Hinn tryllingslegi Expressíonismi: Dr. Caligari, Nosferatu, tengsl þeirra við málverk og seinni tíma áhrif
Við mannfólkið erum háð vana og festu. Líf okkar skal ætíð sitja í föstum, vel mótuðum skorðum og því finnur hver sá sem er staddur í óþekktu umhverfi til mikillar vanmáttarkenndar. Umhverfið tekur á sig nýja og ógnvænlega mynd þar sem hver hlutur skrumskælist í samræmi við hugarástand hins örvæntingarfulla manns sem er fullkomlega á valdi aðstæðnanna. Það eru þessi áhrif, hin meðfædda tilhneiging hugans til þess að mikla og teygja til alla upplifun sem að hinir tilvistarlegu expressionistar sóttust eftir að sýna með verkum sínum. Viðföng þessara verka eru aðeins hýslar fyrir tilfinningar og oftar en ekki endurspeglar allt útlit þeirra hið innra eðli.
Þessi tilhneiging kemur skýrt fram í fjölmörgum kvikmyndum og þá sér í lagi í þeim er ætlað er að vekja óhug. Umhverfið tekur á sig aðra mynd en við eigum að venjast og holdgervingar einhverrar tilfinningar birtast okkur ljóslifandi. Upphaf þessa má helst rekja til tveggja þýskra mynda, annarsvegar myndar þýska leikstjórans Robert Wiene Das Kabinett des Dr. Caligari (1919) þar sem hið ógnvænlega umhverfi endurspeglar bágborið hugarástand aðalpersónunnar og hinsvegar myndar Friedrich Wilhelm Murnau Nosferatu (1922) þar sem illskan og ótinn holdgerast í einu því ógnvænlegasta fyrirbæri er sést hefur á hvíta tjaldinu.

Í þessari grein verður gerð grein fyrir fyrir þessum kvikmyndum með tilliti til ofangreindra atriða en einnig verður leitast til þess að rekja áhrif þeirra og sýna hvernig einkenni þeirra birtast í seinni tíma kvikmyndum.

Það er talið að hugtakið expressionismi hafi fyrst verið notað til að lýsa málverku fauvistanna hinna frönsku en þrátt fyrir það má hæglega finna forvera expressionisma fyrir þann tíma t.d í Ópi Munch eða í verkum Van Gogh. Hugtakið expressionismi var þó síðar meir fyrst og fremst notað um ákveðinn hóp listamanna sem notuðu ýkt stílbrigði, oftar en ekki til að tjá tilfinningar sínar í garð tilverunnar. Þessir tilvistarlegu expressionistar sóttust eftir því að endurspegla raunveruleikann sem tilfinningu oft á óhlutbundinn hátt. Eðli raunveruleikans var afstætt. Í stað þess að endurspegla hann eins og hann birtist vildu þeir sýna hinn dulda sannleik þ.e hið sanna, innra eðli hluta með skrumskælingu allra ytri forma t.d. með óraunverulegri fjarvídd og æpandi litum.

Þegar Robert Wiene hóf gerð Das Kabinett des Dr. Caligari ákvað hann að ráða málara úr röðum expressionista til þess að hanna leikmyndina, þá Hermann Warm, Walter Röhrig og Walter Reimann en Wiene vildi með hjálp þeirra losa kvikmyndaformið við þá þráhyggju að reyna í sífellu að endurskapa raunveruleikann . Leikmynd myndarinnar er því allt annað en raunveruleg og minnir helst á þrívítt málverk í anda Ernst Kirchner. Umhverfið er allt ískyggilega skakkt og oddhvasst, fjarvíddin er ýkt og andstæðurnar ljós og skuggi hrópast á. Þessi draumkennda sviðsmynd gerir það að verkum að áhorfandinn getur ekki varist þeirri tilfinningu að eitthvað hafi farið úrskeiðis eða muni í það minnsta brátt gera það.
Í stað þess þó að eiga að endurspegla einhvern dulinn sannleik um eðli hlutanna er leikmyndinni ætlað að endurspegla bágborið hugarástand aðalpersónunnar. Hið ógnandi umhverfi er upplifun hennar á aðstæðum og við áhorfendur erum gerð að þáttakendum í geðveilunni þar sem við erum látin finna fyrir þeim ótta og þeirri innilokunarkennd sem tröllríður hugarheimi hins geðfatlaða. Mörkin milli raunveruleika og ímyndunar hverfa þar sem við sjáum raunverulegt fólk lifa og hrærast í hinu óraunverulegu umhverfi martraðarinnar sem að heimur Dr. Caligari er.

