Jim Carrey Pt. 1 Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem þekkja mig vel að Jim Carrey er ákveðinn “partur” í mínu lífi. Þetta er minn languppáhalds leikari og skemmtikraftur og hefur mér meira að segja stundum verið líkt við hann, sem er eitt mesta hrós sem ég hef og get fengið. Mig langar til þess að segja ykkur frá þessum leikara í stuttu máli með mínum eigin orðum.

Jim Carrey fæddist 17. janúar 1962 í Newmarket, Ontario, Kanada. Sem sagt 27 árum eldri en ég sem er nú ekkert rosalega mikið. Hann lifði frekar áhugarverðu lífi sem patti, hann var yngstur fjögurra systkina og átti foreldra sem voru jafnheilbrigðir og mínir. Jim var þó langt frá því að vera heilbrigður! Daglega æfði hann sig fyrir framan spegil að gera hinar ýmsu grettur og leika eftir eitthverja fræga karaktera til þess að geta látið fólk hlæja að sér í skólanum. Ég gekk þó aldrei jafnlangt og hann í þeim efnunum en ég framkvæmdi gretturnar mínar oftast á staðnum með misgóðum árangri. Þegar hann eldist gerðist sá leiðinlegi atburður að faðir hans missti vinnuna sína sem saxófónleikari og því þurftu allir að hjálpast að í fjölskyldunni og byrja að vinna hjá eitthverju lágkúrulegu fyrirtæki. Þetta orsakaði það að Jim skeit á sig í skólanum, háskólanum réttara sagt og einkunnir úr A og B+ fóru niður í D og E-. Meira ætla ég ekki að segja um æskuár Jim Carrey en þið getið ímyndað ykkur út frá þessum upplýsingum af hverju hann reyndi að koma sér á framfæri með spaugi. Sem sagt algjör snilld hvernig hann kom fyrir sig fætinum og líklega komið fjölskyldunni sinni útúr bláfátækt.

Jim Carrey hefur leikið í ótal kvikmyndum, stuttmyndum, þáttum og stuttum klippum sem eru búnar til uppá grínið. Hann var lengi að vinna sig upp á ýmsum minniháttar kvikmyndum að ég tel en árið 1994 sprakk allt. Hans fyrsta mynd, Ace Ventura: Pet Detective fór hamförum í vinsældum og með þessari mynd sem hinn kjánalegi Ace Ventura var hann búinn að skrá nafn sitt á spjöld kvikmyndasögunnar. Sama ár kom út önnur mynd með honum sem gat sér til eitthvers nafns og það var The Mask og ekki var hún síður vinsæl, gaurinn með græna andlitið var hann kallaður (not). Til að mynda voru settir í framleiðslu teiknimyndaþættir sem voru gerðir út frá myndinni, ég horfði oft á þá er ég var lítill patti og hafði mjög gaman af. Þriðja myndin kom svo út og er það mín lang uppáhalds mynd með honum en það er að sjálfsögðu myndin, Dumb & Dumber! Þar lék hann heimskingjan Lloyd Christmas og á móti honum lék Jeff Daniels. Ég hefði þó frekar viljað sjá hann Chris Farley (Beverly Hills Ninja, Tommy Boy) heitinn í staðinn fyrir Jeff Daniels en lífið er ekki alltaf dans á rósum. Með þessari byrjun var framtíðin svo sannarlega björt fyrir Jim Carrey og átti hann eftir að verða einn stærsti grínleikari allra tíma!

Árið eftir eða 1995 komu út tvær myndir með honum en það voru myndirnar Batman Forever þar sem hann lék geðsjúka karakterinn Riddler eða Edward Nygma, stóð sig að mínu mati vel og var fullkominn í þetta hlutverk. Myndin sjálf frekar leiðinleg þó en ágætis mynd miðað við “ævintýraheims” skalann. Hin myndin var framhaldið á Ace Ventura en sú mynd fékk heitið Ace Ventura: When Nature Calls, þar var um miklu betri mynd að ræða en Batman Forever og á ég erfitt með að gera uppá milli hvor myndirnar séu betri (Ventura myndirnar s.s.). Elska að fylgjast með honum í þessum myndum! Svo ókurteis, fyndinn, góður að “feisa” fólk, engin virðing borin fyrir einu né neinu = klikkað. Frábærar myndir!

1996 var tæpt ár hjá Jim, Cable Guy var sú eina sem kom út það árið og töluðu sumir um að nú væri ferill Carrey á enda kominn. En í myndinni lék hann frekar pirrandi karakter sem var smámæltur í þokkabót (einsog það sé slæmt). Ég sá myndina og viðurkenni ég alveg að hún sé kannski ekkert rosalega góð en Carrey sýnir enn og aftur snilldarleik. Árið eftir sannaði hann að hann væri ekki dottin dauður úr öllum æðum og skilaði hlutverki glataða föðursins mjög vel í myndinni Liar Liar. 1998 sýndi hann að hann gæti meira en bara spaugað fyrir framan cameruna og sýndi frábæran leik í drama / sci-fi myndinni Truman Show, að mínu mati hefði hann átti að fá óskarinn fyrir leik sinn en ég tel að þetta sé meðal 5 bestu myndum sem Jim Carrey hefur leikið í! Einnig lék hann aukahlutverk í myndinni Simon Birch sem ég á reyndar enn eftir að sjá. Man on the Moon kom svo þar á eftir árið 1999 en ég get því miður sagt lítið um hana þar sem ég á enn eftir að horfa á hana en miðað við hvað aðrir segja tel ég hana góða.

Þar með lýkur ferlinum hans á 20. öldinni, nú tekur við 21. öldin og er hún ekki síður skemmtileg. (Hún kemur í Pt. 2)