Hal Larson er afar grunhygginn maður. Hann dæmir konur eftir útlitinu líkt og flestir í dag. Hann sækist því eftir sambandi við afar fallegar konur. Eini gallinn er þó að hann er ekki sérlega myndarlegur sjálfur. Þegar hann festist í lyftu með sjálfhjálpargúrúnum Tony Robbins (sem leikur hér sjálfan sig) verður hann ekki samur á eftir og sér aðeins innri fegurð kvenfólks og fellur fyrir konu sem er ögn þybbin svo ekki sé meira sagt. Það verður seint sagt að myndir þeirra bræðra Bobby og Peter Farrelly (Dumb and Dumber, Kingpin, There´s Something About Mary, Me, Myself and Irene) séu pólitískt réttþenkjandi. Þessi mynd er það svo sem ekki heldur en hún fer þó aðeins nær því en fyrri myndir þeirra. Það er óhætt að fullyrða að þessi mynd sé að einhverju leyti markaðssett á fölskum forsendum því þetta er ekki alveg dæmigerð Farrelly bræðra mynd. Hún er óneitanlega mjög fyndin á köflum en hún er umfram allt hugljúf saga um áhersluna á útlit fólks á kostnað innri manneskjunnar. Boðskapurinn er einfaldlega að maður eigi ekki að dæma fólk á útlitinu einu saman því það sé persónuleikinn og það sem býr innra með fólki sem skipti svo miklu meira máli þegar öllu sé á botninn hvolft. Jack Black (Evil Woman, High Fidelity) stendur sig vel í hlutverki Hals og Gwyneth Paltrow er fín í hlutverki hinnar þybbnu Rosemary. Það er hins vegar Jason Alexander (George úr Seinfeld þáttunum) sem stelur senunni sem besti vinur Hals. Það er nokkuð skondið að sjá ítalska leikarann Joe Vitarelli, sem hefur leikið mafíósa í ótal myndum, leika írskan föður Rosemary með þennan skemmtilega steríótýpíska írska hreim. Sagan er í raun nokkuð einföld og boðskapurinn settur fram á fremur einfaldan hátt en Farrelly bræður komu mér á óvart með þessari mynd og þegar ég átti von á smekklausum bröndurum til að skemmta mér þá sýndu þeir óvænta hlýju í frásögn sinni.
Ég er æðsti Blautmaður, æðri en þú og þú ert bara blautblaðra skammastu þín.