Nú geri ég mér grein fyrir því að hin magnaða ræma American History X, er í miklu uppáhaldi hjá mörgum. Hjá mér einnig. En ég hef löngum velt fyrir mér, alveg síðan ég sá hana í fyrsta skipti í bíó, hvernig myndin hefði verið öðruvísi ef breski, sköllótti, pönkaraklæddi leikstjórinn Tony Kaye hefði fengið klára myndina eins og hann vildi. Eins og flestir kvikmyndaáhugamenn ættu að vita að þá afneitaði hann myndinni undir lok framleiðsluferlisins, af því að upp kom víst ágreiningur á milli hans og framleiðendanna og aðalleikarinn Edward Norton var eitthvað viðriðinn málið þó að ég viti ekki alveg nákvæmlega hvernig. Reyndar sakna ég þess að metnaðarfullir kvikmyndablaðamenn hér á landi hafi ekki reynt að komast að kjarnanum og skrifa um þetta furðulega mál. Kaye var búinn að taka meirihluta myndarinnar upp (eða nánast alla myndina) þegar listrænn ágreiningur komst upp, en hann kom hingað til lands fyrir tilviljun á svipuðum tíma og bíómyndin var að verða sýnd, í þeim tilgangi að skjóta auglýsingu en Kaye hefur talist einn framsæknasti auglýsingaleikstjóri heims um árabil. Hann var á þeim tímapunkti búinn að afneita myndinni og átti stutt viðtal við “Ísland í dag” á Stöð 2, þar sem hann var einkar harðorður í garð framleiðenda bíómyndarinnar og ásakar þá um að hafa nauðgað sköpunarverki sínu. Ég hef alla tíð verið æstur í að vita SANNLEIKANN, hvað hann hefði gert öðruvísi, því að þó myndin sé sterk er hún langt frá því að vera gallalaus. Eitt og eitt atriði varðandi framvindu sögunnar hafa löngum böggað mig. T.d. þegar Derek Vinyard (Norton) heldur í endurkomupartý nýnasistagengisins þegar hann er búinn að afplána dóminn, þá snúast allir alltof fljótt á móti honum á sama tíma og hann átti að vera guð hjá krádinu, bara af því að hann var á yfirborðskenndan hátt búinn að tjá Fairizu Balk (kærustunni) að hann “fílaði” þetta ekki lengur. Þetta var ótrúverðugt atriði. Gerum okkur grein fyrir því að litli bróðir hans (Edward Furlong) var sá eini af gamla hópnum sem fékk trúverðuga lýsingu fyrir ástæðu sinnaskiptum hans. Einnig hafði ég efasemdir um trúverðugleika annarra lítilla atriða sem og um endirinn. Þessvegna er ég forvitinn á að fá að vita hvort þetta séu sömu annmarkar og Tony Kaye ætlaði sér að koma í veg fyrir og ætlaði hann að gera myndina enn aggressífari? Hver veit? Kaye fór reyndar fögrum orðum um Norton (er hægt annað?) og fullyrti að ef hann (Kaye) hefði fengið að klára myndina eins og hann vildi, að þá hefði Norton ekki bara verið tilnefndur til óskarsins (sem hann var) heldur hefði Kaye séð til þess að ekki hefði verið hægt að ganga fram hjá Norton, styttan VÆRI hans. Það er lítill púki í hausnum á mér sem segir að ef að Tony Kaye-versjonið af myndinni hefði litið dagsins ljós, þá væri American History X ekki “bara” ofboðslega sterk þriggja og hálfsstjörnu mynd (sem hún er í dag að mínu mati), heldur fimmstjörnu meistarastykki sem færi niður í kvikmyndasögu 20. aldar sem ein sú sterkasta. En það er bara mín órökstudda tilfinning.

Ef eitthvert séní þarna úti veit nákvæmlega smáatriðin í þessu dularfulla máli, um deilurnar í hnotskurn, eða getur bent á fróðleg viðtöl í blöðum eða á vefsíðum, þá væri ég til í að fá að vita meira um þetta.

p.s. Ástæðan fyrir því að Tony Kaye er skráður í titlum myndarinnar og á öllum auglýsingum sem leikstjóri fyrst hann afneitaði myndinni er sú að hann var nánast búinn með hana og framleiðendur myndarinnar höfðu hagstæðari samninga en Tony Kaye. Annars hefði staðið “An Alan Smithee film” við American History X nafnið, en Alan Smithee er nafnið sem framleiðendur skrá sem leikstjóra þegar leikstjórarnir sjálfir afneita myndum sínum eða lenda í deilum við framleiðendur. Nafn þetta er dregið af raunverulegum manni sem lenti í deilum fyrir mörgum árum. Af skiljanlegum ástæðum reyna framleiðendur að komast hjá slíkum nafngiftum því “rifrildismyndir” seljast ekki vel, í prinsippið allaveganna.