5 Bestu Illmenni Kvikmynda Sögunnar! (Keppni) Já, hef hugsað þetta þannig að þessi grein taki þátt í Greinasamkeppninni.

Jæja, langar aðeins til að rýna í vondu kallana. Þeir fá ekki alltaf nóg hrós, enda slæmir. En fyrir vikið eru þeir svalir til útlits, sterkir og notast við brögð sem eru ekki hetjunum sæmandi. Eða, já, eitthvað þannig. Allavega, látum vaða!


1. Hannibal Lecter (Anthony Hopkins) – Silence of the Lambs (1991)

Hver kannast ekki við hinn vitfirrta, brjálaða, gáfaða, mannétandi Hannibal “The Cannibal” Lecter? Hugsanlega einhver óhugnalegasti og flottasti karakter kvikmynda. Silence of the Lambs er sennilega einhver svakalegasti “Thriller” allra tíma og er Anthony Hopkins bæði frábær og óhugnalegur í hlutverki Dr. Hannibal Lecter.
Við höfum séð mörg illmenni neyta mannvera en enginn hefur gert það með slíkum stæl og Hannibal er lagið. Það er ekki bara illkvittnin sem skín af augum hans sem gerir manni bylt við, heldur einnig hversu klár í kollinum hann er. Sennilega fágaðasta illmenni okkar tíma, maður sem kann að meta gott vínglas með mannakjöti og góða kilju eftir á… Hannibal Lecter verðskuldar fyrsta sætið á þessum lista enda án vafa svakalegasta Illmenni kvikmyndanna.
Já, leyfum vondakallinum sem allir halda með að fá fyrsta sætið.
Eins og tagline myndarinnar, Silence of the Lambs, segir;
Dr. Hannibal Lecter. Brilliant. Cunning. Psychotic.


2. Darth Vader (David Prowse & James Earl Jones ) - Star Wars

Darth Vader á sennilega glæstasta ferilinn af öllum Illmennum allra tíma. Fjöldamorðingi og stríðsglæpamaður sem hefur heila vetrarbraut í greipum sér. Svo ekki sé talað um að hann er hin eina sanna “Hreina Illska.” Hér er maður sem gæti fengið vinnu hvar sem er. Darth Vader er án vafa einhver frægasta kvikmynda persóna allra tíma; Röddin, andardrátturinn og búningurinn er eitt af því sem einkennir hann. Og ég tala nú ekki um kunnáttu hans með geislasverði. Á meðan Hannibal Lecter er fágaður og flottur herramaður, þá er Darth Vader hreint út sagt kúl. Hann er svalur töffari sem lætur engan vaða yfir sig enda hefur hann góða kunnáttu hvað máttinn varðar. Darth Vader er sennilega aðal ástæðan fyrir því að okkur dreymir öll um Dimmu hlið máttarins, enda er valið á milli Darth Vader, ofurkúl nagli, eða Yoda, græn padda. Hver myndi ekki velja Meistara Illskunar? Og sem tákn um þakklæti mitt til Darth Vader, set ég hann hér í annað sæti á þennan ágætis lista. Darth Vader, megi þú stjórna vetrarbrautinni með harðri hendi um alla eilífð!

3. Reverend Harry Powell (Robert Mitchum) – The Night of the Hunter (1955)

Harry Powell er óþokki sem oftast er þekktur eftir tattúunum á höndum hans og ótrúlegum persónutöfra. Sennilega sá óþokki á þessum lista sem hvað fæstir þekkja, því miður. Geðbilaður prestur, þjófur og raðmorðingi sem hafði orðin LOVE og HATE tattúuð á hnúana á sér. Þegar buddan var tóm giftist hann ríkum ekkjum og myrti þær skömmu síðar. Töfrandi herramaður sem allir elska, tja, allavega til að byrja með. Þeir sem hafa séð The Night of the Hunter vita hvað ég á við þegar ég segi að Powell er einn óhugnalegur andskoti. The Night of the Hunter er stórkostleg kvikmynd og má að stóru leiti þakka Robert Mitchum fyrir það, því hann túlkar eitt svakalegasta illmenni fyrri tíma með þvílíkum glæsileika að maður heldur ekki vatni. Ef þú ert vel efnuð ekkja skaltu forðast vel útlítandi herramann með orðin LOVE og HATE tattúuð á hendurnar á sér. Sama gildir ef þú ert ungur drengur eða ung telpa og veist hvar stór upphæð af peningum er falin. Endum þetta bara á: Chiiilll… dren!


4. Norman Bates (Anthony Perkins) – Psycho (1960)

Yngri piltar telja oft að eina leiðin til að gera gott sturtuatriði er að henda nokkrum fáklæddum dömum saman undir bununa. Það er klárt mál að þessir einstaklingar ættu að taka höndina úr buxunum og fara að horfa á og virða alvöru kvikmyndargerð; Klassísk og svarthvít! Fyrst og fremst ættu þessir einstaklingar að kíkja á fræga Hitchcock trillerinn, Psycho. Þótt að allir geðbiluðu klikkhausarnir á þessum lista mínum eru geðbilaðir klikkhausar, þá gæti vel verið að Norman Bates sé sá geðbilaðasti. Hann er vissulega ekki sá sterkasti, hann stjórnar ekki heilli vetrarbraut, hann borðar ekki mannakjöt og hann er ekki prestur með orðin LOVE og HATE tattúuð á hendurnar á sér… En hann getur breytt sér í morðóða mömmu, óhugnalega morðóða mömmu. Ég held að við getum öll verið sammála um að Norman Bates á sæti á þessum lista innilega skilið, enda goðsögn. Eitt fyrsta illmenni kvikmyndanna sem fékk fólk til að hlaupa útúr kvikmyndahúsum vegna ótta. Sem kemur manni á óvart, þar sem hann myndi jú “ekki skaða flugu.”


5. Scar (Jeremy Irons) – Lion King (1994)

Öll munum við eftir Skara. Flest okkar voru á yngri árum þegar Lion King kom út í dagsljósið. Mörg okkar eigum minningar um tár og vonsvikni þegar visst ljón missti lífið. Og hver var það sem varð honum að bana? Enginn annar en Skari, illkvittnasta og besta illmenni teiknimyndanna. Jeremy Irons ljáði honum rödd sína í þessari stórkostlegu kvikmynd og var túlkun hans á Skara frábær. Skari er einfaldlega svalur og grimmur, svo ekki sé talað um örið á vinstra auga hans sem hann fær nafnið frá. Skari var, er og mun alltaf vera illkvittinn andskoti í mínum augum. Ég sá alltaf eftir Múfasa. Skari er kannski ekki beint illmenni í sama dúr og karakterarnir hér ofar á listanum en hann á sætið vel skilið enda ódauðleg persóna í teiknimyndum. Og við getum örugglega öll verið sammála um að hann er grimmasta ljónið. Já Skari þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu enda ertu eitt andstyggilegt ljón.

Og látum það vera endalokin á þessu rauli mínu.

-TheGreatOne