Franska gengilbeinan, hún Amélie frá Montmartre. Sá um daginn “Le Fabeleux Destin d´Amélie Poulain” (ótrúleg örlög Amélie Poulain) eða bara “Amélie”. Þessari snilldarmynd leikstýrir Jean-Pierre Jeunet sem hefur allsérstæðan stíl eins og sjá má í “Delicatessen”, “Borg týndu barnanna” og “Alien:Resurrection”. Hlustaði á dóm Ólafs H. Torfasonar á Rás 2 fyrr um daginn þar sem hann átti ekki orð yfir snilldinni og þóttist viss um að hún yrði kosin besta erlenda myndin á næsta Óskari og svei honum þá, bara kannski besta myndin.
Ekkert skal ég fullyrða, en myndin er brilljant. Hrikalega töff, glæsilegur leikur og allverulega kómísk. Myndin hefur slegið öll met í Frakklandi og var opnunarmyndin á Kvikmyndahátíðinni í Edinborg (sem er partur af hinni svakalegu Edinborgarhátíð) í ágústmánuði sl. Bretarnir vildu auðvitað döbba hana sem ekki var tekið í mál af Frökkunum og hefur gengið ofsavel þar, sem og annarsstaðar.
Þess má geta að sl ár var algjör bömmer fyrir franska kvikmyndagerðarmenn og samdráttur varð um 30%. “Hin franska endurreisn” er þó í aldeilis góðum gír og Frakkar fara í bíó til að sjá innlenda framleiðslu, fremur en erlenda, enda allt mögulegt í gangi hjá fransmönnum þessa stundina. Á erlendum vettvangi hafa þeir helst verið þekktir fyrir “Romance”, “Intimacy” og “Baise moi”, þar sem sogið og sleikt er í gríð og erg, en Amélie litla er nú ekkert á þeim buxunum og vegur upp á móti léttum klæðnaði með léttleika sínum og fallegu hugsunum (helv.. var samt tónlistin í Boise moi flott)!
Ég vil nú ekki skrifa of mikið um hvað myndin fjallar eða söguþráðinn, svona beinlínis, en myndin er sjónrænt listaverk og allskyns persónur dúkka upp kollinum, misgáfulegar, en samt er þetta engin farsi. Díana prinsessa hefur mikil og óvænt áhrif á þessa litlu og mjóu gengilbeinu og þar af leiðandi hennar kunningja enda sér Amélie alltaf einhvern nýjan flöt á öllu sem viðkemur hinu mannlega lífsmunstri.
Jean-Pierre Jeunet er einlægur aðdáandi Emily Watson og ætlaði henni hlutverkið þar sem aðalpersónan átti að heita Emily. Hún var ekki til í tuskið þannig að ung og lítt þekkt stúlkukind, Audrey Toutou, fékk tækifæri til að túlka þessa pervisnu, feimnu og vanmetnu ungu konu og gerir það með þvílíkum bravúr að hún hefur ekki við að lesa handrit þessa dagana. Þessvegna heitir myndin nú “Amélie” en ekki “Emily”.
Nú er svo komið að Frakkar fíla það sem franskt er og eru hættir að fíla Luc Besson sem kominn er með Hollywoodstimpil. Reyndar var Jeunet kominn með hann líka, en hefur held ég verið fyrirgefið af löndum sínum.
“Le pacte des Loups” (Bræðralag Úlfanna) er nú sýnd hér á landi og sennilega má vænta þess að myndirnar “La Vérité si je mens 2” (Myndi ég skrökva að þér 2) sem er gamanmynd og “La Placard” (Skápurinn) – með tilvísun í kynhneigð aðalpersónunnar – komi bráðlega enda gengið ofsa vel í Frakklandi fyrr á árinu. Gamanmyndinni “Le Vache et le president” (Beljan og forsetinn) var einnig ætlað að storma um heiminn í kjölfar Amélíu og Úlfanna og ég hlakka bara til að sjá annað sjónarhorn í kvikmyndum en það bandaríska. Það var nú ekki lítið lagt á hinar smágerðu herðar hennar Amélie, þe að bjarga franskri kvikmyndagerð, en hún virðist ætla að standa undir því, blessunin.