Saga kvikmyndarinnar: Frá upphafssporum til Hollywood Atburðirnir sem urðu til þess að kvikmyndalistformið varð til eru margvíslegir og spanna yfir langt tímabil. Kvikmyndalistin er mjög ungt listform og varð ekki til í eiginlegri mynd fyrr en um aldamótin 1900. Í raun koma mörg listform, s.s. leikhús og bókmenntir, að grunninum sem kvikmyndirnar eru reistar á en kvikmyndalistin er sérstæð að því leyti að hún er algjörlega háð tækni og þróun hennar. Í upphafi voru kvikmyndir þó ekki viðurkenndar sem listform heldur frekar sem ódýr alþýðuskemmtun.

Í raun byggir kvikmyndalistformið á skynvillu. Fyrr á öldum, allt frá tímum Egypta, trúðu menn á ‘varðveislu sjónskynjunar’, þ.e. að þegar augun næmu áreiti héldu þau myndinni eftir í nokkurn tíma. Þetta er að vísu á misskilningi byggt en þessi athugun er samt það sem hvatti menn til að notfæra sér þessa ‘varðveislu’ og setja margar myndir saman til að skapa þá sjónrænu blekkingu að um eina samfellda mynd væri að ræða. Þess má geta að raunveruleg ástæða þess að við greinum röð ramma sem eina samfellda mynd er sú að þegar skipt er um ramma nógu oft á sekúndu getur heilinn ekki greint á milli mismunandi áreita og þannig skapast kvikmyndin í huga okkar.

Margir byrjuðu að búa til vélar sem spiluðu marga ramma í röð en Thomas Alva Edison tók það besta úr öllum vélum og fékk félaga sinn, William Kennedy Laurie Dickinson, til að hanna nýja og mikið bætta tökuvél sem nefndist Kinetograph. Ári síðar sendu þeir félagar frá sér nýja sýningarvél sem þeir nefndu Kinetoscope. Kinetoscope var byltingarkennd í sýningu stuttra myndbanda að mörgu leyti en þó fylgdi henni stór galli. Kinetoscope bjó ekki yfir myndvarpa; aðeins einn áhorfandi gat horft á myndband í hverri sýningarvél og varð að horfa ‘ofan í vélina’ til að sjá myndina, það sem kallað var ‘peep-show’. Fyrstu myndirnar (þó alls ekki í þróaðri mynd) voru framleiddar af Edison en hann gerði sér sjálfur ekki grein fyrir mætti kvikmyndarinnar. Hann leit á þær sem enn eitt stundargaman alþýðunnar sem fljótt mundi gleymast og hugsaði aðeins um að kreista eins mikið fjár og mögulegt væri meðan múgurinn hefði enn áhuga á kvikmyndunum.

Afrakstur allra tækninýjunga og þróunar náði hámarki í Cinématographe-kvikmyndahúsi Lumière-bræðra í Frakklandi. Þeir sameinuðu Kinetograph Edisons gamalli vörpunartækni, töfralampanum, sem byggðist á því að kertaljós var sett fyrir aftan linsu og það notað til að varpa ákv. myndum upp. Þarna voru Lumière bræður komnir með það besta úr báðum tækjum; loksins var komin til tækni til að sýna afrakstur hinnar ört vaxandi kvikmyndalistar í almenningssýningum. Upphaf kvikmyndalistarinnar er oft kennd við þessar sýningar sem voru fyrstu sýningar sem fólk borgaði sig inná. Lumière bræður gerðu enn fullkomnari tökuvélar sem brátt voru notaðar um allan heim og ein af fystu myndum þeirra, L’Arroseur arrosé (Vökvarinn vökvaður) (, var fyrsta kvikmyndin til að innihalda grínatriði og jafnframt fyrsta kvikmyndin sem hafði meðvitaðan söguþráð.

George Méliès hefur oft verið kallaður faðir frásagnartækninnar og kvikmyndaformið gjörbreyttist með tilkomu hans. Ég sendi fyrir nokkru inn skjáskot úr einni af frægustu myndum hans, La Voyage dans la lune (Ferðin til tunglsins) (1902), og það er einmitt skjáskotið sem fylgir greininni. Hann var frumkvöðull á ýmsum sviðum; m.a. var hann sá fyrsti sem notaði lýsingu á meðvitaðan hátt og einnig sá fyrsti sem tók mynd ofan á mynd (þ.e. tók upp á filmu sem þegar hafði verið tekið upp á til að láta tvö ólík myndskeið renna saman í eitt). Þó hafði Méliès ýmsar takmarkanir og mjög leikhúslegur stíll hvíldi yfir öllum verkum hans. Þó er framlag hans til þróunar kvikmyndarinnar ómetanlegt því hann var frumherji á ýmsum sviðum og var upphafsmaður margvíslegrar kvikmyndatökutækni og brellna sem hafa verið notaðar allar götur síðan.

