David Mamet er þekktur og virtur í heim kvikmyndanna. Hann semur aðallega handrit og hefur líka skrifað heilu hillurnar af leikritum. En á seinni árum hefur David verið að feta sig yfir í stól leikstjórans með ágætum árangri. Núna sendir hann frá sér spennumyndina The Heist eða Ránið, þar sem Gene Hackman fer með aðalhlutverkið. Gene Hackman og Danny DeVito leika gamla vini sem ætla að fremja enn eitt ránið. Að þessu sinni á það ekki að vera neitt venjulegt rán. Nei, það skal vera hið fullkomna rán. En hópurinn er ekki samstæður og það gengur á ýmsu. Einhverjir Íslendingar kannast við David Mamet, en hann er þó ekki mjög frægur. Þekktastur er hann sem leikskáld (kannist þið við Glengarry Glen Ross eða American Buffalo?) – en undanfarin ár hefur hann verið að skrifa kvikmyndahandrit, t.d. skrifaði hann The Untouchables með Robert DeNiro og Kevin Costner fyrir fimmtán árum. Síðast skrifaði hann handritið að Hannibal. David Mamet er mjög virtur í heimi kvikmyndanna og þessi nýjasta
mynd, The Heist, fékk feykilega góða dóma þegar hún var sýnd í Bandaríkjunum fyrir rúmum mánuði. Gene Hackman er einn mesti leikari sem Hollywood hefur alið, gæðaleikari af lífi og sál. Hlaut Óskarsverðlaun fyrir mörgum árum og er ódrepandi.