The Prestige Robert Angier og Alfred Borden eru sjónhverfingamenn sem eiga sér stóra drauma um frægð og frama í bransanum. Þeir eru aðstoðarsjónhverfingamenn í upphafi ferilsins og góðir vinir. Það slettist hressilega upp á vinskapinn þegar eitt atriðið fer úr böndunum með skelfilegum afleiðingum. Vinasambandið snýst upp í samkeppni og seinna meir hatur. Þeir reyna sífellt að stelpa hvors annars töfrabrögðum eða hugsanlega að eyðileggja framann fyrir hinum. Þegar Alfred finnur upp atriðið “Flutti maðurinn”, verður Robert alveg snarvitlaus hvernig hann fari að því og það verður þráhyggja hjá honum, þráhyggja sem leiðir til þess að samkeppni þeirra um að sýna mögnuðustu brellur allra tíma, fer svo úr böndunum að þeir hika ekki við að ganga alla leið og koma hvor öðrum fyrir kattarnef, hvað sem það kostar.Leikstjóri: Christopher Nolan
Handritshöfundar: Jonathan Nolan og Christopher Nolan eftir skáldsögu Christopher Priest
Leikarar: Christan Bale, Hugh Jackman, Michael Caine, Scarlett Johansson, David Bowie og Piper Perabo.

The Prestige var frumsýnd á klakanum fyrir helgi, mynd sem ég hafði beðið spenntur eftir og langað lengi að sjá, sérstaklega vegna Christopher Nolans og Christians Bale en það eru tveir eðalfagmenn á sínu sviði.

Christopher Nolan hefur, með The Prestige, endanlega stimplað sig inn sem einn athyglisverðasti leikstjóri 21. aldarinnar, ef ekki sá athyglisverðasti. Frá því að hann sló í gegn með hinni frábæru Memento, hafa fylgt í kjölfarið Insomnia, Batman Begins og nú síðast The Prestige, sem allar hafa fengið glimrandi góða dóma og aðsókn. Það er gengið svo langt að telja The Prestige vera líklegan Óskarsverðlaunakandídat á næstkomandi Óskarshátíð. Tíminn einn leiðir það í ljós.

Leikarar myndarinnar eru ekki af verri endanum en Nolan hefur verið til lista lagt að ná það besta fram úr leikurum sínum. Í The Prestige klikkaði hann ekki frekar en fyrri daginn en Christian Bale sýnir stórleik, Hugh Jackman er þéttur og Michael Caine kann ekki að leika illa. David Bowie á skemmtilega innkomu og sömuleiðis Andy Serkis, sem er best þekktur fyrir að leika Gollrir í Lord of the Rings þríleiknum.

Handritið að The Prestige verður að teljast mjög svo frumlegt en myndin er skemmtilega uppsett þar sem ferðast er fram og aftur í tímann hvenær sem er og hvar sem er. Það gefur myndinni skemmtilega dýpt og gaman að sjá hvað það er vel gert. Á köflum, sérstaklega í byrjun myndarinnar, er það dálítið ruglandi en þegar áhorfandinn kemst inn í myndina venst hann þessu og fær að vita á hvaða tímabili sagan er sögð. Christopher Nolan er meistari í að segja sögu í fortíð, rauntíma og framtíð.

Það er ekki hægt að fara ítarlega í söguþráðinn án þess að eyðileggja eitthvað fyrir en myndin er sögð vera drama spennuþryllir. Ég get vel tekið undir það enda er myndin dramamynd en virkilega spennandi á réttum mómentum. Uppbygginging er þétt, hún er stigmagnandi og climax-ið kemur á hárréttum tíma, þegar áhorfandinn er eiginlega orðinn ruglaður í eigin pælingum hvernig niðurstaða myndarinnar verður.

Í gegnum alla myndina eru gefnar vísbendingar hvernig í pottinn er búið, sem maður fattar í rauninni ekki fyrr en eftir á og þá kemst maður í rauninni að hvað myndin er feykilega vel skrifuð. Fléttan er skemmtileg og spennandi, ruglandi en nægjanlega skiljanleg, hugsanlega örlítið fyrirsjáanleg en eins og sögumaðurinn í myndinni segir, þú veist hvernig myndin mun enda, þú vilt ekki trúa því, þú láta blekkja þig.

Persónulega var ég ekki 100% sáttur við niðurstöðuna, ég bjóst við aðeins dýpri endi. Mér fannst endirinn vera dálítið “cheap” en því meira sem ég hugsa um endinn, að þá er þetta eiginlega eina niðurstaðan sem hægt var að komast að. Alfred og Robert voru ekki töframenn, þeir voru sjónhverfingamenn. En það er kannski bara ég, ég var allavega að vonast eftir öðrum endi.

Þegar allt er tekið saman í einn pakka, þá er The Prestige frumleg mynd, spennandi, sorgleg, skemmtileg, dularfull, fagmannlega gerð með pottþéttum leikframmistöðum. The Prestige er mun sem situr eftir í áhorfandanum og kemur á óvart, hún verður lengi í minnum höfð.

8/10.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.