Topp 5 Kvikmyndir Ársins Topp 5 Kvikmyndir Ársins

Jæja, þá fer árinu að ljúka og eftir heilan helling af kvikmyndum þarf ég að velja úr. Árið, eins og undanfarin ár, hefur verið gott, hvorki betra né verra. Kvikmyndir hafa séð betri tíma en verri tíma má einnig finna. Eitt er þó víst að í öllu þessu flóði af kvikmyndum þetta árið ættu allir að hafa fundið sér eitthvað við sitt hæfi.



1. Cinderella Man (2005)

Cinderella Man er nýjasta kvikmyndin frá Ron Howard en hefur hann látið frá sér myndir eins og Apollo 13 og A Beautiful Mind. Hér á ferðinni er stórkostleg mynd með stórkostlegum leikarahóp og má þar nefna Russel Crowe, Paul Giamatti, Renee Zellwegger og Bruce McGill. Allir þessir leikarar og fleiri standa sig vel og lifa þeir vissulega upp eftir sinni frægð. Hinsvegar má þá helst nefna Russel Crowe. Ég held að fáir gætu meðhöndlað þetta hlutverk jafnvel og hann gerir hér í þessari mynd.

Myndin fjallar um boxarann James J. Braddock (Russel Crowe) sem er að reyna lifa af á tímum kreppunnar. Ferill hans virðist vera á enda en hann er staðráðinn í að gefast ekki upp og á endanum fær hann tækifæri til að sanna hvað í sér býr. Myndin sýnir okkur baráttu hans fyrir fjölskylduna sína en þessi fátæki útbrenndi boxari gerði sig á stuttum tíma þjóðarhetju bandaríkjamanna.

Ron Howard hefur hér gert meistaraverk, hans túlkun á lífi James J. Braddock er list. Hann sýnir erfiðleika kreppunnar en hefur þetta ekki klisjukennt með dramatískri tónlist og fátæku fólki í biðröðum með matarmiða. Þetta er allt svo stórfenglegt en samt svo sorglegt, það má þakka vel unnri kvikmyndatöku fyrir það. Síðustu mínútur myndarinnar eru frábærar, og líklega einhverjar bestu síðustu mínútur sem ég hef séð á þessu ári. Myndin er vel leikinn og mjög vel skrifuð og sést það í hverri senu. Túlkun Max Baer er sögulega vitlaus en það breytir því ekki að Craig Bierko stendur sig afar vel.

Cinderella Man er góð mynd, jafnvel aðeins betri en “góð”. Hún mun höfða til margra og ekki bara boxaðdáenda. Þú skalt sjá þessa mynd þótt þú sért ekkert afar spenntur fyrir henni, en allir aðdáendur Russel Crowe , Renée Zellweger, Paul Giamatti og Ron Howard fá nægju sína og vel yfir það í þessari mynd.


2. King Kong (2005)

King Kong fjallar um hóp kvikmyndargerðamanna sem ætla sér að taka upp nýjustu myndina sína á “Skull Island” eða Skull Eyju. Þetta á að vera ófundunn eyja en leikstjórinn (Jack Black) fékk í hendurnar kort sem sýnir staðsetningu eyjarinnar. Hinsvegar þegar komið er til eyjunnar kemur í ljós að hún er full hættum, allt frá ættbálki villimanna sem stunda mannafórnir, fornaldar lífverur svosem risaeðlur. Og svo kóngur eyjunnar, sem er risastór górilla að nafni Kong.

Þá er kominn ný mynd úr smiðju Peter Jackson en við þekkjum hann best fyrir að leikstýra Lord of the Rings þríleiknum. Hér kemur hann með endurgerð King Kong en þetta er í þriðja skiptið sem sagan er sögð. Jackson hefur þó hér valið að fylgja elstu útgáfunni frá 1933 eftir og jafnvel þótt hér sé að finna nýjungar er myndin einnig afar lík upphaflegu myndinni á vissum sviðum.
Hvað leikara varðar er maður nokkuð sáttur. Það ber þó að nefna að Jack Black var rangur maður á röngum stað. Hann gaf frá sér góða og sterka frammistöðu en hann augljóslega passaði ekki inn í hlutverkið. Adrien Brody, sem hefur aldrei verið í miklu uppáhaldi hjá mér, stendur sig hér ótrúlega vel. Það má þó ekki neita þeirri staðreynd að Naomi Watts stelur hverri senunni á eftir annari. Hér sýnir hún en á ný hversu frábær leikkona hún virkilega er. Einnig sýnir hún mikla hæfileika þegar kemur að samleik hennar og górillunar, því að górillan var jú í raun ekki á staðnum.

