Framtíð DVD á myndbandaleigum Í Morgunblaðinu fyrir stuttu birtist viðtal við einn af yfirmönnum Bónus Videos, Videohallarinnar og einnar annar leigu sem ég man ekki eins og er. Því miður hef ég ekki þetta viðtal undir höndunum þannig að að ég verð að vitna í það eftir minni - endilega leiðréttið ef þið vitið betur!

Í viðtali þessu kemur fram að hann telur að DVD-myndir verði frekar hugsaðar í framtíðinni fyrir fólk sem vill eiga myndirnar. Á videoleigum séu þær engan veginn að borga sig og gangi það hreinlega ekki upp að hafa þær það. Reyndar segir hann eina leigu bera sig, Videohöllin - fólk sé duglegt að koma þangað, enda úrval mikið miðað við aðra staði.
Ástæður þess að ekki sé grundvöllur fyrir þær, að í hverjum mánuði komi aðeins 3 myndir að meðaltali út á DVD og að þær skemmist mjög auðveldlega. Fólk sé að rispa myndirnar til að fá aðra mynd og DVD-diskar séu eins og að hafa vidoespólur án plasthylkja.

Er þetta virkilega raunin? Eru ekki að koma út nema 3 myndir á mánuði? Ef svo er þá hlýtur það ástand að batna með aukinni eign á DVD-spilurum, það getur ekki skilað nokkru öðru en auknum gróða að gefa út fleiri titla, jafnt fyrir leigu og sölu.

En það að DVD-diskar séu rispaðir sérstaklega til að fá annan, það finnst mér ótrúlegt! Það sama er alveg jafnt hægt að gera við spólurnar, það er hægt að skemma þær, ástæðan fyrir að það er síður gert er sú að fleiri eintök af hverri mynd eru jafnan til þannig sá sem leigir fær einfaldlega sömu mynd aftur. Ef fleiri eintök af DVD-myndunum væri til væri sama staða þar. Einnig mætti þá verulega draga úr slíkum skemmdarstarfsemum með því að starfsmenn á leigum myndu opna hulstrið og skoða diskinn fyrir framan kúnnann, maður þyrfti nú að vera ansi harður til að rispa viljandi disk sem skoðaður var fyrir framan þig.

Einnig er eitt atriði sem fer sérstaklega í taugarnar á mér og er ekkert til að hvetja fólk til að taka DVD-myndir. Það er uppröðun á mörgum leigum! Eina sem maður sér af þeim er kjölurinn og ef maður er heppinn sést jú framhliðin á fremstu myndinni.
Það er reyndar til fyrirmyndar í Videohöllinni (reyndar mætti staðsetningin vera betri), enda er það jú eina leigan sem er að bera sig í kostnaði varðandi DVD!

Ef við viljum halda áfram að sjá DVD á leigum þurfum við einfaldlega að vera dugleg að leigja frekar DVD-titlana ef möguleiki er, jafnvel þó svo að það þurfi að bíða eftir þeim og taka eitthvað annað (á DVD) í staðinn það kvöld!

thatman - niður með VHS :)