Spiderman 3 Spiderman (Peter Parker), þarf að taka á honum stóra sínum í nýjustu kvikmyndinni um kappann en ólíkt tveimur fyrri myndunum, þá berst Spiderman við þrjá öfluga óvini; Sandman, Venom og The New Goblin. Jafnframt reynir á Peter Parker bæði í einkalífinu þar sem kærastan hans Mary Jane skipar stórt hlutverk sem og í vinnunni þar sem hann vinnur hjá Daily Bugle sem ljósmyndari …



Leikstjóri: Sam Raimi
Handritshöfundar: Sam Raimi, Ivan Raimi, Alvin Sargant, unnið upp úr teiknimyndasögunum um Spiderman eftir Stan Lee og Steve Ditko
Aðalhlutverk: Tobey Maguire, Kirsten Dunst, James Franco, Topher Grace og Thomas Haden Church
Lengd: 140 mín



Nýjasta myndin um Spiderman og tilraunir hans til að bjarga New York búum fyrir glæpamönnum og óþverralýð er að mínu mati stórt stökk upp á við frá Spiderman 2, sem undirrituðum fannst heldur dauf og dramatísk, miðað við hasarmynd allavega.

Helsti kostur myndarinnar er hversu feykilega vel gerð hún er en tæknilega hliðin er með því besta sem ég hef séð hingað til. Að sjá helstu hasaratriðin á stóru bíótjaldi með 360 gráðu surround hljóðkerfi er ævintýri líkast og er upplifunin heldur meiri en að sjá heima í sjónvarpi. Hasaratriðin eru í einu orði sagt stórkostleg og virkilega fagmannlega unnin. Annar stór kostur eru leikararnir en Tobey Maguire og Kirsten Dunst sýna mun þroskaðri og vandaðri leik en áður, sérstaklega Tobey en hann er alveg stórskemmtilegur í myndinni. James Franco er líka þéttur en ég spái þeim leikara frama áður en langt um líður. Aðrir leikarar standa sig vel en hlutverkin eru of lítil til að leikararnir geti sýnt almennilega hvað í þeim býr.

Söguþráður myndarinnar er í rauninni þessi týpíski Spiderman söguþráður; Spiderman er hetja New York borgar og eins og alltaf eru einhverjir sem vilja koma honum fyrir kattarnef. Um leið á Peter Parker/Spiderman í mesta basli við að halda í kærustuna sína. Um leið og allt þetta gerist nær óþekkt veira úr geimnum að ná yfir tilfinningar Peters og hið illa og dökka stjórnar hegðun hans sem verður ögrandi og villt. Að mínum dómi eru þeir kaflar myndarinnar - þegar Venom hefur náð yfir Peter - besti hluti myndarinnar.

Eins og áður segir eru hasaratriðin mögnuð og maður fær gæsahúð við að sjá Spiderman sveifla sér í vefnum og skjóta vefkúlum í óvini sína. Framan af er myndin virkilega góð, nær að halda góðum dampi þar sem dansað er á milli dramatíkur og hasars í hárréttum hlutföllum og hæfilega miklum húmor - en þessi mynd er fyndnari en Sp-1 og Sp-2 til samans - og vondu kallarnir í myndinni eru skemmtilegir. Sandmaðurinn er skemmtilegur vondikall og þegar Venom bætist við færist aldeilis fjör í leikinn. Mér fannst einmitt Octavius í Sp-2 frekar leiðinlegur vondikall og því er Sandmaðurinn og Venom góð tilbreyting.

Galli myndarinnar - sem er mjög stór að mínu mati - er dramatíkin en þegar á líður á myndina og henni er um það bil að ljúka, fellur Sam Raimi í nákvæmlegu sömu gildru og hann gerði í Sp-2 sem ég gjörsamlega þoli ekki - dramatíkin flæðir út um allt og drekkir áhorfendur í væmni. Inn á milli voru atriði sem ég fékk kjánahroll útaf, t.d. þegar fólkið í myndinni klappar þegar Spiderman bjargar einhverjum eða þegar hann birtist til að fara að bjarga einhverjum. Til hvers? spyr ég nú bara. Það lá við á tímabili að ég óskaði þess að ég væri með ælupoka.

Ef þér tekst að leiða dramatíkina í myndinni fram hjá þér, áttu eftir að elska Spiderman 3. Ég get vel skilið það. Myndin er góð í heildina séð, pottþétt hasarmynd, en þessi dramatík fór bara svo í taugarnar á mér að ég get ekki annað en verið samkvæmur sjálfum mér og skelli á myndina heilum 6 af 10. Ef síðasta kortérið hefði verið endurskrifað með annan endi í huga, fengi myndin 8 af 10.

Fyrir Spiderman aðdáendur sem og aðra hasarmynda aðdáendur, fær Spiderman 3 mín meðmæli, farið bara út þegar Spiderman er búinn að bjarga Mary Jane enn og aftur og ekki horfa á síðasta kortérið ;-)

Takk fyrir mig.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.