Don´t Say A Word Don´t Say A Word er spennumynd sem ég var ekkert rosalega spennt fyrir en lét mig samt hafa það að kíkja á hana. Ég bjóst við að þetta yrði nákvæmlega eins og Ransom nema bara svissað á Michael Douglas og Mel Gibson og sonurinn sem hvarf er orðin að dóttur. Treilerinn var allavega þannig, alveg ömurlegur treiler.

Myndin fjallar semsagt um æðislega hamingjusama fjölskyldu sem er nýkomin úr skíðafríi. Eiginkonan er ofsa hress með gifsi upp að læri og eiginmaðurinn, sálfræðingur sem Michael leikur, er sjúklega góður pabbi og fínn kall. Dóttirin er ofsalega klár og góð stelpa. Svo er henni rænt. Henni er rænt því vondu kallarnir vilja upplýsingar sem leynast í hugarskotum nýjasta sjúklings sálfræðingsins. Myndin byrjar vel en eins og með flestar myndir í dag verður hún klisjukenndari með hverri mínútunni.

Nýi sjúklingurinn er hin sjúklega sjúskaða Elisabeth sem leikin er af Brittany Murphy (gellan sem var í ástarsorg og söng “rolling with the homies” í Clueless). Að mínu mati var of hún ofmeiköppuð og svolítið bjánaleg. Hún varð vitni af hrottalegu morði föður síns og hefur verið nöttari síðan og dvalið á tuttugu mismunandi stofnunum og fengið 20 mismunandi sjúkdómsgreiningar. En Dr. Conrad (Michael) er svo klár að hann fattar að þetta er allt tilgerð eftir fimm mínútur með gellunni og notar hana í stríðinu við vondu karlana. Þetta var ekki sannfærandi mynd og frekar neyðarleg á stundum. Af hverju skjóta vondu karlarnir ekki góðu karlana um leið og færi gefst??? Af hverju er alltaf beðið í fimm mínútur með byssuna í annarri og fjársjóðinn í hinni og sagt eitthvað hnittið eða töff??? Ég skil það ekki. Og allar spennumyndir enda á handalögmálum! Það skil ég ekki heldur. Hvort sem slagurinn byrjar í kafbátum, skriðdrekum eða þyrlum þá enda aðalgæjarnir alltaf án allra vopna, kýlandi hvorn annan. Bíddu…..hvar var ég? Já, Þegiðu eða Don´t Say A Word er ekki góð mynd!