Nú er afskaplega lélegu kvikmyndasumri lokið. Pearl Harbor var fyrsta stórmynd sumarsins og var hún aðeins fyrsta myndin af mörgum sem valdi vonbrigðum. Meira að segja gæðaleikstjórinn Tim Burton kom aðeins með meðalmynd. Í raun er aðeins ein mynd sem ég man eftir að hafa verið virkilega góð og var það teiknimyndin Shrek úr smiðju Spielbergs. Svo hafa verið nokkrar sæmilegar myndir eins og “Kiss of the Dragon”, “Rush Hour 2” og “SwordFish”. En ef í heildina er litið hefur sumarið verið hörmung(Mér fannst Tomb Raider vera versta mynd sumarsins. Pearl Harbor veitir henni harða keppni). Hvað varð um sumarstórmyndir(blockbuster eins og þeir kalla það) eins og Jaws, Jurassic Park og Indiana Jones? Nú er haustið komið og betri tíð í vændum. Ég veit að sumir hérna á huga hafa séð sumar af þessum myndum sem ég ætla að fjalla um(skil reyndar ekki hvernig menn vilja sjá myndir í sjónvarpi eða tölvu í staðinn fyrir að sjá þetta í bíó á stóru tjaldi og með góðu hljóði). Þegar ég nefni frumsýningardag þá er ég að tala um Bandaríkin. Þær myndir sem ég tala um eru myndir sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu. Ég sleppi mörgum enda eru óteljandi myndir á leiðinni. Ekki veit ég heldur um neina væntanlega íslenska mynd.

“The Others”
Þetta er nýjasta mynd Nicole Kidman. Þetta er draugamynd sem hefur fengið frábæra dóma(sjá gagnrýni mattapatta hér á kvikmyndum). Hlakka til að sjá þessa.

“A.I.”
Þetta er myndin sem flestir vildu að yrði næsta mynd Kubricks. Vegna fráfalls hans tók Steven Spielberg hlutverkið að sér. Myndin gerist í framtíðinni þegar heimskautin hafa bráðnað. Hún fjallar um gervigreind og ást. Hún hefur fengið mjög misjafna dóma. Hlakka samt mjög mikið til að sjá þessa.

“Collateral Damage”
Nýjasta mynd Arnold Schwarzenegger. Leikstjóri er Andrew Davis. Eftir frekar lélegan árangur hjá Arnold undanfarið get ég ekki sagt að sé mjög spenntur. Myndin fjallar um slökkviliðsmann sem missir fjölskyldu sína í sprengingu. Hann verður auðvitað pist og ákveður að finna hryðjuverkamennina og taka duglega í þá. Hann verður að elta þá til Kólumbíu og lendir að sjálfsögðu í miklum ævintýrum.

“From Hell”
Leikstjórar eru Hughes bræður sem gerðu hina mögnuðu “Menace to Society”. Myndin gerist í London á 19. öld og fjallar um fjöldamorðingjan Jack the Ripper. Í aðalhlutverkum eru Johnny Depp, Heather Graham og Ian Holm. Þessi gæti verið spennandi.

“Monsters Inc”
Ný mynd frá Pixar sem gerðu Toy Story. Trailerinn var flottur enda er Pixar Studios frábært fyrirtæki. Myndin fjallar um erfitt líf skrímsla sem hafa það hlutverk að hræða krakka. Frumsýnd 2 nóvember.

“Windtalkers”
Nú hefur John Woo ákveðið að gera mynd sem gerist í seinni heimsstyrjöldinni. Myndin fjallar um bandamenn sem nota indíjánatungumálið navajo sem dulmál. Nánast enginn talar tungumálið lengur. Einn maður talar það þó ennþá og er hermanni falið það hlutverk að gæta hans en drepa hann ef óvinir ná honum. Í aðalhlutverkum eru Nicholas Cage, Adam Beah og Francis O´Connor. Frumsýnd 9 nóvember.

“Harry Potter”
Myndin er leikstýrð af hinum mistæka Chris Colombus. Myndin er auðvitað gerð eftir fyrstu skáldsögunni um Harry Potter. Hlakka til að sjá þessa. Frumsýnd 30 nóvember hér á Íslandi.

“Ali”
Leikstjóri er hinn magnaði Michael Mann. Ég bind miklar vonir fyrir þessa mynd. Hún fjallar um ævi frægasta boxara allra tíma, goðsagnarinnar Muhammed Ali. Í aðalhlutverki er Will Smith og er hreint frábært að sjá hann í trailerunum. Hann hefur massað sig rosalega og er bara nokkuð líkur Ali. Þessa mynd verða allir að sjá. Ég hef á tilfinningunni að þessi eigi eftir að berjast um óskarinn(sem eru nú reyndar marklaus verðlaun). Frumsýnd 7 desember.

