Jólamyndir : Die Hard II Die Hard II
Leikstjóri : Renny Harlin
Útgáfuár 1990
Aðalhlutverk
Bruce Willis
Bonnie Bedelia
William Atherton
William Sadler



Já þar sem fólk hefur ekki verið að standa sig í að koma með greinar um jólamyndir hef ég ákveðið að taka á skarið og smella einni ferskri hingað inn.
Die Hard myndirnar eru náttúrulega löngu orðnar klassískar harðhausamyndir. Myndirnar fjalla um lögreglumanninn, harðhausinn og nóbelsverðlaunahafann(nei djók kjáninn þinn) John McClane og baráttu hans við hið ýmsasta illþýði sem herjar að.
Myndin hefst á því að okkar maður, John McClane (Bruce Willis) er að sækja eiginkonu sína, Hallie McClane(Bonnie Bedelia) á flugvöllinn í jólaamstrinu. Eftir símtal við hana hefur okkar maður klukkustund til að drepa á flugvellinum með hann bíður eftir flugi konu sinnar. Á sama tíma er verið að fljúga með hershöfðingjann og illmennið Ramon Ezperanza sem hefur verið framseldur til Bandaríkjanna.
Okkar maður fer að snuðrast um og kemst bráðum að því að ekki er allt með feldu og brátt hefst æsileg rússíbanareið sem endar heldur skrautlega.
Leikurinn í myndinni er ekkert sérstakur enda er maður ekki að biðja um einhvern óskarsverðlaunaleik þegar Die Hard myndirnar eiga í hlut.
Samtölin eru hinsvegar á allt öðru leveli og lélegar línur og one-linerar fjúka úr munni hetjunnar eins og kúlurnar úr vélbyssukjöftum illmennanna, gott(lélegt) dæmi um það er einmitt úr atriðinu þar sem okkar maður reynir að sannfæra lögregluforingjann á svæðinu um að eitthvað gruggut sé á sveimi;
John McClane: Hey, Carmine, let me ask you something. What sets off the metal detectors first? The lead in your ass or the shit in your brains?
Önnur frekar hörð en jafnframt léleg er þessi hérna ;
Samantha Coleman: Colonel Stuart, can I have a few words with you?
Col. Stuart: You can have two: “fuck” and “you”.

Já, ef þið fenguð ekki kjánahroll við þetta þá kalla ég ykkur góð.
Vert er að minnast á íslenska textann við myndina en hann er sér kafli út af fyrir sig, þýðandinn hefur án efa verið með hugann við eitthvað allt annað þegar textinn var gerður, þið sem hafið séð þetta skiljið mig, þið hin, þið eigið mikið eftir. Þó skilst mér að í einhverri útgáfu hafi textinn verið lagaður, sem er slæmt mál því að þessi texti er sér upplifun út af fyrir sig.
Jólalegt gildi myndarinnar er náttúrulega annað sem vert er að hugsa um.
Nú, myndin gerist á háannatíma rétt fyrir jól og hvað er jólalegra en biðraðir og öngþveiti þreytts fólks sem er að reyna að komast heim til sín?
Ekki margt…en eitt þó; snjór.
Og þessi mynd hefur hann, í tonnavís. Einmitt á versta tíma skellur þessi líka jólalegi snjóbylur á flugvellinum og almenningur ásamt John McClane er fastur inni á flugvelli ásamt óþokkum og illmennum af verstu sort.
Það er því ekki að ástæðulausu að þessi mynd er skylduáhorf á hverri Þorláksmessu hjá mér til að stilla inn á rétta jólaskapið.
Einkunn á IMDB : 6.7
Mín einkunn : 8
Einfaldur rökstuðningur þar, þrátt fyrir að vera aldrei talin kvikmyndalegt stórvirki er þessi mynd stórskemmtileg og asnaleg á víxl og þegar maður fer að sofa á Þorláksmessu eftir að hafa horft á þessa mynd er ekki laust við að maður skilji afhverju fólk elskar jólin.