Rabbits er eiginlega ekki kvikmynd heldur þættir eftir David Lynch. Þessir þættir hafa þó verið gefnir út saman og eru þeir þá um 45. mín samtals og eru þeir þá eiginlega frekar eins og stuttmynd. Því taldi ég réttlætanlegt að senda þessa grein inn hér. Þar að auki mun þetta efni höfða langmest til lesenda inn á þessu áhugamáli þar sem David Lynch er kvikmyndaleikstjóri og ég geri ráð fyrir að margir hérna muni kannast vel við hann.

En jæja. Í tilefni af því að Inland Empire skuli vera núna til sýnis í kvikmyndahúsum ákvað ég að skrifa um annað verk eftir David Lynch sem hefur ef til vill farið fram hjá sumum. Rabbits!

Rabbits (2002)

Leikstjóri: David Lynch

Scott Coffey: Jack
Rebekah del Rio: Jane
Laura Harring: Jane (rödd)
Naomi Watts: Suzie

Erfitt er að lýsa nákvæmlega hvað Rabbits fjallar um en ég held að best sé að byrja á því að koma með það eina sem Lynch hefur látið eftir sér um þessa þætti (en hann er alræmdur fyrir að vilja ekki gefa neitt upp um verk sín, hann heldur fram að myndirnar sjálfar segja allt sem segja þarf) :

„In a nameless city deluged by a continuous rain… three rabbits live with a fearful mystery“

Þættirnir fjalla sem sagt um þrjár kanínur sem saman búa í lítilli íbúð. Karlkyns kanínan gæti mögulega hafa haldið framhjá þótt ég þori ekki alveg að fullyrða það, þær virðast vera að bíða eftir símtali, þær hafa allavega einhvern áhuga á söng, einhvers konar djöfull kemur í heimsókn og þær þurfa einnig að kljást við rafmagnsleysi, að ég held.

Þetta er það sem ég kemst næst söguþræði þáttanna. En málið við þá er (og þetta á einnig við um fleiri verk Lynch) að maður á ekki endilega að vera að leita eftir einhverjum tilgangi eða útskýringu. Snilldin við þá að mínu mati er gríðarlega ógnvekjandi andrúmsloft sem Lynch einn er fær um að skapa. Úti er einhvers konar stormur og einnig heyrast fullt af öðrum drungalegum hljóðum. Samtölin á milli persónanna er fullkomlega óskiljanlegur og fagnaðarlæti og hlátur heyrast undir eins og í sit-com þáttum, þar sem þau eiga engan veginn við.

Smá dæmi:

Suzie: I am going to find out one day. When will you tell it?

Jack(after long pause): Were there any calls?

Suzie: What time is it?

(laugh track plays for unknown reason)

Jack: I have a secret.

Suzie: There have been no calls today. (laugh track plays again)

Þetta allt gefur þessum þáttum mjög svo „disturbing“ andrúmsloft sem er alveg einstakt. Reyndar geng ég svo langt að halda fram að þeir eru gríðarlega ógnvekjandi. Ég horfði á alla þættina um hábjartan dag og var beinlínis hræddur. Því mæli ég mikið með þeim fyrir þá sem hafa gaman af öðruvísi kvikmyndagerð. Ég skil það samt algjörlega að ekki allir muni hafa gaman af þeim, þetta er ekki fyrir alla.

Ég er reyndar ekki alveg viss um hvar sé hægt að nálgast þá en það ætti eflaust ekki að vera erfitt eftir smá leit, þættirnir eru vel þess virði. Þeir voru upphaflega sýndir á heimasíðu David Lynch, davidlynch.com.

Til gamans má líka geta að parta úr þáttunum notar David Lynch í nýju myndinni sinni Inland Empire.

Svo þegar búið er að horfa á þessa snilld er málið að kíkja á netið og skoða kenningar sem fólk hefur komið með um hvað sé nákvæmlega að gerast í þáttunum en margir hafa eytt miklum tíma í að reyna að komast til botns í þessari ráðgátu. Snilldin við verkin hans David Lynch er einmitt að þau eru mjög opin fyrir túlkunum.

Svo mæli ég líka eindregið með að fólk sjá Inland Empire í bíó, maður upplifir hana langbest þannig. Myndin er sko líka upplifun svo ekki verður meira sagt!

(Grein um Inland Empire kemur kannski síðar).

Tenglar:
http://www.imdb.com/title/tt0347840/usercomments

http://en.wikipedia.org/wiki/Rabbits_%28film%29