Þeirri aðferð, að undirstrika vanlíðan með breyttu umhverfi, hefur verið beitt í kvikmyndum æ síðan Das Kabinett des Dr. Caligari kom fyrst út.
Afbragðs dæmi um það er mynd bandaríska leikstjórans Tim Burton, Vincent frá árinu 1982 þar sem aðalpersónan, lítill drengur að nafni Vincent flakkar á milli expressionísks umhverfis í anda Das Kabinett des Dr. Caligari og hefðbundnara umhverfis.
Í hvert sinn sem að ímyndun hans nær yfirhöndinni breytist umhverfið í samræmi við það. Skuggar og stigar lengjast, veggir skekkjast og jafnvel lítill hundur verður að ógnvænlegu skrímsli. Vincent er líkt og Francis, aðalpersóna Das Kabinett des Dr. Caligari, fullkomlega á valdi hins ógnvænlega hugarheims síns og við sem áhorfendur upplifum það í gegnum breytingar þær sem eiga sér stað á umhverfinu. Þessi mikla stílfærsla var síðan fullkomnuð í annari mynd Burtons The Nightmare Before Christmas (1993) sem segir frá íbúum Hrekkjavökulands en allt Hrekkjavökuland, frá trjám til legsteina er í hinum oddhvassa, skakka og skælda stíl expressionismans. Mynd Terry Gilliam, Brazil (1985) er einnig gott dæmi um ,,Dr. Caligarískan expressionisma” þar sem ekki aðeins er hið fjandsamlega, hvassa umhverfi og hin óskýru mörk á milli ímyndunar og raunveruleika til staðar heldur er einnig hinnu miklu angist tengda borgarlífi sem var expressíóniskum málurum svo hugleikin. Myndi Carol Reed The Third Man (1949) er einnig gott dæmi um tryllingslegan og allsráðandi expressíonisma. Vínarborg er uppfull af drungalegum skuggum og í eunu eftirminnilegasta atriðinu eltir söguhetjan hinn grunaða upp að því sem virðist endalausar tröppur.

Þessi notkun er ekki alltaf jafn áberandi og í Vincent, The Nightmare Before Christmas og Brazil en áhrif þessa ,,fjandsamlega og óþægilega” umhverfis má finna í mörgum fleiri myndum þar sem það er annaðhvort allsráðandi eða aðeins til staðar í einu atriði eða svo.

Þegar þessara áhrifa gætir ekki í gegnum alla myndina sjást þau allra helst í martröðum þar sem söguhetjunni finnst hún hafa misst alla stjórn á aðstæðum en það er ekki svo ólíkt Das Kabinett des Dr. Caligari sem byggist, eins og áður segir, á ímyndun aðalpersónunnar.