“Ocean´s Eleven”
Þrátt fyrir góðan leikstjóra og stjörnufans er ég ekkert mjög spenntur. Ástæðan er sú að þetta er endurgerð á ekkert séstakri mynd með honum Frank Sinatra. Myndin fjallar um meistaraþjófa í Las Vegas. Í aðalhlutverkum eru George Clooney, Brad Pitt og Julia Roberts. Leikstjóri er Steven Soderbergh og verður hún frumsýnd 7 desember.


“Vanilla Sky”
Fjallar um ríkt kvennagull sem lendir í bílslysi og afskræmist hræðilega í andliti. Hann fer svo í lýtaaðgerð og stelpa sem hann var á eftir verður ástafanginn af honum. En síðan fara skrýtnir og hræðilegir hlutir að gerast. Myndin hefur fengið mjög góða dóma á prufusýningum(Test Screenings) og er sögð hafa mikla fléttu eins og “The Game”. Í aðalhlutverkum eru Tom Cruise, Penelope Cruz og Cameron Diaz. Leikstjóri er hinn frábæri Cameron Crowe(Almost Famous). Þessi á örugglega eftir að verða vinsæl. Frumsýnd 14 desember.


“The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring”
Eins og flestir vita þá er þetta myndin sem ég hef beðið mest spenntur eftir. Ástæðan er sú að Lord of the Rings er uppáhaldsbókin mín. Ég myndi frekar vilja sjá þessa mynd en allar hinar myndirnar ef ég ætti bara kost á því. Þetta verður ævintýramynd af bestu gerð. 25 mínútna bútur úr myndinni var sýndur á Cannes hátíðinni og átti engin til orð yfir hversu magnað þetta væri. Allir dómar um þessar 25 mínútur hafa verið yfirgengilega jákvæðir. Sjáið bara gagnrýnina hans Moriarty á www.ainitcool.com, þar sem hann segir að hann hafi aldrei séð annað eins. Spenna, tæknibrellur og leikur hafi verið það besta sem gerist. Í raun gerist hann svo djarfur að segja að þessi mynd eigi eftir að breyta því hvernig við lítum á kvikmyndir. Jólamyndin í ár!!! Í aðalhlutverkum eru Elijah Wood, Ian McKellan, Viggo Mortensen, Cate Blanchett og Christopher Lee. Frumsýnd 19 desember í USA og Bretlandi. Fyrst var sagt að hún yrði frumsýnd 21 desember hér á landi en nú heyrast raddir um að hún verði frumsýnd á annan í jólum. Ef einhver veit gæti hann þá látið mig vita?


“Gangs of New York”
Meistarinn hann Martin Scorsese kemur hér með draumaverkefni sitt. Fjallar um baráttu glæpagengja í New York á 19. öld. Í aðalhlutverkum eru Leonardo DiCaprio, Daniel Day-Lewis(kemur eftir langt hlé frá kvikmyndum) og Cameron Diaz. Þetta verður must see! Frumsýnd 21 desember.


“A Beautiful Mind”’
Fjallar um ævi stærðfræðisnillingsins John Forbes Nash. Þessi mynd hefur fengið frábæra dóma á prufusýningum og bíð ég mjög spenntur enda ævi þessa manns mjög áhugaverð(fyrir þá sem vita). Í aðalhlutverki er hinn frábæri leikari Russel Crowe. Þesi á örugglega eftir að vera tilnefnd til óskarsverðlauna. Frumsýnd 25 desember.Leikstjóri Ron Howard.


“Blawk Hawk Down”
Stríðsmynd sem gerist í Sómalíu 1993. Fjallar um misheppnaða aðgerð Bandarísku sérsveitanna í borginni Mogadishu. Brátt urðu rúmlega eitt hundrað Bandarískir sérsveitarmenn umkringdir af þúsundum reiðum Sómölum sem vildu drepa þá. Hermennirnir þurftu að berjast fyrir lífi sínu í um sólarhring þangað til hjálp barst. Mæli með að fólk lesi bókina eftir Mark Bowden sem lýsir atburðum mjög vel. Leikstjóri er Ridley Scott og í aðalhlutverkum eru Ewan McGregor, Josh Hartnett og Tom Sizemore. Frumsýnd á fyrri helmingi ársins 2002.


“Blade 2: Bloodhunt”
Mér fannt fyrri myndin mjög skemmtileg vitleysa og hlakka bara til að sjá þessa mynd. Í aðalhlutverkum eru Wesley Snipes og Kris Kristofferson. Frumsýnd snemma á næsta ári.


Jæja, þá er minn listi búinn. Ef þið hafið við eitthvað að bæta þá endilega að gera það. Gaman væri einnig að vita hvaða mynd þið bíðið spenntust eftir og afhverju