveg meistaralega, eins og flest hlutverk sem hann fær í hendurnarnar. Brad Pitt sýndi einnig frábæra takta sem Tyler Durden, eina skemmtilegustu persónu sem ég hef kynnst á hvíta tjaldinu. Helena Bonham Carter var líka skemmtileg sem niðurdrepandi keðjureykjandi manneskjan. Handritið er alveg svakalega skrifað, David Fincher kann sko að flækja málin, handritið er yfirfullt af allskonar flækjum sem lætur Sixth Sense líta út sem Stubbana í samanburði við Fight Club. Kvikmyndatakan var mjög sérstök og ekki var tónlistin verri, samin af The Dust Brothers, mjög skemmtileg og töff tónlist sem þeir sömdu.

Þið munið eftir atriðinu þegar Tyler og Jack voru að skjóta golfkúlum í eldgamla verksmiðju, fullir? Þeir voru nú ekki mikið að leika þetta, þeir voru nefnilega sjálfir fullir þarna. Það er ekki mjög erfitt að spoila myndinni fyrir þeim sem hafa ekki séð hana, það voru mörg mörg atriði á imdb.com sem ég hefði getað komið með en vill ekki birta þau hér svo að þeir sem hafa ekki séð myndina, sjái hana spoilerfría. En ég mæli mjög mikið með þessari mynd fyrir þá sem hafa ekki séð því hún er fyrsta flokks skemmtun. En kannski þarf maður að horfa á hana oftar en einu sinni, því hún er ekkert mjög einföld þessi mynd. Fight Club fær ***½/**** hjá mér.

'It's only after you've lost everything that you're free to do anything.'