Afsakið, en hver samdi þessa skoðanakönnun?

Eða frekar, hverjum datt í hug þessir valmöguleikar?

Af þeim 17 mönnum sem okkur gefst færi á að kjósa get ég talið ekki fleiri en 6 menn sem eiga einhvern raunverulegan rétt á því að vera þarna og mun fleiri leikstjóra sem eru það ekki. Ég skal fara stuttlega yfir þá leikstjóra sem listaðir voru…

Steven Spielberg: Jú, ég get verið sammála því að hann eigi stað á þessum lista þó svo að hann sé ekki í miklu uppáhaldi hjá mér.

Peter Jackson: Þessi maður er snillingur. Algjör snillingur. En besti leikstjórinn? Hann er ekki búinn að vera í bransanum í 15 ár og hefur ekki gert meira en 8 myndir til þessa. Hann er kannski framtíðarkandídat en mér finnst það fullsnemmt að telja hann með. Bíðið allaveganna eftir Lord of the Rings…

James Cameron: Annar snillingur en er orðinn að svolitlum mógúl - ekki mikill leikstjóri í honum lengur, hann a.m.k. virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að gera e-r myndir lengur, er bara að fjárfesta í hinu og þessu. En hann á svo sannarlega skilið að vera á listanum.

Ridley Scott: Listamaður af guðs náð og sjálfur mundi ég telja hann með 10 uppáhaldsleikstjórum mínum. Svolítið umdeildur fyrir venjulegan almenning, en hvaða snillingur er það ekki?

Frank Darabont: Ha? FRANK DARABONT? Nei, ég held ekki. Maðurinn hefur ekki gert nema þrjár kvikmyndir í fullri lengd: Shawshank Redemption sem var frábær, ofmetnu klisjutunnuna The Green Mile og svo The Majestic sem er ekki einu sinni komin í bíó í USA. Hann er ekki besti leikstjóri allra tíma og kemur alls ekki til greina.

Luc Besson: Evrópski “listamaðurinn” Luc Besson er, eins og Cameron, svolítið upptekinn við að fjárfesta o.s.frv. og höfum við ekki séð neitt frá Besson síðan Joan of Arc. Þar á undan kom The Fifth Element. Getum við kallað manninn sem sendi frá sér þessar tvær skítabombur besta leikstjóra allra tíma? Jafnvel þótt hann hafi gert Leon, The Big Blue og Subway? Ok, kannski er Fifth Element algjört skoðanaatriði, en Besson á ekki skilið þetta pláss.

Robert Zemeckis: Ég dýrka Robert Zemeckis en hann er ekki með betri leikstjórum okkar tíma, og ég held að hann yrði ekki sáttur við þann titil sjálfur. Af öllum myndunum sem hann hefur gert þá stendur aðeins ein upp úr sem virkilega góð og það er Contact - og jafnvel hún fékk ekki fullkomið hylli gagnrýnenda og áhorfenda. Back to the Future myndirnar, Who Framed Roger Rabbit og Death Becomes Her eru allar mjög skemmtilegar ævintýramyndir, Forrest Gump er nútímaklassík alveg eins og Romancing the Stone, en Cast Away var misheppnuð og þrátt fyrir marga góða spretti í What Lies Beneath þá var sú mynd algjört vanity project þar sem Zemeckis setti sjálfan sig og myndavélina í aðalhlutverk.

Jonathan Demme: Af hverju ætti hann að vera hérna? Út af Silence of the Lambs? Allt í lagi, það er sanngjarnt, en hvað annað hefur hann gert? Married to the Mob. Philadelphia. Beloved. BELOVED! Þessi maður er ekki svo góður leikstjóri.

Quentin Tarantino: Frábær leikstjóri en hefur bara gert þrjár myndir. Ekki nóg. Bíðum eftir Kill Bill og næstu tveimur, þremur myndum og sjáum svo til.

Stanley Kubrick: Langbesti leikstjórinn á þessum lista. Ég held að ég þurfi ekki að útskýra ástæðuna.

