JFK Morðið á John F. Kennedy er einhver mesta ráðgáta sem vitað er um og fram til dagsins í dag eru enn óljóst hver drap hann. Nafn Lee Harvey Oswald hefur oftast komið við sögu í sambandi við það hver drap Kennedy og héldu bandarísk yfirvöld því fram á sínum tíma að hann hefði verið einn að verki. Þegar betur er að gáð virðist samt vera mikið af óhreinu mjöli í pokahorninu þegar tekið tillit til aðstæðna og margir halda því fram að morðið hafi verið valdarán og eitt risastórt samsæri.

Þetta er einmitt umfjöllunarefnið í kvikmyndinni JFK eftir Oliver Stone en hún segir frá saksóknaranum Jim Garrison (Kevin Costner) og félögum hans sem komast á slóð sem virðist engan endi taka.

Frá fyrstu mínútu til mínútu 206 (já hún er svolítið löng) er maður svoleiðis troðfylltur af upplýsingum að það er nánast ómögulegt að innbyrða þetta allt. Maður verður eiginlega að horfa á myndina allavega tvisvar til þess að ná að fylgja þessu öllu saman. Tugir persóna koma við sögu og þær stöður fylla leikarar eins og Joe Pesci, Kevin Bacon, Gary Oldman, Jack Lemon, og Tommy Lee Jones. Það má víst segja að hér eru magnaðir leikarar á ferðinni.

Eftir því sem líður á myndina þá verður Jim haldinn meiri og meiri þráhyggju gagnvart morðinu ,sem vindur alltaf upp á sig með hverjum deginum sem líður, og samsærinu sem hann heldur fram og maður verður að gefa Kevin Costner smá hrós fyrir frammistöðuna sem Jim Garrison. Leikur hann fantavel.

Handritið sem Oliver Stone skrifaði ásamt Zachary Sklar upp úr tveimur samsærisbókum er alveg pottþétt og það er alveg augljóst að þeir hafa unnið heimavinnuna sína. Ekki skemmir fyrir þessi frábæra samsetning sýnishorna og útskýringa sem vara alla myndina til að maður fái aðeins betri sýn á hlutina. Oftast í svart/hvítu t.d. þegar Jim Garrison er að véfengja það að Lee Harvey hafi skotið 3 skotum á undir 6 sek. þá kemur klippa þar sem Lee Harvey (Gary Oldman) sést skjóta þremur skotum á mjög góðum tíma. Mér finnst það vera mjög mikilvægt fyrir myndina að hafa þessi litlu skot sem koma inn í annað slagið.

Þrátt fyrir að myndin sé mjög löng, eins og ég skrifaði áðan 206 mín. þá er hún alls ekki langdregin og missir aldrei dampinn. Hún rígheldur manni og sannfærir mann gjörsamlega að þetta hafi verið samsæri og ekkert annað.

Þetta er ábyggilega ein besta mynd sem ég hef séð þá fær hún skiljanlega fimm stjörnur af fimm mögulegum.