Mér datt í hug að setja umfjöllun mína um Molin Rouge, sem ég gerði fyrir Muninn.is (skólablað M.A.) hér á Huga.is. Það væri gaman ef þið mynduð segja hvað ykkur finnst um þessa mynd, því mér fannst hún hreint geggjuð..fór á hana tvisar og langar aftur :)
en hér kemur greinin….

Molin Rouge

Leikstjóri: Baz Luhrmann
Handrit: Baz Luhrmann og Craig Pearce
Aðalleikari: Nicole Kidman, Ewan McGregor, John Leguizamo, Jim Broadbent og Richard Roxburgh
Tegund: Drama, dans og söngva mynd
Lengd myndar: 127 mín.
Framleiðsluár: 2001
Framleiðsluland: Ástralía, Bandaríkin
Stjörnur: 4 af 4
Helstu kostir: Leikarar, tónlistin, sviðsmyndin
Helstu gallar: Gallalaus

Fyrir sextíu árum voru söngvamyndir langvinsælastar allra kvikmyndaforma og hafa þær ávallt notið mikilla vinsælda. Þar má nefna klassískar myndir eins og Sound of Music, Kabarett, Hárið og Grease. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi slíkra mynda og gat því ekki beðið eftir sjá nýjustu söngvamyndina á markaðnum sem farið hefur sigurförum um heiminn, myndina Molin Rouge.

Tjaldið er dregið frá og við hverfum inní litríka og siðspillta undirheima Parísar um aldamótin 1900. Ungur og líttreyndur rithöfundur, Christian (Ewan McGregor), er kominn til Parísar, uppfullur af hugmyndum um frelsið, sannleikann, fegurðina en umfram allt, ástina. Hann fær vinnu við að semja söngleik fyrir Herr Zidler(Jim Broadbent), sem er eigandi hins villta næturklúbbs Molin Rouge. Söngleikurinn á að vera saminn í kringum Satine, hina seiðandi drottningu undirheimanna, þar sem allt er falt-nema ástin. Zidler bráðvantar peninga til að halda rekstri Molin Rouge gangandi og gerir samning við forríkan og spilltan hertoga (Richard Roxburgh), með þeim skilyrðum að Satine verði hans. En Satine og Christian fella hugi saman sem er óviðunnandi fyrir plön Zidler, sýningin verður að ganga!!!
Það er ekki oft sem maður fer í bíó og finnst að maður hafi orðið vitni að tímamótaatburði í kvikmyndasögunni. Molin Rouge er þannig mynd. Hún er miklu meira en bara söngleikur. Hún er allt, maður hlær og grætur í senn. Stórfengleg veisla fyrir auga og eyru. Hraðinn og litagleðinn er mikil, frumleg kvikmyndataka, stórkostleg búningahönnun, sviðsmynd og tónlist. Tónlistin er eitt það besta við myndina, þar er glæsilega blandað saman smellum skærra poppstjarna á borð við Madonnu, Elton John,David Bowie og The Police. Útkoman verður mögnuð!
Frammistaða allra leikaranna er óaðfinnanleg. Helst ber að nefna Jim Broadbent, sem fer algjörlega á kostum sem skemmtanastjóri Molin Rouge, John Leghiziamo sem Toullouse og Richard Roxburgh sem hertoginn. En það sem stendur óneitanlega uppúr er sterkur samleikur Nicole Kidman og Ewan McGregor. Þau túlka þetta ástfangna par svo ótrúlega vel, og syngja bæði frábærlega.

Molin Rouge er meistaraverk. Frá fyrstu sekúndu hrífur hún mann með sér í ævintýraheim harms og gleði og hefur mann upp í skýin. Ég er ekki enn kominn niður. Þessi mynd er algjör snilld!!!