King Kong er stórmynd í alla staði, allt frá frábærum tæknibrellum í stórkostlega myndatöku. Einnig tekst Jackson afskaplega vel að gera þessa mynd mannlega. Hér má finna bæði hörkuspennandi hasar atriði og sorg og smellpassar þetta allt saman. Líklega liggur stærsti galli myndarinnar í lengd hennar. Hún er rétt rúmir þrír klukkutímar og hefði hún vel mátt vera styttri. Hún er langdreginn á köflum og hefði vel mátt klippa aðeins af henni, en samt er þessi galli ekki nógu mikill til að draga myndina niður. Sannleikurinn er einfaldlega sá að King Kong er besta ævintýramyndin síðan Lord of the Rings var sýnd, og sýnir þetta hversu góður Jackson er í raun og veru þegar það kemur að stórmyndunum. Myndin hefði vissulega mátt vera aðeins styttri, en þegar litið er yfir myndina þá er þetta galli sem maður er tilbúinn að láta framhjá sér fara.


3. Sin City (2005)

Sin City er myndin sem þú ættir að sjá. Margar teiknimyndasögur hafa fundið sér leið á stóra tjaldið en engin hefur verið gerð svona vel. Persónulega hafði ég ekki lesið myndasögurnar fyrir myndina, eða þær þrjár sögur sem myndin er byggð á. Ég hins vegar gat lesið eitthvað af sögunum eftir að ég sá myndina og þá fyrst sá ég hversu góð þessi færsla er. Margir myndasögu unnendur hafa kvartað yfir myndum sem færast ekki nógu vel yfir á tjaldið en Sin City er fullkominn þegar þar að kemur.
Línurnar eru nánast þær sömu og í myndasögunum og sena fyrir senu alveg eins, það er aðeins til góðs. Tónlistin er hreint og beint stórkostleg og leikarúrvalið er frábært. Hér á ferðinni er frábær leikhópur og má þá nefna m.a.: Clive Owen, Bruce Willis, Mickey Rourke, Benicio Del Toro, Nick Stahl, Jessica Alba, Elijah Wood, Michael Madsen, Rutger Hauer. Þessi mynd er svo stórkostleg að ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja.

Myndin hefur vissulega sinn eigin stíl og mun jafnvel ekki höfða til allra en það er bara svo margt sem einkennir þetta meistaraverk. Frank Miller og Robert Rodriguez sem leikstýra gera vel, Quentin Tarantino er einnig guest director hér.. Þess má geta að Sin City myndasögurnar eru eftir Frank Miller. Sin City er án vafa svalasta mynd sem ég hef nokkurn tíman séð. Ég get ekki fundið einn leikara sem stóð sig illa, enda úrvals fólk sem er hér á ferð. Eins og ég sagði, þessi mynd er ótrúlega svöl og sumar setningar í myndinni munu gefa þér gæsahúð.

Sin City er skipt niður í 3 aðal sögur. Þessar 3 sögur eru; The Hard Goodbye, The Big Fat Kill og That Yellow Bastard.
The Hard Goodbye segir frá Marv (Mickey Rourke) sem ráfar um götur Basin City í leit hefndar eftir að draumastúlkan hefur verið myrt.
The Big Fat Kill segir frá Dwight (Clive Owen) sem kemur sér í vandræði þegar hópur kvenna, sem hafa sett sín eigin lög drepa óvart lögreglumann. Þetta er eitthvað sem myndi koma stríði á ef spillt yfirvöld kæmust að og er það upp undir Dwight að kippa þessu í lag.
Svo er það That Yellow Bastard sem fjallar um Hartigan (Bruce Willis) sem reynir að stöðva brjálaðan nauðgara eftir að hann sleppur úr fangelsi.

Sin City er án vafa besta spennumyndin á þessu ári ef ekki sú besta frá upphafi. Hér er á ferð stórbrotið meistaraverk sem engin má láta framhjá sér fara.


4. Batman Begins (2005)

Hér kemur sagan um hvernig Bruce Wayne varð Batman. Sem ungur drengur sér hann foreldra sína myrta og útfrá því verður hann “obsessed” með hefnd. Hann hverfur til Austurlanda og þar tekur hann við ráðum og lærir hjá hinum hættulega, en heiðarlega ninja flokk’s foringja Ra’s Al-Ghul. Síðan heldur hann aftur til Gotham borgar aðeins til að sjá hana í rústum eftir glæpi og eyðileggingu. Útfrá þessu verður hann að nýrri persónu og ætlar hann sér að gera allt til að koma borginni aftur á rétta braut.

