Black Hawk Down 3. október, 1993 biðu Bandaríkjamenn sinn mesta ósigur síðan Víetnam. 123 bandarískir hermenn, “The Rangers”, voru sendir í leiðangur til Mogadishu. Markmið ferðarinnar var að handsama tvo Sómalíska hryðjuverkamenn. Verkefnið átti að taka u.þ.b. eina klst en allt fór úr böndunum, ein þyrlan þeirra, Svarthaukur, varð fyrir skoti og féll til jarðar. Þar sem aðalinntak þessa liðssveitar er að skilja ekki við neinn félaga sinn, hvort sem hann er dáinn eða lifandi þá breyttist verkefnið úr að handsama þessa hryðjuverkamenn yfir í að bjarga félögum sínum. Vegna þessa mistaka dróst verkefnið yfir í 15 klst og þar sem Sómalíumenn eru á hverju strái og ekkert vingjarnlegir verður baráttan ein sú erfiðasta í sögunni.

Með þessari mynd hefur Ridley Scott sannað að hann er meðal bestu leikstjóra samtímans. Ég gerði mér ekki of miklar vonir um gæði myndarinnar þegar ég heyrði fyrst að Jerry Bruckheimer ætti sinn hlut í henni, því hann hefur sagt það sjálfur að honum er alveg sama hvort fólki líkar myndin eða ekki. Hann vilji bara fá þau í bíó og græða peninga. En eftir þessa mynd breyttist álit mitt á Bruckheimer þónokkuð mikið. Hann hefur gefið út mynd sem getur talist betri en poppkornsmyndirnar svokölluðu, sem er reyndar komið útfrá myndum Jerry's. Það má reyndar segja að gæði myndarinnar er að mestu leyti Ridley Scott að þakka. En það er ekki hægt annað en að Black Hawk Down sé stórt skref fram á við fyrir Brucheimer.

Myndatakan er mjög góð í myndinni og var allt frá því að vera atvinnuleg myndataka og til svona Digital myndatöku, rétt eins og í Blair Witch. Þannig myndataka finnst mér heppnast vel í stríðsmyndum, gefur rétta andrúmsloftið. Tónlistin minnti mig mjög mikið á Gladiator, enda koma þar sömu menn við sögu, Ridley Scott sem leikstjóri og Hans Zimmer sér um tónlistina. Tæknibrellurnar voru mjög góðar og var fyrsta þyrluslysið mjög vel útfært. Myndin er alls ekki falleg, enda er hér um sannsögulegan atburð að ræða, allt verður að sýnast sem raunverulegast og hægt er. Eitt atriðið er ljótara en annað og er alls ekki við hæfi allra. Og vita þeir sem hafa séð myndina hvaða atriði ég er að tala um.

Margir góðir og frægir leikarar koma fram í myndinni. Tom Sizemore, sem er víst núna að leika í öllum þessum stríðsmyndum ss. Saving Private Ryan og Pearl Harbor. Ewan McGregor er hérna líka og er ekki hægt að segja annað en að myndin sé annað en góður plús fyrir feril sinn, sem er á hraðri uppleið. Josh Hartnett, sem við sáum síðast í Pearl Harbor kemur hér og sýnir á sér betri hlið sem aðalsöguhetjan, Matt Eversmann. Svo koma fleiri frægir og skemmtilegir leikarar, Sam Shepard, Orlando Bloom, William Fitchner og Gregory Sporleder sem stal senunni í The Rock sem hinn brjálaði Cpt. Frye.

Ég get ekki sagt annað en að Black Hawk Down sé ein besta stríðsmynd sem ég hef séð og ein af betri myndum sem ég hef séð. Flest í myndinni er til fyrirmyndar og á myndin alveg skilið nokkrar Óskarstilnefningar. Black Hawk Down fær fjórar af fjórum stjörnum hjá mér.