En á meðan kvikmyndalistin steig sín fyrstu skref í Frakklandi byggðist hún smátt og smátt upp í Bandaríkjunum. Edwin S. Porter hafði verið sýningarstjóri hjá Edison en fór svo að gera eigin kvikmyndir. Hann var t.d. sá fyrsti til að nota víxlklippingar og sýna atburðaröð óháð tíma t.d. með því að klippa á milli tveggja samhliða atburðarása sem áttu sér stað á sama tíma. Ein af frægustu myndum hans er The Great Train Robbery (1903) en Porter náði nýjum hæðum í spennu sem áður höfðu ekki sést. Síðasta atriði The Great Train Robbery er sérstaklega þekkt þar sem glæpamaður horfir beint á áhorfandann og tekur í gikkinn. Þetta þótti hrollvekjandi á sínum tíma.

Hollywoodkvikmyndagerðin varð þó ekki til fyrr en með D.W. Griffith. Hann hafði upphaflega enga trú á kvikmyndaiðnaðinum og sagði m.a.s. að sá sem hefði gaman að þessu rusli ætti skilið að vera skotinn. Hann neyddist hins vegar til að leika í mynd eftir Porter vegna fjárskorts og eftir það fór hann að gera sínar eigin myndir. Hann hefur oft verið nefndur ‘faðir kvikmyndatækninnar’ að því leyti að hann þróaði þær aðferðir sem fyrir voru og tók innblástur úr leikhúsi og myndlist til að bæta frásagnartækni og fágun kvikmyndarinnar. Hann jók á gæði formsins gríðarlega og var t.d. sá fyrsti sem gerði verulegar kröfur til leiks og hann krafðist þess fyrstur manna að leikararnir æfðu sig fyrir tökur. Allar myndir hans fram til 1913 voru stuttmyndir en þá gerði hann sína fyrsu mynd í fulli lengd. Hins vegar var hann alls ekki fyrstur til að gera kvikmynd í fullri lengd en sú fyrsta þeirrar tegundar var ástralska myndin The Story of the Kelly Gang (1906). Eftir 1913 gerði Griffith sínar frægustu myndir. Önnur þeirra var söguleg mynd um bandarísku borgarastyrjöldina, Birth of a Nation (1915), og þar gerði Griffith meiri kröfur til leikmynda og búninga en áður hafði þekkst. Birth of a Nation inniheldur þó gríðarlega fordóma og Griffith sætti gagnrýni fyrir það á sínum tíma. Hann svaraði með myndinni Intolerance (1916) sem er líklega önnur þekktasta mynd hans í dag.

Edison, sem minnst var á fyrr í greininni, áttaði sig um stundir á hversu mikla gullnámu hann hefði dottið á. Hann og ýmsir aðrar ákváðu að stofna The Motion Picture Patents Company (MPPC) til að reyna að einoka kvikmyndaframleiðsluna m.þ.a. leggja öll einkaleyfin sem þeir áttu saman og meina öllum utan samtakanna að njóta þeirra. Þetta varð til þess að hinir ‘óháðu’ urðu að flýja samtökin til að geta framleitt myndirnar sínar og þannig byrjaði kvikmyndaframleiðslan í Bandaríkjunum að safnast fyrir í Los Angeles. Engin algild skýring er á því hvers vegna einmitt sá staður varð fyrir valinu en staðurinn var í hæfilegri fjarlægð frá járnklóm MPPC. Kvikmyndatökulið höfðu farið til Los Angeles í mörg ár til að taka upp vegna þess að þar var fjölbreytt landslag, rík leikhúsmenning og gott framboð af leikurum, gott veður og ódýrt jarðnæði fyrir stúdíóin. Á þennan hátt varð Hollywood til og árið 1915 fór 60% framleiðslunnar fram þar. Ástæðan er sú að á tímum heimsstyrjaldarinnar fyrri beið evrópsk kvikmyndagerð mikla hnekki meðan bandarísk kvikmyndagerð blómstraði vegna mikillar uppsveiflu í efnahagi og auðvitað vegna þess að samkeppnin lamaðist vegna stríðsins. Allt frá þessum tíma hefur bandarísk kvikmyndagerð verið langmest áberandi og lítur ekki út fyrir að breyting verði þar á á komandi árum.