Hér kemur Batman mynd sem margir hafa beðið eftir. Hér er hún í stíl við myndasögublöðin og fylgir þeim nokkuð vel eftir. Hér sjáum við sögu Bruce Wayne (Christian Bale) alveg frá byrjun þegar hann er ungur drengur. Batman Begins segir þessa sögu afar vel, jafnvel þótt margt efni hérna hafi nú þegar komið fram í Tim Burton Batman myndinni frá 1989. Hinsvegar er sagan mun dýpri í þetta sinn og nánar farið útí smáatriðin.

Myndin er afar vel leikinn, Christian Bale stendur sig vel í hlutverkinu. Ég hafði mínar efasemdir um hann sem Batman en eftir að hafa séð myndina sannfærði hann mig endanlega um að hann gæti ráðið við hlutverkið. Adam West er líklega sá sem hefur leikið Batman best en Bale kemur í öðru eða þriðja sæti. Má í raun lítið kvarta yfir frammistöðu hans.
Liam Neeson stendur sig einnig afskaplega vel og má svosem líka nefna Michael Caine sem Alfred, en hann stendur sig einnig vel eins og venjulega jafnvel þótt hann hafi ekki sérlega stórt hlutverk.
Ég var líklega mest óánægður með leik Katie Holmes. Ég hef séð hana gera betur, svo ekki sé talað um að ég tel hana alls ekki passa við hlutverkið sem Rachel Dawes. En frammistaða hennar dregur myndina samt ekki niður.

Batman Begins er dimmri og mun alvarlegri mynd en fyrri Batman myndirnar. Hér er tekið allt aðra stefnu í að endurskapa þessa ofurhetju goðsögn og verð ég að segja að það hefur tekist afskaplega vel. Myndin er afar skemmtileg og þó ég er ekki viss um að hún slái upprunalegu Burton myndinni við, þá er hún allavega nálægt því í öðru sæti. Virkilega góð reynsla, og er ég afskaplega ánægður að sjá endurkomu Batmans svona góða. Sérstaklega þar sem hann hefur alltaf verið uppáhalds ofurhetjan mín.


5. Lord of War (2005)

Lord of War segir frá Yuri Orlow (Nicolas Cage) sem verður vopnasali eftir að hann verður þreyttur á lífinu í bænum sem hann býr í ásamt foreldrum sínum og bróður (Jared Leto). Svo byrjar hann að selja vopn, og gerir það vel og verður bráðlega einn helsti vopnasali heims. Og eins og von er vís, verður hann eltur af lögreglunni og þá aðalega Jack Valentine (Hawke). Yuri ferðast um allt þar sem stríð er að finna og eru vandræðin aldrei langt undan.

Lord of War er í stuttu máli sagt góð mynd. Þeir sem búast við stórri spennumynd gætu orðið vonsviknir því þetta er alls ekki spennumyndin sem margir búast við. Myndin einbeitir sér en fremur að persónusköpun og er handritið virkilega sterkt. Andrew Niccol, sem leikstýrir og skrifaði handritið, stendur sig hér afar vel en hann er ekki sérstaklega stór og frægur í heimi kvikmynda. Hinsvegar sýnir hann hér fram á að hann er fullfær í sínu starfi.

Leikhópurinn er ekki ósvipaður leikstjóranum. Hér er allt nokkuð galla laust. Nicolas Cage er sami töffarinn, og jafnvel þótt að við höfum séð þennan leikstíl hjá honum oft og mörgum sinnum þá er hann alltaf jafn skemmtilegur. Jared Leto stendur sig prýðilega. Hann er hvergi nærri því að geta haldið myndinni uppi þó. Aðrir leikarar eins og Ethan Hawke og Bridget Moynahan standa sig virkilega vel og má segja að myndin sé vel leikinn í nær alla staði.


Og hér hafið þið bestu myndir ársins að mínu mati. Ég vill þó benda á að samkeppnin var hörð milli Lord of War og Chronicles of Narnia en á endanum ákvað ég að velja Lord of War. Jafnvel þótt Narnia sé falleg og vel gerð mynd var hún ekki gallalaus og fannst mér hún ekki eiga sætið skilið.

Takk fyrir,
TheKingOfTown