Ég sá þessa mynd fyrir nokkrum vikum en hún er væntanleg hingað til Íslands á næstunni. Um er að ræða nýjustu mynd David Lynch, sem hefur gert ansi mikið af sérsökum myndum, sem sumar hafa orðið cult.
Mullholland Drive er eins og draumur, eða öllu heldur martröð. Súrrealsísk eins og flestar myndir David Lynch. Andrúmsloftið er mjög draumkennt og ógnþrungið, undirstrikað með frábærri tónlist. Upphafsatriði sýnir limmósínu á ferð og tónlistin gefur til kynna að eitthvað hræðilegt sé í vændum. Við fáum að sjá inn í limmósínuna og þar eru tveir menn og kona. Limman stoppar og mennirnir segja henni að fara úr bílnum. Allt virðist stefna í óefni þegar bíll fullur af drukknum ungmennum klessir á limmuna. Konan ráfar burt af slysstað og heldur til Los Angeles.
Við drögumst inn í söguþráð sem virðist nokkuð spennandi. Í ljós kemur að konan hefur misst minnið og ásamt ungri leikkonu á uppleið hefur hún að grennslast fyrir um fortíð sína. Smátt og smátt verður maður forvitnari og ýmislegt furðulegt gerist sem maður bíður spenntur eftir að fá útskýringu á. En um miðbik myndarinnar er klippt snögglega á framvinduna, ég vil ekki segja hvernig til að eyðileggja ekki fyrir fólki.
Þegar ég gekk út úr salnum var ég á báðum áttum. Þetta er ótrúleg mynd, en það er auðvelt að leggja hatur á hana. Samt sem áður var ég hinn ánægðasti og langaði strax til að sjá hana aftur. Það sem heillar er þessi heimur sem David Lynch skapar, sem er engu líkari en draumi. Lynch hefur aldrei viljað útskýra verk sín og segir áhorfendur verða að sjá það sem þeir vilja. Það er nokkuð ljóst að fólk sem sér þessa mynd á eftir að skiptast í tvo hópa, annað hvort elskarðu hana eða þolir ekki.