Eftirminnilegir dauðdagar Það hefur verið smáskortur á greinum upp á síðkastið þ.a. ég ákvað að henda upp grein um nokkra eftirminnilega dauðdaga.

SPOILER VIÐVÖRUN – í greininni verður sagt frá atriðum úr myndunum sem eru nefndar, oft úrslitaatriðum í myndunum og því ráðlegg ég fólki ekki að lesa um atriðin úr þeim myndum sem það hefur ekki séð.

1. Braveheart (William Wallace)

Þetta er rosalegt atriði. William Wallace er pyntaður á margvíslegan hátt og honum er oft boðið að losna undan þjáningunum með því aðeins að segjast viðurkenna Englandskonung sem konung sinn. Hann stenst allar pyntingaraðferðirnar og hefur klútinn frá Murron með sér sem er hluti af ástæðunni fyrir því að hann lætur ekki bugast. Svo kemur eitt magnaðasta skot í kvikmyndasögunni, maður konungs segir: “The prisoner wishes to speak”. Wallace tekur langan tíma í að safna mættinum og notar síðustu kraftana í að öskra “Freeeeeeeeedom”. Frábært.

2. The Manchurian Candidate (Raymond Shaw)

Raymond hefur verið heilaþveginn af kommúnistum til að drepa forsetaframbjóðanda og Frank Sinatra leikur herforingjann Bennett Marco sem áttar sig á því hvað Raymond á að gera. Við sjáum Raymond koma sér fyrir í skotfæri og búa sig undir að skjóta. Á meðan er Marco að leita að Raymond á staðnum. Marco finnur Raymond ekki í tæka tíð og Raymond skýtur, en ekki forsetaframbjóðandann heldur móður sína, sem var tengiliður kommúnistanna í Bandaríkjunum, og föður sinn. Þá setur Raymond orðuna sem hann fékk fyrir herstörf sín um hálsinn sinn og Marco kemur inn í herbergið. Raymond segir:

You couldn't have stopped them, the Army couldn't have stopped them. So I had to.

Síðan snýr hann byssunni að sjálfum sér og skýtur sig. Magnað lokaatriði á góðri mynd.

3. Se7en (John Doe, Tracy Mills)

Hver man ekki eftir lokaatriðin úr Se7en? Fjöldamorðinginn John Doe virðist vera að fara með áætlun sína í vaskinn þegar hann gefur sig fram þegar hann á tvö morð eftir. Póstsendill kemur með tösku lengst út í óbyggðirnar þar sem John Doe, David Mills og William Somerset eru. Somerset sér hvað er ofan í töskunni og segir við þyrluliðið:

California, tell your people to stay away. Stay away now, don't - don't come in here. Whatever you hear, stay away! John Doe has the upper hand.

Í ljós kemur að í töskunni er höfuðið af konu Mills, Tracy, og verður það til þess að Mills missir sig og skýtur John Doe. Á þann snilldarlega hátt lýkur John Doe áætlunum sínum um leið og að láta lífið. Bæði er dauði Tracy og dauði Johns Doe eftirminnilegir og Kevin Spacey gerir ótrúlega mikið fyrir karakterinn sinn og atriðið. Góð tónlist, góð uppbygging að klímaxinu, mjög flottar nærmyndir af John Do að segja:

Become vengeance, David. Become wrath,

og fínasta frammistaða Brads Pitt þar sem hann berst við að halda aftur af sér er sumt af því sem gerir þessa dauðasenu að þeirra allra eftirminnilegustu.

4. Dr. Strangelove (Major Kong):

Þessi dauði er með þeim allra frægustu í kvikmyndasögunni enda mjög óvenjulegur. Áhöfn í bandarískri herflugvél fær fyrirmæli um að varpa kjarnorkusprengju sem eru af völdum geðbilunar yfirmanns í bandaríska hernum. Þegar kemur að því að varpa sprengjunum standa þær fastar og falla ekki. Hæstráðandi í flauginni, Major Kong, sest þá sjálfur á kjarnorkuprengjuna til að losa hana og fer svo með henni alla leið niður. Mjög frægt skot þar sem Kong ríður sprengjuna líkt og presti enda er Kong mjög fyndinn svona Texas-kúreka karakter. Þessi dauðdagi er lýsandi fyrir svarta húmorinn sem er eins og rauður þráður í myndinni og gerir hann þannig enn sérstakari og skemmtilegri.

5. Die Hard (Hans Gruber):

Annað mjög eftirminnilegt atriði. Hans Gruber hefur tekið Holly McClane í gíslingu, John skýtur hann og hann dettur út um gluggann en heldur um höndina á Holly. John reynir að leysa hana og á meðan koma nokkrar slow-motion nærmyndir af Gruber þar sem hann dregur upp byssu. Rétt áður en hann nær að skjóta nær John að losa hann af Holly og þá fellur Hans niður einhverja tugi hæða. Fallið hjá Alan Rickman er líka mjög vel gert og mig minnir að peturp hafi minnst á í sinni grein um Die Hard að honum hafi verið sleppt áður en þeir voru búnir að telja niður til að auka áhrifin.

