Eins og flestir vita fer snilldin The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring nú sigurför um heiminn. Hún er komin yfir 200 milljónir dollara í Bandaríkjunum og yfir 350 milljónir á heimsvísu. Þar með er hún á góðri leið með að verða vinsælasta kvikmynd New Line Cinema framleiðslufyrirtækisins fyrr og síðar (þarf að fara yfir 226 milljónir en það er það sem Rush Hour 2 tók inn) og hefur borgað upp framleiðslukostnað allra þriggja myndanna á innan við mánuði. Myndin var tilnefnd til fjögurra Golden Globe verðlauna, og var nú valin af AFI (The American Film Institute) sem besta mynd ársins. Hún situr nú á toppi IMDB (The Internet Movie Database) sem besta mynd allra tíma og engin mynd á árinu hefur fengið eins góða dóma í Bandaríkjunum (96% virtustu gagnrýnendanna hafa gefið henni jákvæða dóma). Talið er víst að hún verði tilnefnd til fjölmargra Óskarsverðlauna og því er ekki annað hægt að segja en að þessi fyrsta mynd í fyrirhuguðum þríleik leikstjórans Peter Jackson hafi slegið í gegn svo um munar. Engin afsökun er nógu góð til þess að sleppa því að skella sér í bíó.