Útspil Dreamworks teiknimyndadeildarinnar þetta sumarið er myndin Shrek, sem nýlega kom út í Bandaríkjunum og hefur verið sýnd þar við góða aðsókn og ágætis dóma hjá gagnrýnendum. Myndin segir frá Shrek, sem er góðhjartaður grænn ‘ogre’ eða risi. Hann býr í sínu húsi í fenjunum í einhverju ótilgreindum fantasíuheimi og er bara hinn ánægðasti með lífið, það eina sem hann þarf að hafa áhyggjur af eru heimskir bændur sem mæta öðru hvoru með heygaffla og eldfæri til að reka ‘skrímslið’ í burtu úr fenjunum. Þetta breytist allt þegar hann kynnist asna nokkrum með munnræpu sem á eftir að breyta lífi hans svo um munar.
Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá þessa ræmu í vikunni og get með sanni sagt að þetta er alger SNILLD. Fyrir það fyrsta er grafíkvinnan í þessari mynd alveg ótrúleg, allir karakterar og útlit er eins og best verður á kosið, i.e. brjálæðislega flott!
Raddirnar eru ekki af verri endanum, Mike Myers(Shrek), Eddie Murphy(Donkey), Cameron Diaz(Princess Fiona) og John Lithgow sem Lord Farquaad eru svona þau helstu.
Það er alveg óhætt að mæla með þessari fyrir alla aldurshópa, þetta er alveg frábær mynd og á eftir að verða klassískt dæmi um það að fleiri en Disney og Pixar geta gert tæknilega fullkomnar teiknimyndir sem höfða sterkt til allra aldurshópa, án þess að detta niður á lægsta samnefnara.

(það má svo til gamans geta að það eru nokkur rætin skot á Disney í myndinni)