Þessi mynd hefur eitthvað verið til umræðu hérna áður en það má samt reyna að byrja á nýjum þræði um hana.
Ég var að enda við að sjá stykkið hér í Bretlandi og gekk út með svona blendnar tilfinningar. Myndin er einstaklega falleg og öll grafíkvinnsla til mikillar fyrirmyndar. Þó er stjarna myndarinnar eflaust útlitshönnunin sem býr að baki henni á öllum tæknibúnaði og tölvu-samskiptahömum. Maður hálf gapir af og til þegar hreint ótrúlega áhrifamiklar myndir fylla tjaldið (í guðanna bænum ekki sjá þessa mynd á minna en bíótjaldi því hún verður að njóta sín í öllu sínu veldi).
Þar með er reyndar upptalin öll snilldin við þessa filmu sem beðið hefur verið eftir með nokkurri óþreyju. Handritið er allt hið ófrumlegasta og er myndin í raun samsetning stolinna atriða og kemur því út sem hálftuggin klisja. Helstu lánsmyndirnar eru; Aliens, Abyss, Princess Mononoke, og jafnvel dustað rykið af gamla stjörnustríðinu af og til. Þetta er í raun synd því höfundurinn er með hjartað á réttum stað en það er stór munur á að skrifa tölvuleiki og kvikmyndir og það skín í gegn hér.
Talsetningin er alls ekki hræðileg en þó hafa Alec Baldwin og Ming-Na, sem tala fyrir aðalpersónurnar, komist ótæpilega í valíumskápinn. Snillingarnir Steve Buscemi og Ving Rhames ná að gæða persónur sínar dálitlu lífi og einnig er gamla kempan Donald Sutherland traustur og gefur Doctor Sid manneskjulegt viðmót eftir fremsta megni.
Það er þó helst þegar persónurnar eiga að sýna tilfinningar að maður finnur áberandi fyrir því að þetta eru sílikonteiknaðar gínur en ekki hold og blóð. Myndin sjálf er þó þess virði að sjá til að dást að sérdeilis góðri tæknivinnu, og er hin sæmilegasta skemmtun þegar öllu er á botninn hvolft.
______________________________