Umhverfi flestra hrollvekja sækir einnig í Dr. Caligari þar sem umhverfið á að vekja óhug, til að mynda hús Norman Bates í Psycho (Alfred Hitchcok, 1960)
Það er þó ekki aðeins leikmynd Das Kabinett Des Dr. Caligari sem hægt er að tengja við expressionisma heldur einnig förðun og leik. Útlit svefgengilsins Cesare og meistara hans Dr. Caligari endurspeglar illan ásetning þeirra. Báðir eru þeir fölir sem lík og með mikla bauga undir augum en ýkt útlit og framkoma hins fyrrnefnda hefur mótað uppvakninga og skrímsli í öllum þeim hryllingsmyndum sem fylgt hafa á eftir.
Þeir Cesare og Dr. Caligari verða þó vart taldir holdgervingar illsku og ótta en sá hinni eini sanni kom fram á sjónarsviðið þremur árum seinna í mynd Friedrich Murnau, Nosferatu. Nosferatu er illa dulbúin útgáfa af hinni þekktu bók Bram Stokers Drakúla en Murnau tókst ekki að fá tilskilin leyfi til að gera kvikmynd eftir bókinni. Því ákvað hann að breyta nokkrum nöfnum og persónum en halda sig þó nokkurn veginn við bókina. Þrátt fyrir að vera ekki beinlínis um sjálfan Drakúla kemst Nosferatu næst því af öllum myndum að túlka þá viðurstyggð sem hinn upprunalegi Drakúla er.
Eflaust er það vegna þess að Vampíra Murnau er miklu frekar tákngervingur óhlutbundinna hugtaka svo sem illsku og ótta fremur en vera gerð af holdi og blóði. Sem slík minnir hún á Óp Edvard Munchs en viðfang Ópsins er ekki einhver ein sérstök persóna, heldur tilfinning – hin yfirþyrmandi örvænting, kvöl og pína sem hver og ein manneskja þarf að horfast í augu við. Vampíran er eins og ópið framlenging óræðra hugtaka, hún er illskan og allt útlit hennar endurómar hlutverk hennar. Svipur hennar er afmynduð gretta, augun starandi og fingur hennar eru langar klær. Það er öllum klárlega ljóst að hér er ekkert góðmenni á ferð heldur eitthvert stórhættulegt fyrirbæri, knúið áfram af illsku sinni einni saman.

Ólíkt Das Kabinett des Dr. Caligari þar sem umhverfið er expressionískt þá er umhverfið í Nosferatu raunsætt. Það veldur því að viðurstyggð vampírunnar virðist enn meiri þar sem hún sker sig meir frá sínu nánasta umhverfi.
Kastali greifans vekur aðeins upp takmarkaðan ótta. Það er hin viðurstyggilega vampíra sem sér alfarið um að ræna okkur svefni. Hér er það skrímslið sem er expressionískt, það er skrumskæld háðmynd af manneskju ekki svo ólík þeim er prýða málverk Die Brüche expressionistanna. Vampíran minnir þó allra helst á verk austuríska expressionistans, Egons Schiele, ,,Sjálfs Sjáandinn II (Dauðinn og maðurinn)”. Maðurinn á myndinni starir beint í augu áhorfandans stjarfur af ótta, andlit hans er skelfing á að líta enda endurspeglar það hinn mesta ótta er um getur . Fyrir aftan manninn er dauðinn en hann minnir um margt á vampíruna og þá sérstaklega hið starandi augnaráð.
Öll framsetning Nosferatu miðast við vampíruna og að áhorfendur finni sem mest fyrir nærveru hennar. Þessi nærvera er oft gefin
til kynna með skugga hennar þar sem skelfilegar klærnar verða enn lengri og undirstrika því frekar þá hættu sem skuginn boðar.
Það sem gerir vampíru Murnaus jafn expressioníska og raun ber vitni er þó fyrst og fremst það að í útliti hennar er fólginn mikill sannleikur. Ólíkt þeim sem kemur vel fyrir en reynist síðan illa, þá er hegðun vampírunnar í fullkomnu samræmi við útlit hennar. Hún er hin fullkomna andstæða við þann myndarlega og háttvísa greifa sem ungverski leikarinn Bela Lugosi túlkaði síðar en það má með sanni segja að hegðun hans var ekki í fullu samræmi við kjólfötin sem hann klæddist.

