Copper Mountain (1983) Copper Mountain er ein af fyrstu kvikmyndunum sem Jim Carrey lék í en fyrir hana hafði hann tekið þátt í fjórum verkefnum. Ég hafði ekki heyrt neitt rosalega æðislega hluti um þessa mynd frá vinum mínum sem fýla Jim Carrey en þessi kvikmynd gat varla verið verri en Rubberface (Introducing Janet). Svo ég ákvað því að eyða heilum klukkutíma af lífi mínu í áhorf á hana og ég er ekki viss um hvort að það hafi verið góð ákvörðun.

Til að reyna að vera eins mikill Jim Carrey aðdáandi og hugsast getur þá verður maður auðvitað að gefa öllum kvikmyndunum hans séns svo maður geti státað sig af því seinna að hafa séð eitt og annað með honum, ekki bara Bruce Almighty og Dumb and Dumber. En ég tel að CM komist léttilega inná listann minn yfir topp 5 lélegustu kvikmyndirnar með honum.

Söguþráðurinn gæti varla verið einfaldari en félagarnir Bobby Todd (Jim Carrey) og Jackson Reach (Alan Thicke) eru á leiðinni uppí fjöll, Bobby til að reyna við stelpur og Jackson til að láta reyna á hæfileika sína í skíðum. Það er vel tekið á móti þeim í skíðaskálanum og þeir hefjast strax handa.

Ef ekki væri fyrir skemmtilegan leik Jim Carrey í þessari mynd þá hefði ég slökkt á tækinu mínu þegar í stað. Hann sýnir nokkra góða takta sem kitluðu hláturtaugarnar en um leið fékk maður pínu kjánahroll. Málið var nefnilega að hann gat aldrei verið eðlilegur í kringum stúlkurnar sem hann reyndi við, hann breytti röddinni sinni, var með kjánalega takta sem og svipi og gerði afar misheppnaðar tilraunir til þess að reyna að vera fyndinn. Reyndar hafði ég séð nokkra af þessum töktum og svipum á www.youtube.com. Til að mynda þegar hann lék eftir Sammy Davis og Bruce Dern (pabbi Lauru Dern úr Jurassic Park.. Takk Stefán).

Síðan var skipt yfir í félagan hans á skíðunum, hann keppti við nokkra gæja uppí fjöllum, sýndi lipra takta en tapaði þó alltaf. Var ekki alveg að skilja pointið í þessari mynd.

Helsti galli myndarinnar var sá að í um 35 - 40 mínútur (af 60) var einblínt á einhverja hljómsveit sem átti að spila fyrir eitthvað skíðamót og halda uppi smá stuði. Byrjaði það allt með því að Bobby gekk óvart uppá svið og var að “soundtjekka” míkrafóninn þegar gítarleikarinn veitti honum athygli og spurði hvað hann var í ósköpunum að gera. Bobby ákvað að sýna honum hvað hann gæti leikið eftir Sammy Davis vel og hljómsveitin byrjaði sjálfkrafa að spila undir og voru komnir í ágætis fýling þegar söngvarinn í bandinu sem var með skegg, pilot sólgeraugu, kúrekahatt og í kúrekastígvélum kom upp og sagði að nú væri alvöru soundtjekk og Bobby þyrfti að stíga niður af sviðinu.

Ágætis atriði hugsaði ég með mér og þeir soundtjekkuðu eitthvað eftir því, tóku lög eftir Creedence Clearwater. En nei nei, þetta var bara byrjunin. Því að eftir nokkur óminnistæð atriði var röðin aftur komin að hljómsveitinni og þetta stóð í svolítið langan tíma þangað til að Jackson skíðaði enn eina ferðina niður, vei vei! Þetta gerði myndina heldur þreytandi og ég píndi mig í gegnum rest.

Rúsínan í pylsuendanum var samt frekar fyrirsjáanlegt atriði með Jim Carrey en hann var staddur í nokkurs konar kennslu hjá reyndum gaur þegar skvísa skíðaði framhjá, stoppaði og veitti honum athygli. Eins vitlaus og óreyndur á skíði og hann var rann hann á eftir henni og sló hvert hraðametið á fætur öðru! Sem endaði með því að hann datt og krækti sér loksins í tvær gjellur.

Ég fullyrði hér með að klukkustundunum sem ég varði í Rubberface og Copper Mountain séu með vafasömustu klukkustundum sem ég hef eitt á ævi minni!

Einkunn: ½ af 5