Í fyrsta lagi vil ég láta alla vita að kynningin á myndinni og
trailerinn gefa manni alveg kolrangar hugmyndir um hvernig
hún er í raun og veru. Ég hélt að þetta yrði voða hasar og Jack
Nicholson í sífelldum eltingarleik við brjálaða morðingja.
Þessi mynd er sögð vera “spennutryllir” en ég vil alls ekki
kalla hana það.
Þessi mynd fjallar um lögreglumanninn Jerry (Jack
Nicholson) sem er að fara á eftirlaun, en síðasta daginn í
vinnunni er framið morð á lítilli stúlku og Jerry ákveður að
rannsaka það. Móðir stúlkunnar lætur hann lofa því að hann
skuli finna morðingjann og eftir það helgar hann sig þeirri leit.
Það kemur í ljós að líklegast er þetta raðmorðingi og
hringurinn fer sífellt að þrengjast. Jerry verður líka æ ákafari í
að ná þessum brjálæðing og það reynist verða honum að
falli.

Þessi mynd gerist mjög hægt. Þrátt fyrir að hún fjalli um mjög
ógeðfelld mál (morð og nauðganir á litlum stelpum) þá er hún
ekki hryllingsmynd og hún fellur alls ekki undir mína
skilgreiningu um spennutrylli.
Ef þessi mynd væri sett á prent, þá væri hún smásaga með
óvæntum endi. Hún fjallar aðeins um þennan kafla í lífi Jerrys
og maður fær ekkert að vita það mikið um hann í raun og veru.
En þrátt fyrir þetta allt er myndin mjög góð, eða það fannst mér
allavega. Hún líður alltaf áfram og heldur manni
áhugasömum. Mér fannst samt mjög sjokkerandi að sjá hve
Nicholson er orðinn GAMALL, en hann er mjög góður í
þessari mynd sem Jerry.
Ég mæli alveg með þessari mynd og vil gefa henni *** af 5
Ekki samt gera ykkur neinar vonir um að hún haldi ykkur á
sætisbrúninni allan tímann…. hallið ykkur frekar bara aftur og
fylgist með sögunni :)

refur

P.S. Benicio del Toro leikur líka í þessari mynd. Hann er
samt nær óþekkjanlegur, allavega fattaði ég ekki hvern hann
lék fyrr en ég sá nafnið í kreditlistanum
Að sigra heiminn er eins og að spila á spil