Slíkir holdgervingar óhlutbundinna hugtaka svo sem vampíran hafa síðan oft komið fram í hinum ýmsu kvikmyndum og þá oftast sem holdgervingar hinnar eilífu illsku. Vel þekktur holdgervingur illskunnar er til að mynda hinn alræmdi Hr. Hyde í mynd Rouben Maoulian (1931) en breytingin sem verður á eðli Dr. Jekyll þegar hann umturnast er undirstrikuð með dýrslegu gervi. Líkami hans líkt og vampírunnar endurspeglar hinar dýrslegu hvatir hans. Einnig er við hæfi að nefna illmenni í teiknimyndum en þau hafa nær alltaf skýr útlitseinkenni sem endurspegla illsku þeirra á einn eða annan hátt. Svarti Pétur, erkióvinur Mikka Músar, er einmitt expressiónískur í meira lagi en allt útlit hans undirstrikar hinn ógeðfellda persónuleika hans.
Áhugaverður viðsnúnigur á hefðbundnum expressionisma á sér stað í kvikmynd Tim Burtons, Edward Scissorhands (1990). Aðalpersóna myndarinnar, Edward virðist vera expressionísk ófreskja. Hár hans er dökkt, andlitið fölt (líkt og á Cesare) og hinar ógnandi hendur hans eru hárbeitt skæri. Jafnvel híbýli hans myndu sæma hverju illmenni. Í stað þess þó að holdgera illsku, endurspeglar Edward eymd og þrá eftir því að geta snert það sem hann langar að snerta en getur ekki. Tilfinningin sem skin í gegnum hann er þjáning og að þvi leyti er hann expressionískur. Það villir fyrir er útlit hans og síðan útlit hinna sönnu fulltrúa illskunnar er birtast síðar meir í myndinni en þeir bera þess engin merki hið ytra heldur eru þvert á móti venjulegar manneskjur.
Áðurgreindur stíll, að láta útlit fyrirbæra endurspegla eðli þeirra er, nokkuð fjarri því sem gengur og gerist í hinu daglega lífi. Því fer fjarri að illmenni séu jafn rotin að formi og sjálf vampíra Nosferatu eða Svarti Pétur. En illska þeirra er oftar en ekki beinlínis fólgin í því að koma, líkt og Drakúla Bela Lugosi, vel fyrir en sökkva síðan vígtönnum sínum djúpt í háls fórnarlambsins þegar það á sér einskis ills von. Hin sjónræna endurspeglun eðlis á þó mjög vel við innan kvikmyndaheimsins þar sem kvikmynd er jú fyrst og fremst sjónræn.

Þar á því vel við að hetjur bókstaflega geisli af góðmennsku og illmenni séu jafn rotin að ytri gerð sem innri. Hrollvekjur sér í lagi eiga mikið undir hinu þrúgandi umhverfi og ógeðfelldu forynjum.
Upphafið að þessari miklu samsömum útlits og eðlis er vart fólgin í expressionisma einum saman enda er hún mjög djúpstæð í huga okkar. Það má þó segja hann hafi leitt til þeirrar útlitslegu fullkomnunar sem skín í gegnum Das Kabinett des Dr. Caligari og Nosferatu þar sem allar áherslur minna á verk hinna expressionísku málara. Þrátt fyrir margslugna og síbatnandi tækni hefur engum tekist að endurskapa þann allsráðandi hrylling og fáum þá frábæru stílfærslu sem þeir Friedrich Murnau og Robert Wiene birtu umheiminum fyrir rúmum áttatíu árum síðan. Skuggi Dr. Caligaris og Nosferatu vofir yfir öllum þeim kvikmyndum sem á eftir þeim hafa komið, hann skyggir á þær en hvetur þær þó jafnframt til dáða.
Með kærri kveðju

Klekk 885


Heimildir

Arnason, H.H. 1988. A History Of Modern Art. Thames And Hudson Ldt. London

Das Cabinet Des Dr. Caligari. Höfundur óþekktur. Texti á hulstri spólu.

Gardner, Helen, Horst De La Croix, Richard G. Tansey og Diane Kirkpatrick. 1991. Gardner’s Art Through The Ages. Harcourt Brace & Company. Orlando, Florida.

Ziesing, Fabian. [án árs]. German Expressionist Cinema 1919 – 1933. http://home.nikocity.de/fabianweb/gerexp.html
































.