Í bíó - The Cronichles of Narnia: The Lion, the Witch and the Wardrobe Útgáfuár: 2005
Leikstjóri: Andrew Adamson
Handrit: Ann Peacock, Andrew Adamson, Cristopher Markus og Stephen McFeely. Byggt á samnefndri skáldsögu C.S. Lewis.
Sýningarstaðir: Sambíóin Kringlunni, Álfabakka, Akureyri og Keflavík og Háskólabíó.
Sýningartímar: http://kvikmyndir.is/?v=bio

Eftir gríðarlegar vinsældir kvikmyndaþríleiksins um Hringadróttinssögu á síðustu árum kemur kvikmynduð útgáfa meistaraverks C.S. Lewis um ævintýraheiminn Narníu. Tímasetningin er bæði snjöll og ekki snjöll. Snjallt er að nýta sér ævintýrastemninguna í kringum jólamyndirnar sem Hringadróttinssögumyndirnar sköpuðu þrjú jól í röð á síðustu 4 árum. Hins vegar leiðir þetta til óhjákvæmilegs samanburðar við Hringadróttinssögu, sem er hvaða ævintýramynd sem er erfiður. Leikstjóri The Cronichles of Narnia er Andrew Adamson sem hefur helst unnið sér það til frægðar að hafa leikstýrt báðum Shrek-myndunum.

Myndin byggir á fyrstu útgefnu bókinni af sjö bókum um Narníu-heiminn, The Lion, the Witch and the Wardrobe. Hún gerist á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og fjallar um fjögur börn sem eru send af móður sinni út í sveit til að forðast loftárásir Þjóðverja. Þau eru send til gamals prófessors þar sem sú yngsta af þeim, Lucy, finnur skáp sem leiðir þau inn í aðra veröld. Þar flækjast þau inn í átök milli hinna góðu með ljónið Aslan í broddi fylkingar og hinna illu með ísnornina Jadis fremsta í flokki.

Eins og ég sagði áðan er samanburður við Hringadróttinssögu óhjákvæmilegur en þó ætti ekki að dæma myndina út frá henni. Staðreyndin er sú að C.S. Lewis og J.R.R. Tolkien voru mestu mátar og ræddu oft saman um ævintýri og aðra heima. Sögur þeirra eru mjög líkar að mörgu leyti en þó er Hringadróttinssaga mun dýpri enda á heimurinn sem Tolkien skapaði sér fáa líka. Dæma skal Narníu út frá eigin verðleikum.

Þar sem myndin fjallar um fjögur börn reynir svolítið á að finna fjóra góða barnaleikara sem vaxa því miður ekki á trjám. Mér finnst þeir allir hafa brugðist myndinni nema kannski helst Skandar Keynes sem komst ágætlega af með fýlusvipinn sinn í túlkun sinni á Edmund. Báðir eldri krakkarnir fannst mér litlausir og krúttleiki litlu stelpunnar var ekki það mikill að ég geti sagt að hún hafi leikið vel. Eftir að hafa rennt í gegnum gagnrýnir á netinu hef ég nefnilega tekið eftir því að ef lítil stelpa er sæt eða krúttleg er hún góður leikari. Annars voru þeir ekkert hræðilegir, ég segi það ekki en þó ekki mjög sterkir. Hins vegar var Tilda Swinton góð sem ísdrottningin. Síðan virkaði rödd Liams Neeson mjög vel sem ljónakonungurinn Aslan. Liam hefur þennan mikilfengleika og tignarleika í röddinni sem þurfti fyrir þann karakter.

Útlitslega séð er Narnía mjög flott og tökustaðirnir renna vel saman við tölvugrafík. Skepnurnar virka flestar vel, t.d. virkar efri hluti leikarans James McAvoy í hlutverki fánsins Tumnus vel við teiknaðan neðri hlutann. Betri tölvugrafík hefur sést en þetta er ævintýri og ég sætti mig alveg við að þetta sé hálfgerð teiknimynd. Ég komst samt ekki hjá því að fá smá kjánatilfinningu þegar ég sá talandi Mínótárusinn í herklæðum og jafnframt geitur o.fl. í mannslíki. Þessi hluti myndarinnar á samt eflaust að henta börnum betur en mér.

Allt í allt heppnaðist myndin ágætlega. Ævintýrið færðist vel yfir á hvíta tjaldið og sjónarspilið oft á tíðum mjög flott. Hins vegar dró það myndina niður að ferð sumra persónanna var ekki alsannfærandi og krakkaleikaranir ekki sem bestir. Hins vegar komu Tilda Swinton og Liam Neewson sterk inn. Fín jólamynd og besta skemmtun en skilur ekki mikið eftir sig í huga mér.

*** - *** 1/2 / *****.