Á þriðjudaginn var ég svo heppinn að komast á sýningu á fyrstu myndinni í Lord of the Rings trílógíunni(Kíkið endilega líka á gagnrýnina hans Ratatosks á Tolkien áhugamálinu). Frá því að ég las þessa sögu í fyrsta sinn fyrir átta árum hef ég alltaf verið að bíða eftir bíómynd gerða eftir sögunni. Árið 1998 komst ég að því að Peter Jackson ætlaði að gera 3 myndir byggðar á sögunni. Frá því augnabliki hef ég fylgst með gangi mála nánast daglega á netinu og veit því um nánast allt um þessar myndir.


Lord of the Rings er uppáhalds bókin mín og mest selda skáldsaga 20 aldarinnar. Hún hefur margsinnis verið kosin besta bók 20 aldarinnar í Bretlandi. Hvet alla til að lesa hana en ég vara samt fólk við að hún er ekkert léttmeti og margir hafa gefist upp á fyrstu köflum bókarinnar. Vegna umfangs sögunnar (1200 bls) hefur aldrei verið gerð leikin bíómynd eftir sögunni. Kubrick reyndi en fann enga leið til að gera myndina því ein mynd dugar ekki fyrir Lord of the Rings. Bítlarnir ætluðu líka að gera mynd svo og Boorman en allir hættu við vegna mikilla erfiðleika. Það kom því eins og þruma úr heiðskírru lofti að Peter Jackson ætlaði að gera 3 myndir byggðar á sögunni og ætlaði New Line Cinema að fjármagna myndirnar. Það nálgast kraftaverk að kvimyndafyrirtæki í Hollywood sé tilbúið að fjármagna 3 myndir í einu(klöppum fyrir New Line Cinema). Tökur hófust 9 október 1999 á Nýja Sjálandi og lauk þeim 22 desember 2000 eftir 14 mánaða tökur. Kostnaður við myndirnar er talinn vera yfir 300 milljónum dollara svo mikið er í húfi.


Í lok nóvember kom fyrsta gagnrýnin og var hún mjög jákvæð. Tónlistin fyrir myndina kom út og hefur fengið fullt hús hjá nánast öllum tónlistar gagnrýnendum. Rolling Stone tímaritið fræga hefur valið LOTR: The Fellowship of the Ring bestu mynd ársins. Á Rotten Tomatoes er hún þegar þetta er skrifað með 100 %. Það má því segja að væntingar mínar voru yfirgengilegar og var ég því dálítið hræddur varðandi útkomuna.


Myndin valdi mér hinsvegar engum vonbrigðum. Hún stóðst væntingar mínar á flestum sviðum og fór fram úr þeim sumstaðar í myndinni. Þetta er ævintýramynd með alvarlegum tón. Hún minnir að sumu leyti á Myndirnar hans David Lean og Kurasawa. Við fáum að sjá stórkostleg þyrluskot af landslagi Nýja Sjálands(Það land ætla ég að heimsækja einhvern tíma). Hún er löng og sumum á eftir að þykja hún langdreginn(enginn vafi á því). Hún minnir samt líka á ævintýramyndirnar hans Spielbergs(Indiana Jones) því hún hefur ótrúleg action atriði þar sem barist er við hin ýmsu skrímsli. Það sem mestu máli skiptir er þó að manni er ekki sama um persónurnar. Maður finnur til með þeim þegar þær eru í hættu og hlær svo með þeim í skondnum atriðum. Þetta hefur gjörsamlega vantað í stóru myndirnar í ár (Pearl Harbor og Tomb Raider).

Myndin hefst á einhverskonar formála sem segir sögu hringsins eina sem myrkradróttinn Sauron bjó til. Við fáum að sjá risaheri berjast í landi Mordors mörg þúsund árum áður en Hringadróttinsaga hefst. Við sjáum ótrúlegan kraft Saurons og hvernig hann þeytir heilu herflokkunum burtu með einu höggi. Þessi hluti myndarinnar er hreint magnaður og gefur innsýn inn í þann heim sem Tolkien skapaði. Þeir sem ekki hafa lesið söguna eiga væntanlega eitthvað eftir að ruglast í öllum þessum nöfnum en það á eftir að lagast.

Síðan hefst sagan nokkurnveginn eins bókin er. Jackson hefur breytt ýmsu sem er hreinlega nausynlegt þegar gera á bíómynd efir bók og tekst honum vel upp. Þetta eru ekki stórvægilegar breytingar og að mínu mati bætir það myndina. Við fáum t.d að sjá mun meira til vitringsins Sarumans sem Christopher Lee leikur.

Leikurinn í myndinni er hreinlega frábær og gæti varla gerst betri. Ian McKellen leikur Gandalf og gerir það svo meistaralega að margir eru farnir að spá honum óskarsverðlaunatilnefningu. Ég bara elska Ian McKellen þessa dagana. Elijah Wood stendur sig frábærlega. Ég náði hreinlega að tárast í lok myndarinnar í einu atriði með honum. Allir aðrir leikarar standa sig líka mjög vel svo sem Sean Bean, Viggo Mortensen, Liv Tyler, Sean Astin, Cate Blanchett, Christopher Lee, Hugo Weaving, John Ryes Davis, Orlando Bloom og Billy Boyd.


Sjónrænt útlit myndarinnar er eitt það besta sem ég hef nokkurntíma séð. Maður hreinlega gapir af undrun yfir fegurð Miðgarðs. Peter Jackson hefur hefur skapað Miðgarð á ótrúlega fallegan hátt með aðstoð listamannanna John Howe og Alan Lee.

Tæknibrellurnar eru með því besta sem hefur sést. Þær verur sem skapaðar eru í tölvu er nánast fullkomlega raunverulegar(Engar Mummy Returns tæknibrellur hér á ferðinni). Maður hefði ekki trúað að tæknibrellufyrirtæki frá Nýja Sjálandi gæti staðið ILM á sporði en Weta Digital tókst það.

Eftir því sem lengra líður frá því að ég sá myndina þá verður hún betri. Þetta er löng mynd, næstum 3 tímar en hún leið mjög hratt. Þetta er mynd sem maður á eftir að sjá oft í bíó því að í hvert sinn mun maður uppgötva eitthvað nýtt, ég lofa því. Ég gef myndinni 10 af 10 mögulegum.