Það hljóta ALLIR að hafa séð þessa mynd sem er tærasta snilld íslenskrar kvikmyndasögu. Ég held að það verði aldrei hægt að endurtaka þetta ótrúlega útspil Ágústs Guðmundssonar með snillingunum í Stuðmönnum og Grýlunum, þetta var svona moment sem tókst að fanga og kemur ekki aftur.
Þessi mynd er framleidd 1982 (eða kemur a.m.k. út þá) og þá er ég akkúrat svona að komast upp á unglingsárin - já ég er svona gömul :)
Þannig að kynslóðin mín, fædd svona frá ‘65-’75 ólst upp með þessa mynd í sálinni.
Næsta kynslóð á eftir (c.a.'75-'85) uppgötvaði myndina aftur þegar hún fór að fást með pylsupökkum í Bónus og fílaði hana í tætlur.
Og nú er næsta kynslóð að byrja ('85-'95). Við vorum að kynna þessa mynd fyrir syni okkar sem er á níunda ári (f.'93) og núna fer hún hreinlega ekki úr vídeótækinu. Allir vinir sem koma í heimsókn eru dregnir inn í herbergi og látnir horfa á Með allt á hreinu og allir kútveltast um af hlátri. Frasarnir eru farnir að lifa góðu lífi á heimilinu. “Mikið svakalega var þetta léleg dúkka, þetta er ábyggilega amatör”. “Það verður engin fj.. rúta, það verður langferðabíll”.
Yndisleg, yndisleg mynd.
Kveð ykkur,