Hér er ágæt grein um Pearl Harbor sem ég fann á kvikmyndir.com, hún fékk aðeins 2* af fjórum mögulegum. Persónulega finnst mér hún ekkert góð.

Árásin á Perluhöfn, þann 7. desember árið 1941, er án efa einn af vendipunktum seinni heimsstyrjaldarinnar þar sem hún leiddi Bandaríkin inn í stríðið. Án þess að lýsa yfir stríði gerðu Japanir loftárás á Kyrrahafsflota Bandaríkjanna sem lá við akkeri í höfninni við Honolulu. Þeir komu að heimamönnum gjörsamlega óviðbúnum og tókst að sökkva (eða laska alvarlega) átján skipum, þar á meðal flestum orrustuskipum flotans. Létust u.þ.b. 2500 manns. Þó vildi svo heppilega til að öll flugmóðurskip Bandaríkjanna, sem áttu eftir að drottna á hafinu í stríðinu (en orrustuskipin voru raunar orðin úrelt) voru ekki í höfn. Bandaríkin áttu seinna eftir að ná fram grimmilegum hefndum. Maður hefði raunar haldið að þessi atburður væri uppistaðan í samnefndri mynd sem frumsýnd hefur verið í kvikmyndahúsum, bæði hér og erlendis, með miklum látum. En það er því miður ekki svo. Umfjöllunarefnið er raunar ástarþríhyrningur en aðalpersónurnar í honum verða fyrir því óhappi að lenda í loftárás. Af þremur, afskaplega löngum, klukkutímum sem það tekur myndina að líða eru myndskeið frá árásinni sjálfri aðeins rúmur hálftími. Annars er tíminn notaður til að bókstaflega troða ofan í kokið á áhorfandanum þremur alveg einstaklega óspennandi persónum og tilfinningalífi þeirra. Myndin hefst með senu þar sem tveir mjög ungir bandarískir sveitastrákar eru sýndir taka sig til og fljúga flugvél smáspöl, eitthvað sem hlýtur að teljast frekar hæpið. Þeir vaxa síðan úr grasi og verða að tveimur myndarlegum ofurhugum sem hugsa bara um flug. Annar þeirra, Ben Affleck, verður ástfanginn af ungri hjúkrunarkonu, Kate Beckinsale. En skyldan kallar því Ben ákveður að fara til hins “hræðilega” Bretlands sem sjálfboðaliði til að hjálpa til í orrustunni um Bretland sem þó ætti að vera lokið á þessum tíma. Þar hjálpar hann hinum innfæddu sem geta lítið annað gert en að stynja upp úr sér hóli um Bandaríkin og Bandaríkjamenn. Hjúkrunarkonan og besti vinur Bens (leikinn af Josh Hartnett) fara hins vegar til Perluhafnar. Loftárásin sjálf er raunar eins konar aukaplott í myndinni sem veitir áhorfendum tímabundna frelsun frá persónum myndarinnar en að henni lokinni koma þær því miður aftur upp á yfirborðið sem er synd því þær eru ekki nærri því eins áhugaverðar og sökkvandi skip. Það er einmitt helsti galli myndarinnar að þrátt fyrir að eyða yfir klukkutíma í að kynna persónurnar í ótrúlega hægum og illa skrifuðum senum þá er manni nákvæmlega sama um þær. Persónusköpunin er grunn og flugmennirnir hetjugerðir svo mikið að þeir missa öll tengsl við raunveruleikann. En svipaða sögu má svo sem segja um aðrar persónur myndarinnar. Skemmtilegar línur eins og þessi hérna: “I'm gonna give Danny my whole heart, but I don't think I'll ever look at another sunset without thinking of you” sem Kate Beckinsale fer með, falla því undir þessum kringumstæðum gjörsamlega flatar. Söguþráðurinn inniheldur óþægilega mörg einkenni lélegra sápuópera. Ekki vantar heldur ameríska þjóðarrembinginn í myndina sem verður á köflum þrúgandi, s.s. í senunum með Roosevelt forseta og í lokaatriðunum þegar árás Bandaríkjamanna á Tokyo árið 1942 eru gerð skil. Af leikhópnum standa Jon Voight sem Franklin D. Roosevelt og Kate Beckinsale sig best. Ben Affleck og Josh Hartnett eiga frekar vondan dag og ná illa saman. Svo er Cuba Gooding Jr. líka þarna í hálf furðulegu hlutverki sem kemur söguþræðinum nákvæmlega ekkert við en tengist þeim mun meira hugmyndinni um pólítíska réttsýni. Frásögnin af Japönum, sem greinilega mátti ekki styggja, er í sama dúr. Myndin er ekki góð söguleg heimild þar sem hún inniheldur engan fróðleik um ástæður eða afleiðingar árásarinnar og fer sömuleiðis mjög frjálslega með sögulegar staðreyndir. Sögulegi atburðurinn sjálfur er aðallega notaður sem aðalaðandi bakgrunnur til að lokka fólk til að horfa á ástarþríhyrninginn sjálfan. Engu hefur heldur verið til sparað við upptökur á árásinni sjálfri sem er full af tæknibrellum eins og þær gerast allra bestar og er hún raunar eini ljósi punkturinn. Hins vegar er hin óumflýjanlega staðreynd sú að teyminu Michael Bay og Jerry Bruckheimer (Rock, Armageddon) hefur tekist að eyða yfir 15 milljörðum íslenskra króna, sem er litlu minna en íslenska ríkið ver til menntamála á hverju ári, í mynd sem inniheldur meingallað handrit og er næstum allan tímann hrútleiðinleg.