King Kong: 1933 og 2005 ATHUGIÐ: Í umfjölluninni er á nokkrum stöðum talað um söguþráð en inniheldur ekkert sem ætti að eyðileggja myndirnar fyrir fólki og þá geri ég ráð fyrir að fólk viti nokkurn veginn um hvað sagan snúist.

Nýjustu myndar Peters Jackson, endurgerð myndarinnar King Kong frá 1933, hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir gríðarmiklar vinsældir Hringadróttinssögu. King Kong hefur lengi verið ein uppáhaldsmynda Peters og að eigin sögn sú mynd sem veitti honum hvað mestan innblástur til að verða kvikmyndagerðarmaður. Hann hefur lengi ætlað að ráðast í að endurgera hana og ætlaði sér upphaflega að gera það eftir að mynd hans The Frighteners kom út árið 1996. Hins vegar voru höfundarréttarvandræði ásamt öðru sem urðu til þess að hann gerði Hringadróttinssögu á undan. Vinsældir þríleiksins gerðu það að verkum að lítið mál var fyrir hann að hrinda endurgerð King Kong í framkvæmd og afrakstur þess er loksins kominn í kvikmyndahús hérlendis.

Gífurlegur fjöldi endurgerða streymir frá Hollywood á ári hverju. Mikilvægasta spurningin sem áhorfandinn þarf að spyrja sig að er hvað það sé sem gerir það að verkum að endurgerð gangi upp. Að mínu mati koma nokkrir þættir þar inní. Endurgerðin má augljóslega ekki vera nákvæmlega sama myndin, þ.e. í raun tímafjölföldun á upphaflegu myndinni. Endurgerðin verður að geta staðið sjálf, hún verður að vera eiginverk leikstjórans sem ræðst í verkið en samt hafa í sér það sem er gott við upphaflegu myndina. Það sem er kannski sérstaklega frægt við upphaflegu myndina verður að skila sér í endurgerðinni en þó þannig að vel sé farið með það. Mér finnst Peter Jackson á þennan hátt hafa skilað frá sér góðri túlkun á upphaflegu myndinni. Endurgerðin er myndin hans Peters Jackson, sem hefur sama grunn og upphaflega myndin en með nýjum persónum, breytingum í atburðarás og söguþræði. Samt inniheldur hún flest af þessum eftirminnilegu augnablik og setningar úr upprunalegu myndinni sem mér finnst verða að skila sér í endurgerðinni.

Það sem kannski er sniðugast við myndina er að Peter gerir hana í raun að rammasögu; nýja sagan hans skapar að vissu leyti ramma utan um upphaflegu söguna. Þeir sem hafa séð upphaflegu myndina vita t.d. til þess að þegar við sjáum Ann Darrow (Naomi Watts) og Bruce Baxter (Kyle Chandler) skiptast á línum í kvikmyndinni sem Carl Denham (Jack Black) er að taka upp í endurgerðinni er samtalið nánast eins og í upphaflegu myndinni, þar sem Ann Darrow (Fay Wraye) og Jack Driscoll (Bruce Cabot) mæla mjög svipuð orð en þar er Jack Driscoll allt annar karakter en í endurgerðinni. Hin upphaflega King Kong er þannig orðin kvikmynd inni í kvikmyndinni sem endurgerðin er og mér fannst það mjög skemmtilegt. Sama er uppi á teningnum í endurgerðinni þegar Kong er kominn til New York og verið er að sýna hann; fórnarathöfnin sem sett er á svið í sýnningunni þar er nánast eins og hin raunverulega fórnarathöfn í upphaflegu myndinni. Hins vegar er alvörufórnarathöfnin í endurgerðinni talsvert frábrugðin því sem var í upphaflegu myndinni, bæði hvað varðar ættbálkinn og heildaruppsetningu. Í endurgerðinni er eyjan stílfærð; hún er gerð ennþá veruleikafirrtari en í upphaflegu myndinni. Eyjaskeggjarnir eru gerðir miklu ómannlegri og reynt er að skapa svolítið hryllingsandrúmsloft. Mér fannst það alveg flott en sumt af þessu fannst mér einhvern veginn ekki passa inn í heildarmyndina.

