300 (2006) * * * Hasarmynd / Stríðsmynd

Leikstjóri: Zack Snyder
Handrit: Zack Snyder, Kurt Johnstad, Michael Gordon (myndasaga eftir Frank Miller)
Aðalhlutverk: Gerard Butler, Lena Headey, David Wenham, Dominic West, Rodrigo Santoro, Andrew Tiernan
Tónlist: Tyler Bates
Kvikmyndataka: Larry Fong

Tungumál/Land: Enska/Bandaríkin
Lengd: 117
Aldurstakmark: 16

_________________________________________________

Árið 480 f. Kr sendir Persneski konungurinn, Xerxes, sinn gríðarstóra her til í stríð til þess að sigra Grikkland. Gríska borgin Sparta, sem býr yfir mestu stríðsmönnum Grikklands, sendir 300 af sínum fínustu hermönnum til þess að mæta margfalt stærri her Persa við Laugarskarð. För þessara 300 hundruð hermanna er lítið annað en sjálfsmorðsför sem á að vinna tíma fyrir hinar Grísku þjóðirnar svo þær geti undirbúið heri sína til þess að mæta Persaveldi. Þótt dauði sé óumflýjanlegur fyrir hina 300, þá ætla þeir sér ekki að gefast svo auðveldlega upp, enda aldir upp og kennt frá barnsárum að þeir eiga aldrei að hörfa, aldrei að gefast upp og að dauði á bardagavellinum sé mesti heiður sem Spartverja hlotnast. Með þetta í huga, eru þeir staðráðnir í að stráfella eins marga Persa og þeir mögulega geta.

_________________________________________________

300 er nýjasta kvikmynd Zack Snyder en myndin er byggð á myndasögu eftir Frank Miller. Er þetta önnur kvikmyndin til að fara á stjóra tjaldið eftir sögu Frank Miller’s, en sú fyrri var hin gríðarlega vinsæla Sin City. Spurningin er, tekst 300 jafn vel upp?

Þótt myndin sé vissulega lauslega byggð á sönnum, sögufrægum atburðum þá skal forðast að taka efni hennar of alvarlega. Sögunni hefur verið breytt, talsvert, til þess að gera þetta fyrst og fremst að hasarmiklu augnkonfekti, frekar en sögulega réttri kvikmynd. Myndi lætur Spartverja líta út eins og hinar mestu hetjur á meðan Persar eru lítið annað en illar skepnur sem eiga fátt annað skilið en dauða. Þeir sem kunna þó eitthvað í sögu vita að svona var þessu alls ekki háttað. Ef áhorfandi ætlar sér að njóta þeirrar veislu sem 300 býður upp á, er nauðsynlegt að viðkomandi skilji hugsuðinn og spekinginn eftir heima. Það eina sem þessi kvikmynd býður upp á er heiladauð skemmtun, en sem betur fer þá er sú skemmtun alveg frábær.

Zack Snyder hefur, með tölvunum sínum, skapað gullfallega og gríðarlega vel gerða mynd sem veldur ekki vonbrigðum hvað útlit varðar. Allt við myndina, frá tæknibrellum til hönnunar búninga er nánast óaðfinnanlegt og hefur það mikið að segja um andrúmsloft myndarinnar sem er ávallt spennu þrungið, dimmt og síðast en ekki síst… ofur töff. Einnig má finna ýmis sniðug og vel útfærð atriði. Persar segjast vera svo margir að örvar þeirra eigi eftir að skyggja fyrir sólinni, og síðar verður það að raunveruleika. Gerir það Spartverjum fært að ,,berjast í skugganum” eins og segir til um í þeirri frægu setningu.

Bardaga atriðin minna helst á einhvern svakalegan tölvuleik. Þau eru gríðarlega vel útfærð og vel gerð á öllum sviðum. Tónlistin sem spilar undir, oftast þung rokk tónlist, á einnig gríðarlega vel við og setur tóninn rétt áður en, enn eitt svakalegt hasar atriði hefst. Sjaldan sem rokk tónlist á við í kvikmynd af þessu tagi en það er einmitt málið. Þetta er ekki dramatísk mynd sem segir frá fornum tímum. Þetta er töff hasarmynd stútfull og frábærum stríðsatriðum og flottum svölum setningum sem Gerard Butler öskrar með sinni djúpu rödd og fyllir hún áhorfandann af adrenalíni og sum af flottari atriðunum gefa góða gæsahúð.

Ef gagnrýna má myndina á einhvern hátt þá er það sennilega hversu lítil tenging er á milli leikaranna og tölvuteiknaðarra bakgrunna. Sérstaklega þar sem svo mikið er af gullfallegum útsýnum í mörgum kvikmyndum af þessu tagi, þá vantar alltaf eitthvað upp á í 300. Á meðan myndin skaðar fáa, þá skilur hún einnig, því miður, lítið eftir sig og, þrátt fyrir að vera hin fínasta upplifun á meðan á myndinni stendur, þá gleymist hún fljótt.

Ef þú elskar ofbeldi álíka mikið og Spartverjar gerðu til forna þá munt þú eflaust eiga fína kvikmynda upplifun. Ef ekki, þá er 300 sennilega ekki fyrir þig og sama hver þó ert… Hún er einungis fín á meðan á henni stendur.

* * * /5

-TheGreatOne