In Bruges (2008) Ég horfði “óvart” á myndina In Bruges í gær. Hún var svo frábær að ég varð að skrifa aðeins um hana, sérstaklega þar sem hún er frekar svona óþekkt.

In Bruges fjallar í stuttu máli um tvo launmorðingja, Ray (Colin Farrel) og Ken (Brendan Gleeson) sem eru sendir til Brugge í Belgíu eftir að eitt verkefni þeirra fór úr böndunum. Þar eiga þeir að fara huldu höfði og bíða eftir að þeirra yfirmaður Harry (Ralph Fiennes) hringi og segi þeim hvað eigi að gera næst.
Ekki er Ray að fíla Brugge á meðan Ken nýtur sín sem aldrei fyrr. Ray vill hinsvegar komast burt frá þessu skíta pleisi eins og hann orðar það og sinna almennilegum launmorðingja verkefnum. Ken er hinsvegar þessi týpíski ferðamaður, nýtur þess að eiga smá frí til að skoða sögufræga staði. Eitthvað batnar nú ásýnd Ray á staðnum þegar hann kemst á date við innfædda stelpu sem hann kynntist, en það date endar með ósköpum.
Svo loksins þegar Harry hringir með fyrirmælin, þá reynir mikið á vináttu Ray og Ken og hvort vinátta eða starfsframi sé meira virði.

Mér fannst þessi mynd hreint út sagt frábær. Ég vissi ekkert um þessa mynd þegar ég horfði á hana, en ég horfði á hana einungis til þess að sjá Brugge aftur. Ég var þar fyrir tveimur árum og þessi staður er alveg ólýsanlegur. Ég vildi bara sjá þessa helstu staði aftur og gaman að sjá þá bregða fyrir í bíómynd.
En þessi plön mín um að skoða þessa helstu staði í gegnum bíómynd fóru útum þúfur þegar ég byrjaði að horfa þar sem ég fílaði þessa mynd gjörsamlega í botn. Vægast sagt alveg frábær húmor í henni, skemmtileg myndataka, tónlistin frábær (sérstaklega í síðasta “eltingaleiknum”) og allir leikarar stóðu sig með prýði. Colin Farrel hefur aldrei verið í uppáhaldi hjá mér en eftir þessa mynd þá hefur hann risið mikið í áliti hjá mér enda skilaði hann sínu hlutverki hreint út sagt frábærlega.
Ég verð bara að minnast aftur á húmorinn í myndinni af því að hann er alveg frábær, maður sat oft á tíðum bara skellihlægjandi og það var eitthvað sem ég átti ekki von á að gera.

Einnig er gaman að segja frá því að orðið “fuck” er sagt 126 sinnum á þessum 107 mínútum sem myndin er, en það gera um 1,18 “fuck” á mínútu. Og ég verð að segja að þó það hljómi mikið, þá gefur það myndinni einstaklega skemmtilega “ímynd” og það er alls ekki eins og maður sé kominn með nóg af þessu orði í myndinni, alls ekki.

Ég get ekki hrósað myndinni nógu mikið, enda án efa ein besta mynd sem ég hef séð í langan tíma. Reyndar held ég að ég fíli hana aðeins betur af því að ég hef verið þar sem myndin gerðist, og það er mjög gaman að vita að maður hefur verið akkurat þar sem helstu atriðin gerast.

Ef þið viljið vita meira um myndina þá er IMDB linkur -HÉR-

En ég gef þessari mynd hiklaust nánast fullt hús 9,5 af 10 mögulegum.

Frábær mynd!