Ég kíkti á King Kong Production Diaries áður en ég sá myndina og það eyðilagði ekkert fyrir. Hins vegar verð ég að vara fólk við að þetta er ekki gert í sama stíl og aukaefnið með Hringadróttinssögu-myndunum eins og ég hélt. Þetta er bara samansafn nokkurra mínútna myndbandsdagbóka sem skellt var inn á netið reglulega á meðan framleiðslunni stóð. Hún er mjög forvitinleg að mörgu leyti en hún snerist að ótrúlega miklu leyti um útlitshönnun o.þ.h. sem varð þreytt til lengdar. Ég hvet fólk til að bíða eftir að Kong komi út á DVD enda má búast við sprengjuútgáfu. Við að horfa á gerð myndarinnar tók ég samt fljótlega eftir því að þetta var nánast eins og að horfa á gerð Hringadróttinssögu því kjarnavinnuhópurinn samanstendur af sama fólkinu. Andrew Lesnie kvikmyndatökumaður er mættur aftur ásamt Richard Taylor sem stjórnar Weta, Dan Hennah sem sér um leikmyndabyggingu (set decorator), Jamie Selkirk klippara og Grant Major útlitshönnuði myndarinnar (production designer). Þetta teymi gefur ákveðinn gæðastimpil því það er ótrúlegt hversu vandvirkir þessir menn eru. Sérstaklega er gaman hvað sett var mikil vinna í að láta New York líta út eins og á fjórða áratugnum. Til dæmis voru búðir sem aldrei sást inní voru fylltar af vörum frá tímaskeiðinu og mikil vinna var lögð í ýmis önnur smáatriði sem áhorfendur voru aldrei varir við en gefur leikmyndinni dýpt. Eins og í Hringadróttinssögu er öll hönnun í King Kong frábær; litirnir, andrúmsloftið og kvikmyndatakan var einstaklega flott. Peter Jackson elskar stórar kvikmyndahreyfingar og epísk skot og það svínvirkar hjá honum.

Endurgerðin er næstum tvöfalt lengri en upphaflega myndin. Hún er þannig augljóslega talsvert öðruvísi en sú upphaflega að ýmsu leyti. Atburðarásin í fyrri myndin gengur heldur hratt og í rauninni inniheldur hún aðeins það sem allra nauðsynlegast er fyrir áhorfendur að vita. Í seinni myndinni er annað uppi á teningnum. Þar er fyrsta helmingnum af myndinni eytt í myndun sambanda, kynningu á persónum og þess háttar, enda er áhorfandinn kynntur fyrir miklu fleiri persónum hér en í upphaflegu myndinni. Ég hef séð bera smá á því að áhorfendum hafi fundist fyrri helmingurinn langdreginn, jafnvel leiðinlegur, en að allt hafi batnað eftir innkomu Kongs. Ég er ósammála því, mér fannst fyrri hlutinn einmitt góður og vonaði bara að Kong mundi styrkja myndina enn frekar. Ástæðan er kannski helst mjög skemmtileg persónusköpun. Kvikmyndagerðarmaðurinn Carl Denham er látinn vera svolítið öðruvísi í túlkun Jacks Black en í upphaflegu gerðinni og það hefur frekar skemmtileg áhrif. Í fyrri myndinni var Denham eilítið misheppnaður jaðarkvikmyndagerðarmaður sem var ævintýramaður í anda. Í endurgerðinni er hann gerður ennþá misheppnaðri, með ennþá meira sjálfsálit og spjátrungslegri. Að þessu leyti passar Jack Black einstaklega vel í hlutverkið en hann sýnir einnig að hann getur leikið alvarlegu hliðina. Naomi Watts stóð sig einnig mjög vel og á sama hátt Adrien Brody. Persónulega finnst mér Adrien Brody vera snillingur og hann hjálpaði myndinni mikið fyrir mig. Svo var ótrúlega gaman að sjá Andy Serkis sem skipskokkinn Lumpy en eins og margir vita eflaust lék hann Kong á tökustað þegar Naomi Watts var að leika á móti honum. En önnur aðalpseróna myndarinnar sem ekki má gleyma er konungurinn sjálfur. Þegar Kong kemur til sögunnar er mjög löngum tíma eytt í að sýna hvernig þetta sérstaka samband myndast milli hans og Ann Darrow og hvernig það styrkist á meðan þau eru saman í skóginum. Minna bar á þessu í upphaflegu myndinni og mér finnst það ekkert verra að láta tilfinningatengsl þeirra vera sterkari hér. Í endurgerðinni er Kong eiginlega látinn vera með gáfur á við lítið mannsbarn og hann hagar sér eftir því.

Áður en ég sá myndina hafði ég lesið og heyrt að Kong væri 100% raunverulegur og að Weta Digital hafi náð fullkomnun í tölvutækni. Ég vildi að ég hefði ekki heyrt þetta því af þeim sökum bjóst ég við því að ég tryði því algjörlega að Kong væri þarna af holdi og blóði. Ekki misskilja mig, brellurnar voru mjög flottar en ekki þannig að maður sæi ekki á hárunum á honum að hann væri tölvuteiknaður. Kong er þrátt fyrir allt ótrúlegur árangur og það ótrúlegasta við hann fannst mér að þeim hjá Weta tókst algjörlega að búa til persónuna, þ.e. tilfininningaveruna sem Kong er. Ég tók sérstaklega eftir því hvað þeim tókst að setja mikla dýpt í augun á honum og í raun fáránlegt hvernig hægt er að teikna augu og ná að láta þau ‘tala’, þ.e. lýsa tilfinningum tölvuteiknuðu persónunnar. Þetta má líka sjá í Gollum í Lord of the Rings. Ég man sérstaklega eftir atriðinu þar sem Frodo minnir hann á að hann hafi eitt sinn verið Sméagol. Augun á Gollum eru ótrúleg þegar hann lítur upp og segir: “What did you say?”. Ég er viss um að einhver annar muni eftir þessu atriði.

