Hér er ágætis grein sem ég fann á kvikmyndir.com


Sumt fólk elskar ketti en aðrir kunna betur við hunda. Hundar hafa löngum verið taldi bestu vinir mannsins en samkvæmt þessari mynd þá er æðsti draumur katta að ná því hlutverki af hundunum og þeir munu beita öllum brögðum til að sá draumur rætist. Myndin fjallar um prófessor, sem leikinn er af Jeff Goldblum (Jurassic Park, Lost World: Jurassic Park, Independence Day), sem vinnur að formúlu sem mun lækna fólk af ofnæmi fyrir hundum. Kettirnir vilja ólmir koma í veg fyrir það og því þurfa hundarnir að gæta prófessorsins. Stríð hefur átt sér stað milli katta og hunda frá örófi alda og hefur að mestu farið framhjá mönnunum. Þetta er hátækni stríð þar sem njósnarahundar hafa meðal annars verið þjálfaðir í bardagatækni enda gætu þeir átt á hættu að þurfa að takast á við hóp af ninja köttum svo eitthvað sé nefnt. Myndin er vel unnin í alla staði og tæknilega mjög vel gerð enda meistararnir hjá fyrirtæki Jims heitins Henson sem sjá um þá brúðutækni sem notast er við þegar alvöru dýrunum sleppir. Ýmsir frægir leikarar ljá köttunum og hundunum raddir sínar í þessari mynd og má þar nefna Susan Sarandon, Alec Baldwin, Tobey Maguire, Michael Clark Duncan og síðast en ekki síst Sean Hayes (Jack í Will & Grace) sem fer á kostum sem geðstirður köttur sem stefnir að heimsyfirráðum. Myndin er mjög fyndin og sniðug á köflum en þó verð ég að segja að eitthvað vantaði til þess að fullkomna þessa annars skemmtilegu mynd. Það vantaði eitthvað sem vart er hægt að koma orðum að en hefði bætt hana nokkuð. Handritið er ágætlega unnið og hægt að finna eitthvað sem skemmt gæti ungum sem öldnum. Leikararnir standa sig flestir með prýði þó það sé aðeins röddin sem margir þeirra nota. Tæknilega er myndin mjög vel unnin og maður veltir því fyrir sér hvar þeir fái þessi viðráðanlegu dýr og hvort ég geti ekki fengið mér eitt. En þrátt fyrir allt þetta þá vantar eitthvað smávegis til að fullkomna verkið. Auðvitað er ljóst að í þessari mynd er köttunum stillt upp sem illmennum og hundunum sem göfugu hetjunum en það er svo auðvitað áhorfenda að velja á milli. Þess vegna vil ég ekki tjá mig um það hvort ég fengi mér þægan hund eða viðmótsþýðan kött þegar ég skellti mér í þessa goðsagnakenndu gæludýrabúð með þægu dýrin. - Guðjón Helgason
Cowboys From Hell