Irvin Kershner: Enn og aftur verð ég að lýsa undrun minni á vali þeirra sem það áttu. Irvin Kershner? AF HVERJU? Er það útaf Empire Strikes Back? Ef svo er þá ættuð þið að vita það að George Lucas er náttúrulega eini sanni leikstjóri ALLRA Star Wars myndanna þó svo hann sé aðeins titlaður fyrir tveimur (til þessa), rétt eins og Jerry Bruckheimer er réttur leikstjóri allra Bruckheimer myndanna. En það útskýrir samt ekki tilveru Kershners á þessum lista. Maðurinn hefur ekki gert eina góða mynd fyrir utan Empire. Robocop 2 og SeaQuest DSV? Ég held ekki.

Bryan Singer: Ólíkt Peter Jackson og Quentin Tarantino er Bryan Singer nýliði sem á ekki skilið allt þetta fúss í kringum sig. Jú, The Usual Suspects var góð, en Apt Pupil var það ekki og X-Men var frekar slöpp.

George Lucas: Ohhhhh! Af hverju George Lucas? Hann er ekki með betri leikstjórum allra tíma, punktur basta! Ég nenni ekki einu sinni að fara út ástæðurnar. Er Star Wars það eina sem þið sjáið?

Guy Ritchie: Guð minn almáttugur, nei! Guy Ritchie er tilgerðarlegasti og ofmetnasti kvikmyndagerðarmaður samtímans. Snatch var HRÆÐILEG!

Frank Darabont: Já, ég held að ég hafi talað um þennan mann hér fyrir ofan. Einhver mistök í gangi hjá ykkur sem gerðuð þessa könnun. Ég legg til þess að þið bætið við einhverjum leikstjóra sem á plássið skilið, t.d. Martin Scorsese.

Friðrik Þór Friðriksson: Auðvitað þarf a.m.k. einn íslenskur leikstjóri að vera nefndur og auðvitað er það Friðrik Þór. Ég geri mér grein fyrir því að þessi maður er dýrkaður og dáður af mörgum kvikmyndaunnendum, innlendum jafnt sem erlendum, en ég skil það bara ekki. Ofmetinn karakter að mínu mati.

Paul Weitz: Paul hver? Ég efast um að nokkur manneskja viti hver þetta er en hann gerði einmitt hinar frábæru American Pie og, ummm, Down to Earth. Ég býst við því að þetta nafn hafi verið brandari, en miðað við hina leikstjórana sem komu til greina þá get ég ekki verið viss.

Jæja, þá þegar það er búið þá ætla ég að nefna nokkra leikstjóra sem vantar inn á þennan lista. Ég veit að hægt væri að nefna mun fleiri en ég mundi ekki eftir fleirum í augnablikinu, þið getið kannski bætt við listan.

Þeir augljósu (í stafrófsröð):
Woody Allen
Robert Altman
Kathryn Bigelow
Tim Burton
Charlie Chaplin
Joel Coen
Francis Ford Coppola
David Cronenberg
Brian DePalma
Alfred Hitchcock
Spike Lee
David Lynch
Martin Scorsese
Oliver Stone
Orson Welles

Þeir alveg-jafnaugljósu-en-kannski-of-gamlir-eða-erlendir-til-að-þið-gætuð-hafa-munað-eftir-þeim leikstjórarnir:

David Lean
Sam Peckinpah
Sergio Leone
Sergei Eisenstein
Billy Wilder
Federico Fellini
Bernardo Bertolucci
Dario Argento
Francois Truffaut
Ingmar Bergman
Fritz Lang
Mike Leigh
Roman Polanski
John Ford
John Huston

Og ef þið viljið einhverja skemmtilega nýliða sem eiga sinn stað skilinn þá get ég nefnt:

David Fincher (Se7en, Fight Club)
Baz Luhrmann (Strictly Ballroom, Romeo+Juliet, Moulin Rouge)
Cameron Crowe (Jerry Maguire, Almost Famous, Vanilla Sky)
Tarsem (The Cell)
Spike Jonze (Being John Malkovich.
Steven Soderbergh (Out of Sight, Traffic, Erin Brockovich osfrv.)

Þá er ég búinn að létta þessu af mér. Hvað finnst ykkur? Ætti ekki að gera nýja könnun?