Kong í upphaflegu útgáfunni þótti náttúrulega undraverk á sínum tíma og eins og flestir vita eflaust var hann þá gerður með ‘stop-motion animation’, þ.e. þeir notuðu líkön af Kong þar sem þeir hreyfðu hann alltaf lítillega á milli þess sem þeir tóku ramma. Bardagi Kongs og grameðlanna hefur öðlast sérstakan sess í kvikmyndasögunni og því erfitt verk sem beið Peters og félaga að endurgera hann. Það er gaman að því að Weta notaði módelin tvö af grameðlunni sem notuð voru við gerð upphaflegu myndarinnar til að búa hana til á stafrænu formi. Peter fór þá leið að láta Kong berjast við þrjár grameðlur í einu. Mér finnst það frekar bera keim af lélegri endurgerðunum að vilja alltaf gera meira og betra en þó má hann eiga það að bardaginn var mjög flottur. Það sem kannski friðþægði mig var að þegar Kong berst við síðustu grameðluna og tekur um kjaftinn á henni er verið að líkja eftir mjög svipuðu atriði í upphaflegu myndinni.

Síðan er það Empire State atriðið. Hérna er náttúrulega verið að tala um eitt alfrægasta og eftirminnilegasta atriði kvikmyndasögunnar. Endurgerðin valt að miklu leyti á því að ná þessu atriði réttu. Bardagi Kongs við flugvélarnar og dauði hans eru mjög áhrifamikil skot og hér kemur prýðisgóð frammistaða Naomi Watts sterk inn. Lokaorðin úr upprunalegu myndinni, þegar Denham mælir um dauða Kongs:

Oh no, it wasn’t the airplanes, it was Beauty killed the Beast,

skila sér sem betur fer í endurgerðinni. Þessi setning fangar í raun allt andrúmsloft myndarinnar og eitt af því sem var eftirminnilegt við upprunalegu myndina. Það sem mátti ekki gera hjá Jackson var að hann færi á tæknibrellutripp og missti algjörlega sjónar á því sem upprunalega myndin stóð fyrir. Að sjálfsögðu ber svolítið á því að smá ‘show-off’ sé í gangi tæknibrellulega séð til að láta áhorfendur undrast en aldrei þó þannig að sagan týnist. Þrátt fyrir tilkomumiklar brellur er móralskur undirtónn sögunnar alltaf í fyrirrúmi. Ekki má svo gleyma því að auðvitað áttu t.d. bardagi Kongs við risaeðluna og svo seinna við flugeðluna í upphaflegu myndinni að vera tilkomumiklar á sama hátt og í endurgerðinni.

Í heildina er ég mjög sáttur við endurgerð Peters Jackson. Auðvitað er erfitt að bera myndirnar saman miðað við tímann sem líður milli framleiðslu þeirra. Þetta er samt bara að hluta til endurgerð; þetta er í raun nýja Peter Jackson myndin sem sækir söguna í upphaflegu myndina. Á ýmsum sviðum er hún trú upphaflegu myndinni og á öðrum sviðum inniheldur hún nýtt efni. Mér finnst jafnvægið milli þessara tveggja fyrirbæra afbragðsgott og stór hluti af því sem gerir myndina svo góða. Samband Ann og Kongs er byggt upp á góðan hátt og nær eðlilegum hápunkti þegar Kong er uppi á Empire State. Klímaxið er mjög gott og tónlistin eftir James Newton Howard hjálpar þar mikið til. Reyndar átti Howard Shore upprunalega að semja tónlistina en hann hætti vegna einhvers konar listræns ágreinings milli hans og Jacksons. Leikararnir standa sig frábærlega og kvikmyndatökuvinna er með afbrigðum. Ég treysti mér ekki til að bera myndirnar tvær saman stjörnugjafarlega séð en ef ég dæmi bara endurgerðina gef ég henni

**** / *****.

Að lokum: Skemmtileg staðreynd

Undir lok tökunnar á King Kong var Peter Jackson orðinn svo þreyttur að hann kallaði til Brian Singer til að hjálpa sér einn daginn. Næsta dag var það sama uppi á teningnum og þá var enginn annar en snillingurinn Frank Darabont kallaður til. Þetta kom fram í Production Diaries og ég veit ekki hvort þetta hafi verið einhver hrekkur á sama hátt og tilkynningin um útkomu tveggja framhaldsmynda um King Kong. Hins vegar finnst mér það ólíklegt þar sem hægt var að sjá báða þessa leikstjóra á tökustaðnum og menn væru að ganga heldur langt fyrir hrekk ef þeir komu þangað að ástæðulausu.