Þó maður sé nú hálfpartinn búinn að afneita óskarnum vegna valpirrings í gegnum tíðina, þá er maður nokk spenntur varðandi einn ákveðinn hlut. Mun Sean Penn mæta á óskarshátíðina? Hann er tilnefndur fyrir hlutverk sitt sem treggáfaður maður í myndinni“I am Sam”, en hann hefur á sínum ferli verið einn af örfáum listamönnum í heiminum, sem gefið hefur skít í verðlaunahátíðir. Mikið óskaplega vona ég að hann haldi því áfram! Ekki veitir af svona mönnum. Þar með er ég ekki að segja að ég hafi andúð á þeim stórkostlegu hæfileikamönnum sem mæta á hátíðir og þiggja sín verðlaun. Alls ekki! En menn á borð við Penn og svo auðvitað meistari Woody Allen (sem réttir líka hátíðum fingurinn) eru sjaldgæf eintök. Nútíma risaeðlur sem standa fyrir hugsjónir og gildismat í listum sem flestir eru búnir að selja andskotanum. Þeir minna mann á að verðlaunahátíðir eru meira eða minna heimsmeistarakeppni í hégóma. Penn hefur verið tilnefndur allaveganna tvisvar áður fyrir “Dead Man Walking” og “Sweet and Lowdown”, en datt ekki til hugar að mæta. Últrakúl!

Þegar heimurinn er að verða sífellt grárra svæði og menn eru farnir að réttlæta hórerí með allskyns afvegaleiðingum eins og “ég geri þetta og hitt, þigg þessar skrilljónir, á mínum forsendum….”(jökk!), þá eru harðkjarna hugsjónamenn eins og Penn og Allen alger gersemi. Þess vegna er þrjóska þeirra virðingarverðari núna en t.d. þegar George C. Scott og Marlon Brando afneituðu sínum óskurum (sem var einnig kúl) fyrir ca. 30 árum síðan. Hégóminn er lymskufyllri og ógreinilegri í dag, sérstaklega þegar búið er að kommersjalísera kaldhæðnina.

Þrátt fyrir þessar hugleiðingar mínar vona ég að Peter Jackson muni hirða flest það sem er í boði á óskarshátíðinni og standa stoltur á sviðinu. Hann hefur unnið til þess. En afstaða manna á borð við Penn fær hann sem og alla aðra til að hugsa þó ekki sé nema eitt augnablik um hvað það er sem raunverulega skiptir máli í listum. Ég trúi ekki að Penn muni brjóta hefðina og mæta. Vona innilega ekki. Hann sagðist keðjureykjandi í eftirminnilegu viðtali í “60 minutes” fyrir nokkrum misserum: “Gaman er að horfa á alla í mörgæsabúningunum sínum í sjónvarpi. Þetta er heljarinnar skemmtiatriði sem maður nýtur í sjónvarpi. Ekki á staðnum!”. Þessvegna er Sean Penn einn af síðustu töffurunum í heiminum…..