Eftir að hafa horft á hina afspyrnu slöku Driven þá horfði ég á myndina Say it ain´t so með Chris Klein, Heather Graham, Orlando Jones og fleirum. Ég hélt að þarna væri á ferðinni unglingagaman með rómantísku ívafi svo ég átti nú ekkert von á neinni snilld.
En mér til mikillar ánægju var þetta hin fínasta gamanmynd með svona frekar brengluðum húmor þó það væri einnig smávægis af væmni í bland. Mynd þessi er framleidd af Farelly bræðrum og var hún merkt í bak og fyrir með frösum eins og þessum “ef þér líkaði Something about Mary sjáðu þá þessa”. Svona auglýsingar eru oft ágætis aðvörun um að myndin sem þú ert að fara að horfa á sé lélegt sorp, þá var svo ekki í þessu tilfelli.
Ég var sérstaklega hrifinn af Orlando Jones sem lék lappalausan flugmann sem aðstoðar Chris Klein í vandræðum sínum.
Mörgum finnst þetta sjálfsagt vera hin mesta vitleysa, uppfull af aulahúmor og neðanbeltisbröndurum, en það er bara eitthvað við kúka og piss húmor sem mér finnst fyndið þannig að svoleiðis myndir virka oftast vel í mig.
En hvað með ykkur?
DZA