Rocky Balboa (2006) * * * * Goðsögnin Rocky Balboa er kominn á sextugsaldurinn og hefur hætt allri hnefaleikaiðkun. Konan hans, Adrian er látin og sonur hans vill lítið með hann gera. Hann eyðir flestum sínum stundum í veitingarhúsi sínu, þar sem hann segir viðskiptavinum gamlar og þreyttar hetju sögur frá þeim tíma er hann var sá besti í hringnum. Það kemur þó að því að gamla kempan ætlar sér að stíga í hringinn einu sinni enn til að etja kappi við þungavigtar meistarann Mason “The Line” Dixon.

_________________________________________________

Ef þú átt til með að horfa á kvikmynd stöku sinnum, bendir allt til þess að þú hafir í það minnsta heyrt til getið um hnefaleika hetjuna Rocky Balboa. Það hafa liðið þó nokkur ár síðan Rocky sást á stóra tjaldinu, og var það því fögur sjón fyrir aðdáanda eins og mig að upplifa nýja Rocky mynd, sérstaklega þar sem að hún gefur hinum ekkert eftir í frábærleika. Rocky Balboa er, án vafa, besta Rocky myndin síðan sú fyrsta kom út fyrir meira en 30 árum og því nánast skylda að kíkja á hana í kvikmyndahúsunum.

Rocky fylgir sömu formúlu og flest allar Rocky myndirnar (að undanskilinni fimmtu myndinni). Rocky fer í hringinn til að slást við einhvern sem, á blaði, hefur alla yfirburði til að sigra hann. Þessi sjötta mynd seríunnar er svo hálfpartinn kaflaskipt. Fyrri helmingur myndarinnar einblínir á líf þessarar fyrrum hnefaleikastjörnu og hvernig hann hefur misst flest sem hann elskar og erfiðleikar hans með að ná til sonar síns. Hvernig hann svo kynnist konu og syni hennar og gefa þau honum nýja merkingu. Seinni hluti myndarinnar er svo eitthvað sem allir Rocky aðdáendur kannast við. Rocky ætlar að stíga í hringinn aftur, í þetta sinn ætlar hann að etja kappi við yngri og hraðari þungavigtar heimsmeistara og að sjálfsögðu fylgir því gríðarlega spennandi og harður bardagi.

Atburðarrás myndarinnar á vissulega til með að gerast ótrúverðug. Hvernig Rocky tekst að endurheimta hnefaleika leyfið sitt og hvernig hann svo ætlar sér að stíga í hringinn með ósigruðum þungavigtar heimsmeistaranum. En um leið og Rocky stefið byrjar að glamra í eyrum áhorfanda gleymast allar slíkar hugsanir og menn lifa sig inn í myndina af alefli.

Silvester Stallone fer hér með aðalhlutverkið, leikstýrir og skrifar handritið og því myndin fyrst og fremst hans hugarburður. Hann gerir hér gríðarlega vel og fer myndin fram úr öllum væntingum, sem voru ekki endilega það miklar í augum flestra. Myndin er vel útfærð og sýnir nýjar hliðar á kappanum sem við höfum lært að elska í gegnum árin, án þess að gleyma né ráfa of langt frá gömlu, sígildu Rocky formúlunni sem getur gefið hvaða manni gæsahúð.

Rocky Balboa ætti að kæta bæði gamla aðdáendur og þá sem einfaldlega eru að leita að góðri skemmtun. Um er að ræða frábæran og fallegan endi á þeirri goðsögn sem Rocky er. Það er góð tilfinning að geta farið að sofa á næturnar, vitandi að loka kafli Rocky seríunnar er frábær.

* * * * /5

-TheGreatOne