Stranger than Fiction (2006) * * * * Ósköp venjulegur endurskoðandi hjá Skattinum byrjar allt í einu að heyra rödd sem segir frá því hvað hann sjálfur tekur sér fyrir hendur. Hann kemst að því að þekktur höfundur er að skrifa skáldsögu um líf hans, og að hún ætli að enda söguna á hans eigin dauða.

_________________________________________________

Stranger than Fiction er vissulega furðuleg mynd. Hugmynd er þó skemmtileg og spennandi frá byrjun og verður myndin að teljast virkilega fín skemmtun. Myndin minnir einna helst á eitthvað sem Charlie Kaufman myndi skrifa, en hún er þó hvergi jafn niðurdregin og furðuleg og verk hans. Þrátt fyrir að söguþráðurinn sé nokkuð grimmur tekur myndin sig aldrei alvarlega og slær oftast á létta strengi. Myndin er ögn fyrirsjáanleg og það virðist vanta þennan neista til að verða hreint út stórkostleg, en hún er þó einstaklega skemmtileg og skondin og verður að teljast nokkuð frumleg.

Annað sem dregur myndina niður er ástarsamband Harold’s (Ferrel) og Pascal (Gyllenhall). Þótt það sé sætt og fagurt þá er sambandið á milli þeirra ótrúverðugt og ekki sérlega samhangandi í samanburði við rest myndarinnar.

Handrit myndarinnar er skrifað af Zach Helm og þrátt fyrir að vera frumraun hans í kvikmyndahandritum er það frábærlega vel skrifað. Í heimi þar sem lítið er um frumlegheit er það sem ferskur blær að horfa á hina fjörlegu Stranger than Fiction.

Will Ferrell sýnir ótrúlega ófyrirsjáanlega takta. Þrátt fyrir að húmorinn sé aldrei langt frá tekst honum feykivel í alvarlegri atriðum myndarinnar og gerir hann niðurdrepandi líf persónu sinnar, Harold Crick, mjög trúanlegt. Emma Thompson stendur sig einnig virkilega vel í að túlka hin veikburða og niðurbrotna rithöfund sem er að leita af hinum fullkomna endi á bókina sína. Maggie Gyllenhall er þó, við hlið Ferrell’s, með eina af sínum betri frammistöðum til þessa sem bakarinn Ana Pascal sem neitar að greiða skattana sína að fullu vegna óágreinings hennar og stefnuskrá ríkistjórnarinnar. Dustin Hoffman, sem hinn töfrandi bókmenntafræðingur, og Queen Latifah, sem ákveðna aðstoðarkona rithöfundsins, fara svo vel með hlutverk sín í myndinni.

Þrátt fyrir sína galla, þá er Stranger than Fiction mynd sem tekst að vera frábrugðin öðrum. Hún er skrítin, stílræn og hvetjandi.

* * * * / 5

-TheGreatOne