Serenity Í framtíðinni er jörðin orðin yfirfull og fólk farið að leita á aðrar plánetur. Annað sólkerfi hefur fundist, og jarðarbúum hefur tekist að byggja upp nokkrar plánetur þar. Margir staðir hafa þó ekki verið skoðaðir enn og veit almenningur lítið um þá, og frá þeim stöðum koma viðurstyggilegar mannætur sem eru kallaðar “Reavers”. Enginn veit hvaðan þessi dularfulli hópur fólks kemur, og þeir sem stjórna heiminum…“The Alliance”, eða Sambandið, neita tilvist þeirra algjörlega þrátt fyrir að “The Reavers”, eða vargarnir, ráðast reglulega á aðrar plánetur og éta fólkið þar.

Malcom Reynolds og skrautlega áhöfnin á skipinu hans börðust gegn Sambandinu í töpuðu stríði og eru núna nokkurs konar útlagar sem fljúga á milli plánetna og ræna verslanir. Ungur maður og systir hans eru nýbúin að bætast við áhöfnina á skipinu, en þau eru líka flóttamenn undan “The Alliance”. Stelpan var tilraunadýr sem alin var upp sem miðill sem les hugsanir og hermaður og bróðir hennar, sem nýlega bjargaði henni, gerir allt til að halda henni frá Sambandinu. Saman lendir þetta lið í allskonar vandamálum, og ætla ég ekkert að fara nánar út í söguþráðinn hér.

Serenity, sem er byggð á sjónvarpsþáttum sem voru í stuttann tíma sýndir á Fox sjónvarpsstöðinni, er með skemmtilegri myndum sem ég hef séð í bíó í langan tíma. Myndin hefur samt því miður fengið frekar dræmar viðtökur í miðasölum, þrátt fyrir frábæra dóma. Og ein aðal ástæðan fyrir því tel ég að sé léleg markaðssetning. Myndin er markaðssett sem einhver týpísk annars flokks hasarmynd með gellu í aðalhlutverki. Menn hafa líklega ætlað að stíla inn á það að fólk sem hefur gaman af Buffy og svoleiðis dæmi fari á þetta, enda er Joss Wheadon, leikstjóra þessarar myndar, einnig heilinn á bakvið Buffy og Angel. Mér finnst til dæmis auglýsinging sem ég sá í blaðinu um daginn alveg hræðileg, og hefði ég aldrei farið á þessa mynd hefði ég ekki lesið alla þessa góðu hluti um hana á IMDB og öðrum síðum.

Leikaraliðið í þessari mynd er að mestu óþekkt, enda er þetta sama fólkið og lék í sjónvarpsþáttunum. Mér finnst það flott að halda sér við það, í staðinn fyrir að fá einhverjar stjörnur eins og eflaust hefði verið hægt að gera. Persónurnar er það sem mér finnst best við myndina, fólkið um borð á Serenity (nafnið á skipinu) er allt ótrúlega skemmtilegt og það er algjör snilld að hlusta á samræðurnar þeirra. Húmorinn í myndinni er alveg ótrúlega góður. Og held ég að það sé best að vitna bara aðeins í persónur myndarinnar til að koma því til skila:

-This is gonna get pretty interesting.
-Define “interesting”.
-Oh God, oh God, we're all going to die?


-I'm risking my crew on the theory that you're a real person. If you're not, you might as well shoot me now…
[River cocks the gun she is pointing at Mal]
-Or, we could talk more.


Serenity er mynd sem verður aldrei leiðinleg. Hún er líka algjört augnayndi. Bardagaatriðin eru snilld og atriðin sem gerast í geimnum eru ótrúlega flott, sérstaklega byrjunaratriðið þar sem Serenity er fyrst sýnd sem er listalega vel gert. Ég get ekki hrósað þessari snilld nógu mikið. Farið og sjáið hana núna. Star Wars má fara til helvítis fyrir mér, Serenity er skíturinn!!

*****/*****