The Exorcism of Emily Rose

Útgáfuár: 2005.
Handrit: Paul Harris Boardman og Scott Derrickson.
Leikstjórn: Scott Derrickson.
Aðalhlutverk: Laura Linney, Tom Wilkinson, Campbell Scott og Jennifer Carpenter.
Sýningarstaðir: Regnboginn, Smárabíó, Laugarásbíó og Borgarbíó.
Sýningartímar: http://kvikmyndir.is/?v=bio.

The Exorcism of Emily Rose hefur hlotið talsverða athygli að undanförnu vegan þess að myndin hefur verið kynnt sem sönn saga. Sagt er að í Austurríki (að ég held) hafi þessir atburðir farið fram seint á áttunda áratugnum og í myndinni er búið að færa þetta yfir á smábæ í Bandaríkjunum (hvert annað?). Leikstjórinn Scott Derrickson hefur ekki gert mikið í kvikmyndaheiminum en leikstýrði þó fimmtu Hellraiser myndinni, Hellraiser: Inferno, sem að mér skilst að hafi valdið vonbrigðum en þar eð ég hef ekki séð hana vil ég ekkert meira um það segja.

Yfirlit söguþráðar:
Myndin byrjar á því að réttarlæknir er kallaður til á heimili Rose-fjölskyldunnar þar sem dóttir þeirra, Emily (Carpenter), hefur látist. Að sögn prests hennar (Wilkinson) var Emily andsetin og hann framkvæmdi misheppnaða særingarathöfn á henni sem olli dauða hennar. Ríkisvaldið býr mál á hendur prestinum og kennir honum um hvernig fór fyrir stúlkunni. Lögfræðingurinn Erin Bruner (Laura Linney) er ráðin til að verja prestinn og upphaflega er það aðeins vegna þess að henni er lofuð stöðuhækkun fyrir verkið. Erin er efasemdarmanneskja sem að lítur aðeins á réttarhaldið sem leið til að komast upp valdastigann en brátt fara réttarhöldin að hafa djúpstæðari áhrif á hana. Réttarhöldin verða brátt endurskin af ágreiningnum milli vísindaheimsins þar sem allt þarfnast sannanna og hins yfirnáttúrulega og óútskýranlega þar sem öll náttúrulögmál virðast bresta.

The Exorcism of Emily Rose er svo miklu meira en aðeins hryllingsmynd. Myndin er fjöllaga og inniheldur dýpri ágreining og merkingu en virðist í fyrstu. Írafárið sem framleiðendur myndarinnar hafa skapaði í kringum hana í sambandi við að hún sé sönn hefur vissulega áhrif hvort sem það er satt eður ei. Myndin hefur færst yfir á annað merkingarsvið en margar svona myndir þar sem það er viðtekið viðhorf hjá áhorfandanum að myndin eigi sér stað í öðrum heimi. Þegar ég segi í öðrum heimi meina ég að áhorfandinn hugsar að slíkir atburðir gætu ekki gerst í okkar heimi. Það að láta þetta gerast á okkar tíma og að kynna myndin sem sanna sögu göfgar myndina og gæðir hana djúpstæðari merkingu. Ekki aðeins er reynt að ná til áhorfandans á sálrænan hátt heldur er réttarhöldunum og þar með myndinni í heild stillt upp sem einum djúpstæðusta ágreiningi nútímans. Ágreiningur milli vísindaheimsins sem við lifum í þar sem rökfesta og sönnunarbyrði er eini viðtekni sannleikurinn og síðan heims djöfla og engla, hins yfirnáttúrulega og óútskýranlega, sem samræmist ekki vísindahugsjónum nútímamannsins. Hinni óumflýjanlegu staðreynd er varpað upp; hvort sem við trúum á djöfla eður ei geta þeir samt sem áður ráðist á okkur ef tilvist þeirra er sönn.

Myndir um ólíkamsbundin, ill öfl sem spila á áhorfandann á sálrænan hátt er eitthvað sem nær miklu frekar til mín en myndir eins og Hostel þar sem splatter og líkamsviðbjóður eru aðalhryllingurinn. Hugmyndin um særingar og að djöflar geti tekið sér bólfestu í líkama mannsins og hrein, ólíkamsbundin illska er það sem myndin spilar út á. Ef þetta er eitthvað sem ykkur hryllir við er The Exorcism of Emily Rose mynd fyrir ykkur. Allaveganna var ég skíthræddur nánast allan tímann. The Exorcism of Emily Rose býður upp á spennuþrungið andrúmsloft og eftirvæntingin eftir hryllingnum er eitthvað sem að mér finnst miklu meira spennandi en oft það sem augað sér. Jafnvel í rólegum réttarhaldaatriðunum var ég samt kvíðinn yfir því sem koma skyldi og er það afgerandi hrós til myndarinnar. Á einum tímapunkti myndarinnar fór Emily inn í kirkju til að flýja alla illu andana en hún var ekki laus við þá þar. Þarna er eiginlega eini griðastaðurinn sem áhorfandinn gæti ímyndað sér tekinn frá honum og eina vonartilfinningin sem áhorfandinn hefur er rifin í tætlur. Hvernig ykkur líkar myndin fer náttúrulega allt eftir því hvernig áhrif svona umfjöllunarefni hefur á ykkur. Ég er viss um að einhverjum hefur fundist myndin leiðinleg, óspennandi og óáhugaverð.

The Exorcism of Emil Rose er stillt upp sem réttardrama og á meðan atburðirnir eru skýrðir í réttarhöldunum er saga andsetningar Emily Rose sýnd í endurlitsatrðium. Leikararnir standa sig vel í myndinni. Laura Linney sýnir prýðisgóðaframmistöðu og mér hefur alltaf líkað mjög vel við Tom Wilkinson. Jennifer Carpenter stendur sig líka vel og tekst að túlka hina andsetnu Emily með hreinum ágætum. Tónlistin í myndinni er alltaf mjög góð og virkar eins og hún á að gera í hryllingsmynd; ýkir tilfinningu og stemningu myndarinnar hverju sinni. Myndatakan var einnig skemmtileg.

Niðurstaða:

Þegar allt kemur til alls er The Exorcism of Emily Rose mjög fín særingarmynd sem býr einnig yfir djúpstæðari merkingu og ég hvet alla til að kíkja á hana og láta í ljós sína skoðun. Ef hins vegar hugmyndir um ill, ólíkamsbundin öfl og særingar hræðir ykkur ekki ættuð þið að láta kyrrt við liggja.

*** - ***1/2 / *****