Maximum Overdrive (1986) Hryllingsmynd.

Sagan segir frá því þegar dularfullur loftsteinn fer framhjá jörðinni og þá lifna skyndilega allar vélarnar í heiminum við og á þær rennur morðæði.
Myndi segir frá hópi fólks sem er fastur inni á matsölustað við þjóðveg. Þau verða skyndilega umkringd af 18 hjóla trukkum sem bíða þess eins að einhver komi út úr matsölustaðnum til að bruna yfir. Núna verða þau að komast út af staðnum og þangað sem engar vélar ná til ef þau ætla lifa þetta morðæði vélanna af.

Þessi mynd er fyrsta myndin sem Stephen King leikstýrði. Myndin er eftir smásögu hans og eins skrifaði hann handritið að myndinni. Svo það má segja að hún sé algjörlega hans og hann gerði sér alveg grein fyrir því strax í byrjun. Hann gerði myndina fyrst svo subbulega og blóðuga að framleiðendurnir fengu áfall. Auk þess fékk hann hótanir frá kvikmyndaeftirlitinu í USA um að myndin yrði bönnuð ef hann mundi ekki klippa hana til svo hún yrði hæf í kvikmyndahúsum vestanhafs. Eftir smá þrjósku lét kallinn eftir og var myndin klippt nokkuð niður.

Emilio Estevez, bróðir Charlie Sheen, fer með aðalhlutverkið í myndinni. Mér fannst hann standa sig þokkalega í myndinni. En augljóslega eru ekki allir sammála. Hann var tilnefndur til Razzie verðlaunan fyrir verstu frammistöðu í bíómynd það árið. Reyndar var Stephen King líka tilnefndur sem versti leikstjórinn á sömu verðlaunahátíð. En þrátt fyrir þessa tilnefningu sem Estevez fékk stóð hann sig þokkalega. Var hann mun betri en hinir leikararnir í myndinni.

Myndin sjálf byrjar á alveg þvílíkum hamagangi. Morðæði vélanna eru gefin góð skil fyrstu 30 mínútur myndanna þar sem líkin hrannast upp og blóð og subbuskapur er í fyrirrúmi. Það er ekki laust við að maður glotti við tönn við að sjá bíla keyra um göturnar alla útblóðuga. Ísbíllinn var sérlega flottur.

En eftir þessar 30 mín virðist sem allt púðrið í myndinni sé búið. Eftir mikið morðæði, þar sem meira að segja gossjálfssalinn fær að slátra einum manni á frekar fyndinn hátt, er byrjað að kynna okkur almennilega fyrir persónunum í myndinni. Ekki sterkur leikur hjá Stephen King.

Leikararnir eru allir frekar slappir, og má jafnvel benda á Stephen King í þeim efnum. Hann á erfitt með stjórna hópnum og virðist vera frekar slappur á því sviði. Þó stóð hann sig með prýði fyrstu 30 mínúturnar þegar hann var að koma morðæðinu til skila. Slappur leikur og frekar þunnar persónur verða til þess að maður fer að halda með vélunum í myndinni og það liggur við að maður fagni í hvert skiptið sem einhver verður jafnaður við jörðu af 18 hjóla trukki.

Það sama gildir um söguna í myndinni. Þegar morðæðinu líkur kemur í ljós hversu innihaldslaus sagan er og á köflum finnst manni eins og það sé verið að reyna fylla upp í ákveðinn tímaramma. Eftir því sem meira reynir á söguna því furðulegari verður hún og í lokinn finnst manni að ekkert af því sem gerist í myndinni geti gengið upp.

Eftir að myndinni er lokið þá spyr maður sjálfan sig: “Af hverju var ekki bara keyrt á stanslausu morðæði vélana í 98 mínútur,?” því þegar myndinni er lokið er það eina sem stendur upp úr fyrstu 30 mínútur myndarinnar. Hitt allt fellur í gleymsku um leið og kreditlistinn er búinn. Svo má auðvitað ekki gleyma tónlistinni í myndinni. En AC/DC tónlist er spiluð á fullu mestan hluta myndarinnar og við sjáum meira að segja AC/DC “rútuna” verða fyrir barðinu á vélunum í myndinni.

Þrátt fyrir þunna sögu og í raun lítið gott við myndina getur maður ekki annað en smellt á myndina **/**** fyrir frábæra skemmtun fyrstu 30 mínúturnar og eins frábæra tónlist.
Helgi Pálsson