6. Gladiator (Maximus):

Að mínu mati er Gladiator ótrúlega góð mynd. Maximus, herforingi í rómverska hernum, er gerður að skylmingaþræl af nýkrýndum keisara Commodusi sem hefur myrt föður sinn. Commodus hittir Maximus aftur og ákveður að mæta honum í síðasta skipti. Þeir eiga þó ekki aljafnan leik því að Commodus sker sár í brjóst honum áður en bardaginn byrjar og lætur fela það. Bardaginn sjálfur er mjög góður en svo fer að Maximus nær að höggva Commodus banahögg. Gladiator væri samt líklegast ekki á þessum lista ef ekki hefði farið svo að Maximus er orðinn úrvinda og hnígur sjálfur niður. Þá koma mjög flott myndræn skot af leið hans að eilífðarríkinu meðan hann liggur í andaslitrunum. Lucilla, systur Commodusar og fyrrverandi ástkona Maximusar, segir: “Go to them,” og Maximus fer inn í Elysium til að vera enn á ný með konu sinni og strák. Að mínu mati stórkostlegur endir; bæði er hann einstaklega velútfærður og einnig er það sem liggur undir í honum mjög gott; Maximus lifir aðeins til að fá hefnd fyrir konu sinni og barni. Þegar hann hefur drepið keisarann er leið hans í lífinu lokið; bæði andlega og líkamlega og því einhvern veginn eðlilegt að hann deyi. Fyrir utan það er endurlífgandi að sjá mynd þar sem hetjan deyr og maður er alveg fullkomlega sáttur við það og í raun eðlileg framvinda sögunnar. Að hugsa sér að Ridley Scott hafi ákveðið þetta á síðustu stundu.

7. Full Metal Jacket (Private Gomer Pyle):

Þessi dauðdagi er “fucked-up”. Í byrjun Full Metal Jacket fylgjumst við í hálftíma með herforingja í hernum, Hartman, þjálfa herlið. Þeirra á meðal er Gomer Pyle sem er ekki í nógu góði formi og virðist almennt vera seinheppinn. Hartman kvelur Gomer gjörsamlega og veran þarna verður alltaf verri og verri fyrir hann þangað til þeir fara að skjóta af byssunum sínum. Gomer reynist nefnilega vera framúrskarandi skytta. Síðan útskrifast þeir úr æfingabúðunum og Gomer er valinn til að vera í landhernum. Þetta virðist samt koma of seint fyrir hann því hann missir algjörlega vitið og eina nóttina situr hann inni í klósettherbergi með riffilinn sinn bútaðan niður. Það fer ekki á milli mála að hann er búinn að tapa sér því hann framkvæmir hreyfingarrútínur með riffilinn úr þjálfuninni og öskrar á meðan. Frábær frammistaða Vincents D’Onofrio hjálpar þessu atriði mikið. Hartman kemur inn í herbergið og öskrar á hann níðyrðum eins og hann er vanur og þá skýtur Gomer hann. Síðan sest hann niður og leggur riffilinn í lóðrétta stöðu eins og hann sé að hvíla sig en beinir honum svo upp í munninn á sér og fremur sjálfsmorð. Einstaklega eftirminnilegt atriði.

8. 2001: A Space Odyssey (H.A.L. 9000):

Þessi er ógleymanlegur vegna þess hve óvenjulegur hann er. Kubrick tókst að búa til áhugaverðan karakter úr skipstölvu og notaði ýmis brögð til þess, t.d. að láta mennina í kringum HAL vera daufa og mónótóníska. Atriðið þegar Dave Bowman er að taka HAL í sundur er mjög eftirminnilegt, HAL er algjörlega varnarlaus gegn Dave og reynir fyrst að tala hann til. Síðan þegar fer að slökkna smátt og smátt á honum koma fyrst frá honum endurtekningar og svo sækir hann allt í einu ræðuna sem hann flutti við ræsingu sína og fer með hana. Kannski best bara að birta einræðuna:

I'm afraid. I'm afraid, Dave. Dave, my mind is going. I can feel it. I can feel it. My mind is going. There is no question about it. I can feel it. I can feel it. I can feel it. I'm a… fraid. Good afternoon, gentlemen. I am a HAL 9000 computer. I became operational at the H.A.L. plant in Urbana, Illinois on the 12th of January 1992. My instructor was Mr. Langley, and he taught me to sing a song. If you'd like to hear it I can sing it for you.

Síðan syngur hann mjög eftiminnilega On a Bicycle Built For Two og eftir því sem hann kemst lengra í laginu dýpkar röddin á honum þangað til í síðustu orðunum “deyr” hann endanlega.

Þetta var aðeins samtíningur af atriðum þ.e. ekki endilega þau atriði sem mér finnst best og röðin endurspeglar ekki álit mitt á þeim. Ætlunin er að hvetja fólk til að skrifa greinar og reyna að koma á smá umræðu. Endilega segið frá þeim atriðum sem standa upp úr hjá ykkur.