Platoon
1986
Leikstjórn og Handrit: Oliver Stone

Leikendur: Charlie Sheen, Tom Berenger, Willem Dafoe, Forest Whitaker, Francesco Quinn, John C. McGinley, Richard Edson, Kevin Dillon, Reggie Johnson, Keith David, Johnny Depp, Mark Moses

Lengd myndar: 120 mínútur


Að mínu mati er Platoon besta og jafnframt skemmtilegasta stríðsmynd sem gerð hefur verið (ásamt auðvitað meistaraverkinu Apocalypse Now). Oliver Stone er mikill snillingur og þessi mynd hans er hreint yndisleg. Auðvitað er ekkert yndislegt við umfjöllunarefni myndarinnar: herflokkur sem skiptist í tvo hópa, staddur í sjálfu Víetnam stríðinu með öllu sem því fylgir og þar að auki þá hata hóparnir hvorn annan. Stone nálgast samt sem áður efnið á hreint guðdómlegan hátt og spilar reynsla hans í Víetnam stríðinu væntanlega stóran part í því. Í stað þess að fókusa mikið á sjálft stríðið og bardagana eins og margar aðrar stríðsmyndir fer Platoon meira út í persónurnar og vandamál þeirra, þó að það sé að sjálfsögðu stór skammtur af gómsætum bardögum til að gleðja augað. Það væri ekki slæm lýsing að segja - persónusköpun í hámarki en sprengingar í lágmarki.

Platoon er raunveruleg áhorfs og vel skapað andrúmsloftið (nær að sýna geðveiki stríðsins einstaklega vel) fer fullkomnlega við virkilega glæsilegt handrit og frábæra músík. Þessi mynd er vissulega ‘low budget’ en það kemur ekki á nokkurn hátt niður á myndinni og hlutir eins og kvikmyndataka og klipping eru í topp formi. Charlie Sheen er góður í aðalhlutverkinu og það er magnað að fylgjast með persónu hans þróast í stríðinu. Gæðaleikarnir Tom Berenger, John C. McGinley, Johnny Depp, Forest Whitaker og Keith David eru allir sannfærandi í misstórum hlutverkum sínum en Willem Dafoe er hinsvegar algjörlega stjarna myndarinnar. Dafoe fer hreinlega á kostum og frammistaða hans var verðlaunuð með tilnefningu til óskarsverðlaunana og hann átti þessa tilnefningu fullkomnlega skilið.

Til að binda enda á þessa grein - frábær stríðsmynd úr smiðju meistarans Oliver Stone sem fjallar á glæsilegan hátt um Víetnam stríðið og er svo sannarlega meðal bestu mynda kvikmyndasögunnar. Hvert einasta atriði er gleðiferð í þessum rússíbana sem þetta meistaraverk er. Ekki láta þetta listaverk fara framhjá þér.

Kveðja
Guðmundur Helgi Ómar Jónas